09.03.1977
Neðri deild: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

41. mál, dvalarheimili aldraðra

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Vegna skráðrar fjarveru minnar við afgreiðslu málsins í hv. heilbr.- og trn. vil ég gjarnan koma að þeirri skýringu, að einhverra hluta vegna misfórst fundarboð til þessa fundar og ég hafði ekki hugmynd um hann fyrr en ég sá mig hér skráða fjarverandi.

Um málið að öðru leyti vil ég segja það, að ég get tekið undir með hv. fyrra flm. frv. að ég hefði ekki talið óeðlilegt að málinu hefði verið vísað til ríkisstj. í staðinn fyrir að fella það. Hins vegar sé ég ekki að það breyti nokkru um gang málsins. Sjálf mun ég sitja hjá við þessa atkvgr.

Það er yfirlýst stefna þeirrar ríkisstj., er nú situr að völdum, að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og færa fleiri verkefni yfir til sveitarfélaga frá ríkinu. Þessari stefnu er ég heils hugar fylgjandi. Hitt er svo annað mál, að það þýðir náttúrlega lítið að flytja yfir frá ríki til sveitarfélaga verkefni nema nauðsynlegt fjármagn fylgi með, einhverjir tekjustofnar til að standa straum af auknum byrðum sem á sveitarfélögin eru lagðar.

Nú fjallar sérstök n. um þessa verkaskiptingu og þá tekjuskiptingu um leið, og ég hlýt að leggja áherslu á það hér, að þessi góða n. hraði nú störfum sínum eftir mætti, þannig að þetta svífi ekki öllu lengur í lausu lofti. Það hlýtur að verða lögð áhersla á það, að eitthvað komi út úr störfum þessarar n. sem byggjandi sé á til framtíðar.

Það er enginn vafi á því, að þessi mál aldraðra eru best komin í höndum heimamanna, og sú þróun, sem hefur átt sér stað undanfarin ár vegna aðstöðuleysis í heimabyggðum, að fólk hefur verið sent hingað á suðursvæðið þar sem þó er aðeins rýmra um vistun fyrir þetta fólk, það er mjög slæm lausn nema í einstaka tilfelli. Það er ómannúðlegt, félagslega ótækt, að rífa jafnvel nauðugt upp úr sínu heimaumhverfi aldrað fólk og planta því niður hér á annað landshorn, í umhverfi sem það finnur sig framandi í og festir áreiðanlega aldrei yndi í, enda gera menn úti um landsbyggðina og sveitarfélög sér í vaxandi mæli grein fyrir þessu.

Eins og ég sagði áðan er mjög mikill og vakandi áhugi á að geta sinnt þessum málum að gagni. Þá hefur þar auðvitað komið upp eins og hér, að það er ekki eina lausnin að byggja dvalarheimili í gamla stílnum, heldur koma aðrar leiðir þar til greina, svo sem íbúðir aldraðra og dagvistun aldraðra. Allar þessar leiðir hljóta að vísu alltaf að vera nauðsynlegar blandaðar hver annarri, en ég hygg að tvær þær síðari, sem ég nefndi, eigi vaxandi fylgi að fagna bæði meðal ráðamanna og ekki síst meðal aldraða fólksins sjálfs. Ég sá að hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, hefur kvatt sér hljóðs hér á eftir, og ég vænti þess að hann geri þessu nánari skil og þá einnig í sambandi við happdrættið sem hefur verið réttilega bent hér á að landsbyggðin hefur kannske ekki notið af eins og sanngjarnt væri með tilliti til þess, að mikill hluti hagnaðar t. d. happdrættis dvalarheimilis aldraðra hefur komið frá landsbyggðinni, enda mun nokkur hluti ágóðans renna til svæða utan Reykjavikur, og ég skírskota enn til væntanlegs máls hv. 8. þm. Reykv. um þetta efni. En ég vil leggja áherslu á það, að þetta er mjög aðkallandi verkefni, og því aðeins styð ég ekki þetta frv. hér um að taka upp aftur hlutdeild ríkisins í þessu, — því aðeins styð ég það ekki að ég treysti því að það eigi ekki langt í land að sveitarfélögunum verði séð fyrir nauðsynlegum tekjum til að standa straum af þessum útgjaldalið.