21.03.1977
Neðri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir, enda finnst mér í raun og veru að það felist ekki í því nein breyting frá lögunum, sem sett voru í fyrra, heldur aðeins staðfesti frv. það sem þá var tilgangur löggjafans að gera. Það var tilgangur löggjafans þá að allar þær konur, sem væru aðilar að verkalýðssamtökunum, fengju fæðingarorlof. Hins vegar má vel vera að svo klaufalega hafi verið frá þessu gengið að það hafi ekki staðist lagalega þegar átti að fella um það úrskurð af lögvísindamönnum, en tvímælalaust er að þetta var tilgangur laganna og andi þeirra, og mér finnst það hefði nú verið eðlilegra að fara eftir honum heldur en kannske að túlka lögin á þrengsta hátt, eins og gert hefur verið við framkvæmdina.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er að ræða um það bráðabirgðaákvæði sem fylgdi lögunum frá 27. maí 1975. Þessi lög um fæðingarorlof í sambandi við atvinnuleysistryggingar voru að sjálfsögðu mikil réttarbót fyrir þær konur sem njóta þeirra. En hins vegar sköpuðu þær líka mikinn misrétt hjá konum. Ég nefni aðeins sem lítið dæmi, af því að það er nokkuð ljóst, hús hér í bænum. Á efri hæðinni býr maður sem er félagi í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og hefur allgóð laun. Kona hans vinnur úti. Hún eignaðist barn og hún fékk fæðingarorlof. Í kjallaranum býr hins vegar Dagsbrúnarmaður, sem er láglaunamaður. Kona hans á fjögur börn svo að hún getur ekki unnið úti. Hún eignaðist barn, og ég held að hún hafi ekki fengið neitt fæðingarorlof. Það er þetta misrétti sem nauðsynlegt er að bæta úr, og að þessu hné það bráðabirgðaákvæði sem er í lögunum frá 27. maí 1975. En þetta bráðabirgðaákvæði hljóðar á þessa leið:

„Fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Þessu verkefni átti sem sagt að vera lokið fyrir 1. jan. 1976. Ég get því miður ekki skýrt frá því hver framkvæmdin hefur orðið í þessum efnum, og því miður er hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki viðstaddur til þess að geta greint frá því. En ég held að það hljóti að liggja í augum uppi, að fyrst búið er að veita stórum hluta kvenna rétt á fæðingarorlofi, þá á að ganga brautina til fulls og verður að gera það fyrr en seinna. Og það var líka tilgangur Alþ. með þessu bráðabirgðaákvæði sem fylgdi lögunum frá 27. maí 1975. Ég álít að fyrst þetta mál er komið hér til meðferðar á annað borð, þá eigum við að láta þetta atriði ekki síður til okkar taka heldur en þá leiðréttingu sem verið er að gera á lögunum. Ég vil þess vegna beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort hún vildi ekki athuga það að taka upp í bráðabirgðaákvæði atriði sem væri eitthvað á þessa leið:

Ríkisstj. skal í byrjun næsta þings leggja fram frv. til laga um fæðingarorlof sem tryggir sambærilegt fæðingarorlof öllum konum í landinu.

Ég vil vænta þess að n. athugi þetta atriði alveg sérstaklega, og helst, að hún taki það upp. Annars gæti ég hugsað mér að flytja till. um þetta við 2. umr.