07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

Umræður utan dagskrár

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Þegar þessar umr. áttu sér stað um daginn, þá er það rétt að ég hafði kvatt mér hljóðs um það mál, og ég verð þó að segja það, að nú þegar þessari umr. er haldið áfram utan dagskrár —- (Forseti: Ég vil strax taka fram að það er eindregin ósk, að hv. þdm. stilli ræðutíma sínum í hóf, þar eð þetta eru umr. utan dagskrár. Ég bið þá að stytta mjög mál sitt.) Já, virðulegi forseti, það skal tekið til greina. En ég ætlaði að segja, að síðan þessar umr. fóru fram hefur ýmislegt verið upplýst sem þá lá ekki ljóst fyrir, og síðan hafa líka átt sér stað umr. í sjónvarpi, þannig að ég hygg að alþjóð og þm. sé þetta nokkru ljósara nú en þá var. Ég ætla þó að segja það, að mér finnst, eftir að hafa í allmörg ár setið yfir því að reyna að semja sem kennari réttlát próf, próf sem hefðu ákveðna kúrfu, skulum við segja, setið yfir því að meta slík próf, að þá er ekki laust við að mér ói svolítið við því ef nemendur eiga velgengni sina og framtíðarmöguleika undir því hvernig tölva kann að vinna úr þeirra úrlausnarverkefnum, ekki síst þegar um er að ræða unglinga á þeim aldri, að það er varla hægt að ætla að þeir hafi náð reynslu til að vinna úr prófum, reynslu eins og þroskaðir nemendur hafa á síðari námsstigum skóla. Ég lít þó svo á að það kerfi, sem verið er að taka upp núna, eigi ekki að vera nema einn þáttur af slíku mati.

Ég hygg að það sé rétt hjá mér, að sú stefna hafi komið inn með grunnskólalögunum að námsstarfið sjálft, eins og það gengi fyrir sig, yrði meir metið að verðleikum en út af fyrir sig útkoman úr prófi á lokastigi. Og ég held að það sé ákaflega mikilsvert að við höldum uppi þeim markmiðum, sem voru sett í grunnskólalögunum, að slíkt námsmat, sem hlýtur að vera á valdi þess kennara sem leiðir nemandann, að slíkt sjónarmið verði í heiðri haft og að það komi til með að vera eigi minni þáttur í námsmati en sá þátturinn sem fellur undir tölvuúrvinnslu.

Mér skilst að í þeim námsgreinum, sem metnar eru með tölvu, komi ekki inn í einkunnina á nokkurn hátt mat kennarans, þannig að það sé um lágmark að ræða í báðum flokkunum, hvort sem þeir eru metnir með tölustöfum frá 1–10 eða 0–10 eða með ákveðnum bókstöfum. En í sambandi við námsmatið vil ég segja það, að ég vænti þess að þessar umr. verði þó til þess að menn hugi vel að því að ekki hljótist slys af.

Ég vil beina einni spurningu í sambandi við þetta til hæstv. menntmrh. Í grunnskólalögunum er gert ráð fyrir því, að námsefni sé þokað til á milli bekkja. Á þeirri hugsun byggjast till. rn. um skólakerfið. Og ef ég man rétt, þá var gert ráð fyrir því, að á vissu árabili yrði náð því marki að framhaldsnámið eftir grunnskólann, sem stundað verður í formi menntaskólanáms, yrði stytt um eitt ár, þannig að nemendur hafi við lok grunnskóla tileinkað sér sambærilegt námsefni við það sem að undanförnu hefur verið kennt í 5. bekk, framhaldsbekk við marga gagnfræðaskóla og héraðsskóla, eða 1. bekk í menntaskóla. Mig langar til að fá upplýsingar um það, hvort haldið verður áfram á þeirri braut og hvort þær hugmyndir, sem nú eru uppi bæði varðandi námsskipan og próf, stefna að því að þessu marki verði náð.