24.03.1977
Efri deild: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

186. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Eins og sjá má á nál. á þskj. 412 hefur landbn. fjallað um þetta frv. og leggur þar til að það verði samþ. óbreytt.

Eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. við 1. umr. þessa frv. felur það í sér framlengingu á því ákvæði, að ráðh. geti leyft slátrun í sláturhúsum sem enn hafa ekki fengið löggildingu til frambúðar, þó því aðeins að slátrun og meðferð sláturafurða geti staðist kröfur dýralæknis. Þetta heimildarákvæði hefur verið í gildi um nokkurt skeið, tímabundið eins og einnig er gert ráð fyrir í því frv. sem hér er til umr.

Þegar landbn. Ed. fékk þetta mál til meðferðar gerði hún tilraun til þess að ná til yfirdýralækna og ræða við hann um efni frv., en hann var þá erlendis í leyfi svo það hefur ekki náðst til hans. Hins vegar fékk n. Hauk Jörundsson skrifstofustjóra í landbrn. til fundar við sig. Eins og fram kom í ræðu hæstv. landbrh., sem ég minntist á hér áður, hefur hann ákveðið að fela þeim Hauki Jörundssyni og Sveini Tryggvasyni að gera athugun á þeim sláturhúsum sem ekki hafa fengið löggildingu. Að sögn Hauks Jörundssonar er þeirri athugun hvergi nærri lokið. Skýrði hann okkur svo frá, að þeim hefðu ekki enn borist umsagnir frá viðkomandi dýralæknum um þau sláturhús sem þeir hefðu óskað eftir umsögnum um, en hann taldi að ætla mætti að hér væri um að ræða 25–30 sláturhús sem ekki hefðu þessa fullkomnu löggildingu. Hann taldi að ýmis þessara húsa stæðu hinum löggiltu húsum ekkert að baki að því er varðar meðhöndlun sláturafurða og hreinlæti við slátrun. Önnur sagði hann að mundu þurfa nokkurra endurbóta við til þess að leyfi fengist til slátrunar í þeim, en það er nú allt í athugun að nýju eins og áður sagði. Víða er svo háttað að ekki er unnt að synja um sláturleyfi vegna sérstakra staðhátta um samgöngur eða atvinnu, og verður þá að beita undanþáguheimildinni að fengnum lagfæringum til bráðabirgða, um leið og unnið er að frambúðaraðgerðum.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. Það er eins og áður sagði framlenging á heimildum sem hafa verið í lögum til þessa, og eins og ég áðan sagði ber nál. með sér að landbn. öll varð sammála um að leggja það til við hæstv. d. að frv. verði samþ. óbreytt. Þess ber þó að geta að Jón Árnason var fjarverandi þegar málið var afgreitt frá nefndinni.