08.03.1977
Sameinað þing: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

170. mál, stóriðja á Norðurlandi og Austurlandi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Eyjólfur Konráð — ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því — hann lýsti yfir því hér áðan, að hann væri andvígur Grundartangaverksmiðjunni. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um Grundartangaverksmiðjuna. Sú ákvörðun, sem tekin var um Grundartangaverksmiðjuna í félagi við Union Carbide, er fallin úr gildi, og Alþ. á enn eftir að samþykkja að reisa Grundartangaverksmiðju í félagi við Elkem-Spigerverket. Grundartangi er á Suðvesturlandi, og hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði áðan — ég skrifaði það orðrétt eftir honum: „er eindregið andvígur því að tekin verði ákvörðun um byggingu fleiri stóriðjufyrirtækja á Suðvesturlandi.“

Ég býð hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson velkominn í hóp okkar andstæðinga Grundartangaverksmiðjunnar. Ég skal þó játa það, að ég treysti því ekki fullkomlega að hann greiði rétt atkvæði þegar þar að kemur.

Grunsemdir hans um það, að til standi að reisa enn fleiri verksmiðjur en nú er rætt um hér á þessu svæði, eru hins vegar ekki ástæðulausar. Nú fyrir nokkru gekk á milli bæja á Hvalfjarðarströndinni — í sambandi við áform Landsvirkjunar um að leggja byggðalínuna inn fyrir Hvalfjörðinn og út eftir ströndinni — gekk á milli bæja teikning þar sem mönnum er sýnt hvar sú lína á að liggja sem nú er að koma. En á sömu teikningu hafði verið rissuð inn næsta lína og hún er frá væntanlegri Hrauneyjafossvirkjun. Frá Hrauneyjafossvirkjun var rissuð inn lína á Grundartanga. Og það er enginn vafi á því, að þessi lína er þar inn komin vegna þess að það eru þegar uppi áform um að reisa aðra verksmiðju á Grundartanga í viðbót við járnblendiverksmiðjuna, sennilega álverksmiðju.

Það má vera til marks um það, hvað menn hafa vitkast í sambandi við stóriðjumálin þrátt fyrir allt, hvaða tónn er nú kominn í menn eins og Eyjólf Konráð Jónsson sem um árið talaði um býsna margar álverksmiðjur, — hann segir að það hafi ekki verið 20 sem hann vildi fá, en margar voru þær, það eitt er víst, enda var þá þess háttar hugur í stóriðjumönnum að þeir drógu arnsúg í flugnum. Og þá taldi hv. þm. að sjálfsögðu óhætt að kasta fram hugmyndum um svo og svo margar slíkar verksmiðjur. Nú reynir hann hins vegar aftur og aftur að bera þetta af sér. Ég heyrði hann ekki áðan nefna hvað verksmiðjurnar hefðu verið margar, sem hann hefði talað um, en þær voru ekki 20. Kannske hafa þær ekki verið nema 10, býsna margar verksmiðjur samt. Og hann er líka farinn að viðurkenna það, að nú hafi viðhorf breyst. Hann segir að þörfin fyrir stóriðju sé ekki sú sem hún var. Heiður sé honum fyrir það. Nú sé þörfin fyrir stóriðju hvergi nærri eins mikil og hann taldi hana vera í þá daga, vegna þess að eftir að við höfum fært út landhelgina, tryggt yfirráð okkar yfir fiskimiðum okkar, þá verði sjávarfang svo mikið að það verði þörf fyrir orku og mannafla á þeim vettvangi miklu meiri en við ætluðum áður. Þetta er sannarlega rétt athugað. Það verður svo mikil þörf fyrir allt okkar vinnuafl til þess bæði að veiða fiskinn og vinna hann í landi, að við megum ekki sjá af einni einustu hendi inn í verksmiðjur stóriðjunnar. Þess verður ekki langt að bíða, eins og hér hefur verið bent á í þingræðum, samkv. áliti fiskifræðinga að botnfiskaflinn einn geti farið upp í 900 þús. tonn á ári. Með tilliti til þessa eru náttúrlega enn fáránlegri allar þessar áætlanir um stóriðju á Íslandi.

Ég endurtek þetta: Ákvörðun um Grundartangaverksmiðjuna hefur enn ekki verið tekin.

Það er alveg sama hvað kann að vera að gerast í höfði hæstv. iðnrh. eða annarra slíkra. Það er eftir að fjalla um málið endanlega hér á Alþingi. Og eins og blasir við öllum þingheimi, þá dregst það mjög að það mál komi úr n. Og hver er ástæðan til þess? Ástæðan til þess er sú, að sú trygging, sem norski aðilinn veitir fyrir hreinsitækjum og öðrum mengunarvörnum, er ekki talin nándar nærri eins mikil og sú trygging sem Union Carbide gat þó veitt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Heilbrigðiseftirlit ríkisins veitir ekki starfsleyfið vegna þess að skilyrði þess í þessu efni eru ekki uppfyllt.