14.10.1976
Efri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

21. mál, leiklistarlög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, að ég vona að þetta frv. komist áleiðis sem fyrst og nái fram að ganga. Og ég tek líka undir það, að ríkisvaldinu ber að einhverju leyti að styðja þessa áhugastarfsemi eins og svo marga aðra, t.d. íþróttahreyfinguna og fleira. Það er ekki ómerkilegra starf sem er unnið innan þessara samtaka.

Ég efast ekkert um að það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að leiklistarfólk telji ávinning með tilkomu þessara laga. En ég vil benda á þá hættu og þá staðreynd í sambandi við lög um áhugafélög og starfsemi þeirra, hvort sem það er leikhússtarf eða hljómlistarstarf, nefni þessar tvær greinar sérstaklega vegna þess að það er mest áberandi, að þau eru að verða meiri og meiri baggi á sveitarfélögunum.

Það stendur hér í lok 2. gr., að „sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið verður í fjárhagsáætlun þeirra, þó eigi lægri fjárhæð til hvers leikfélags en ríkissjóður greiðir“. Þetta er fjarstýring á sveitarfélögunum. Það er ekkert víst að sveitarfélög hafi nokkur efni á því að veita sömu upphæð til leiklistarstarfsemi, hver á sínum stað, í þeim mæli sem ríkisvaldið gæti hugsanlega viljað gera. Ég veit að Reykjavík á í afskaplega miklum erfiðleikum með t.d. starfsemi hljómlistarskóla og fleira, þar sem við erum knúnir til að veita fé að því marki sem ríkisstj. ákveður hverju sinni, enda kemur hér fram í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta, þá ætla ég að lesa það upp:

„Frv. þessu, ef að lögum verður, er ætlað að marka í megindráttum hversu haga beri stuðningi ríkisvaldsins og sveitarfélaga við leiklistarstarfsemina. í hví eru hins vegar engin fyrirmæli um fjárhæðir framlaga. en gert er ráð fyrir að hær verði ákveðnar í fjárlögum hverju sinni.“

Það verður sem sagt ekki ákveðið í fjárhagsáætlun sveitarfélaga, heldur skal í fjárlögum hér á Alþ. ákveða hverju sinni hvað framlag sveitarfélaga skal vera mikið. Þessu vil ég mótmæla.

Það segir í þessari grein, sem ég var að lesa upp úr aths. með frv., það sem ég ætla að endurtaka: „Frv. þessu, ef að lögum verður, er ætlað að marka í megindráttum hversu haga beri stuðningi ríkisvalds og sveitarfélaga“ o.s.frv. Það er þessi fjarstýring sem ég vil vara við. Ég vil því heina til menntmn. þessarar hv. d. að hún taki þetta til athugunar, og ef hún sér ekki ástæðu til að breyta þessu mun ég áskilja mér rétt til þess að flytja brtt. við þessa grein.