22.03.1977
Sameinað þing: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

264. mál, byggingarþróun heilbrigðisstofnana 1970-1976 og ýmsar upplýsingar um heilbrigðismál

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það var inn á eitt atriði sem ég vildi gjarnan koma og varð til þess að ég kvaddi mér hljóðs, en það var raunar atriði sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á. Ég vil taka undir það sem aðrir ræðumenn hafa sagt hér á undan mér, að ég vil þakka fyrir þá ítarlegu skýrslu, sem hér hefur verið flutt. Það kemur greinilega fram í henni, að það hefur verið ákveðið stefnt að þeim markmiðum sem sett hafa verið með lögunum frá 1973, að auka vægi heilsugæslunnar í landinu og á þann veg annars vegar að auka fyrirbyggjandi aðgerðir, þannig að til alvarlegs sjúkleika komi síður, og gera það á þann hátt, að á heilsugæslustöðvunum verði lækningarnar sjálfar auknar sem og að þar fari fram í auknum mæli rannsóknarstörf. En með því að auka vægi þessa þáttar væri hægt að draga úr aukningu sjúkrahúsakostnaðarins, miðað við þá aukningu sem þar yrði við óbreytt ástand. En ekki er ég svo bjartsýnn að ætla að með aukinni þekkingu getum við stigið þau spor á næstunni að draga úr þeim kostnaði raunverulega. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, að við eigum æðilangt í land enn með að ná því marki, sem stafar af því, að við eigum langt í land með að byggja upp heilsugæslustöðvarnar víða um land sem og að fá til þeirra starfsmenn, lækna, sem geti sinnt þessum þætti vítt og breytt um landið svo sem æskilegt væri.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á mál sem kemur fram í þáltill. sem hann mælti hér fyrir um daginn um að auka skipulagningu sérfræðiþjónustu úti á heilsugæslustöðvunum sjálfum, og vitnaði þar t. d. í hvernig skipulagðar hafa verið á undanförnum mörgum árum ferðir augnlækna um landið. Vissulega hafa líka verið skipulagðar ferðir annarra sérfræðinga. Og ég vil taka undir það, að ég tel að það eigi að sinna þessum þætti í auknum mæli. En ég geri mér alveg grein fyrir því, að enda þótt við náum því marki að byggja upp heilsugæslukerfi um landið, þannig að það sé komið í það sem við skulum segja viðunandi horf, þá verður ætíð svo, að viss rannsóknarstörf hljóta að verða unnin á þeim stöðum þar sem sérhæfðust eru tækin og bestir eru kunnáttumenn á sviði lækninga, þegar um er að ræða tiltölulega fátíða sjúkdóma. Í þessum tilvikum kemur landsfólkið alltaf til með að sækja hingað til Reykjavíkursvæðisins og e. t. v. sjúkrahússins á Akureyri, þar sem slík þjónusta verður veitt, en ekki á hinum minni heilsugæslustöðvum. Og þá kem ég að því, hvort hægt er á þessu sviði að minnka sjúkrahúskostnaðinn vegna slíkra lækninga, vegna hreinna rannsóknarstarfa, sem fara nú fram innan veggja sjúkrahúsanna.

Hv. síðasti ræðumaður kom einnig inn á að það væri dýrt og erfitt fyrir einmitt sjúklinga á landsbyggðinni að leita slíkra lækninga, bæði varðandi ferðalög og eigið uppihald, t. d. hér á höfuðborgarsvæðinu, í slíkum ferðum sínum áður en sjúkrahúsvist hefst eða þegar henni lýkur. Hér í Reykjavík hefur starfað nú um sem næst þriggja ára bil Rauðakrosshótel við mjög góðan orðstír. Þetta hótel hefur samkv. skýrslunni aðeins á að skipa 28 legurúmum, en sjúkrahótelið á Akureyri 8 rúmum, en það tók til starfa seint á liðnu ári. Ég held, að það ætti að gefa þessum þætti mjög mikinn gaum, hvort ekki er hægt að auka vistrými sjúkrahótela þannig að sjúklingar geti verið þar meðan á vissum rannsóknum stendur. Ég geri mér vissulega ljóst, eins og hæstv. heilbrrh. kom inn á áðan, að í sumum tilvikum verður slík rannsókn að fara fram innan veggja sjúkrahúsanna. En ég hef samt sem áður þá trú, að það sé hægt að vista sjúklinga á slíkum hótelum þar sem daggjöld eru ekki nema lítið brot af þeim daggjöldum sem greiða þarf á sjúkrahúsum. Ég hygg t. d. að daggjöld á sjúkrahótelinu hér í Reykjavík séu nú ekki nema 2300 kr. Ég veit ekki hvort það er orðin gömul tala, en hún var það ekki alls fyrir löngu. Þá sjáum við það, þegar við erum að tala um daggjöld upp á 18 þús. eða e. t. v. meira í dag, að þarna er orðinn geysilegur munur á kostnaði. Og tilgangur minn hingað upp var eingöngu sá að beina því til hæstv. heilbrrh. að hann við athugun á þessum málum heiti sér fyrir því, að þessi þáttur verði sérstaklega skoðaður. Ég er sannfærður um að það væri hagkvæmt kostnaðarlega séð fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu að þessi þáttur væri aukinn.