28.03.1977
Sameinað þing: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara mikið inn á almennar umr. að þessu sinni. Ég gerði við fyrri umr. þessa máls grein fyrir því hvernig málið lægi þá fyrir, en siðar hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar sem ganga í þá átt að auka framkvæmdamátt vegafjárins á þessu ári frá því sem var á s. l. ári, þannig að þrátt fyrir verðlagshækkun er framkvæmdamátturinn fullkomlega það sem var á því ári í nýbyggingu og meira í vegaviðhaldi. Á þessu vil ég vekja athygli og endurtaka það, sem ég sagði við fyrri umr. þessa máls, að með þessari vegáætlun er verulega brotið í blað um viðhaldsfé, því að þó ofurlítið hafi þar verið breytt til á þessu ári er það ekki gert á því næsta, en þar er um að ræða verulega hækkun.

Ég vil í sambandi við það, sem hv. 11. landsk. þm. sagði í ræðu sinni áðan, taka fram að til þess að fá tekjuöflunarheimild til lántöku þarf engin sérstök lög þar um. Í almennum lögum um tekjuöflun til Vegasjóðs og vegagerðar er slík heimild fyrir hendi. Hins vegar hafa í ákveðnum tilgangi verið samþykkt sérstök lög þar um og eru fordæmi til um það hér á hv. Alþ. frá fyrri árum.

Enda þótt, eins og ég sagði við fyrri umr., hér sé um of litla fjárveitingu að ræða til vegagerðar, þá er þó hækkunin á milli áranna 1976 og 1977 á milli 1300 og 1400 millj. kr. Það er verðhækkunin sem veldur því að hér er ekki um verulega fjárhæð að ræða til framkvæmda. En það er eins og gerist um aðrar okkar framkvæmdir og er hér um enga undantekningu að ræða.

Áður en ég vík frekar að þessum þætti vil ég víkja að till. á þskj. 426 um veginn í Bláfjöll. Í sambandi við þá till. vil ég geta þess, að í till. til þál. um vegáætlun er liðurinn 2.4 til fjallvega o. fl. Þar er fé sem vegamálastjórnin gerir till. um skiptingu á og vegaráðh. hefur svo endanlegt úrskurðarvald um hvernig skipta beri. Á sínum tíma, er ég var fjmrh., átti ég þátt í því að láta fé til þessa vegar í Bláfjöll og gleðst nú mjög yfir því, því að með þeirri vegagerð fundu reykvíkingar útivistarsvæði sem er afskaplega mikils virði, og ekki bara reykvíkingar heldur fleiri njóta þess að dvelja þarna og hefur það náð miklum vinsældum. Hefur verið rætt um það við mig að þessi vegagerð væri á vissan hátt ófullkomin og þyrfti endurbóta við. Ég hafði rætt við núv. vegamálastjóra um hvort ekki væri mögulegt, þegar til skiptingar á þessu fé kæmi, að láta einhverja fjárhæð til þess að bæta þennan veg. Hann tók mjög vel í það og sagðist reyndar hafa hugsað sér að það yrði að taka þar af verstu snjóastaðina og einhverjar millj. þyrfti til þess. Ég vil segja það í sambandi við þessa till., að þar sem það er ekki venja að skipta þessu fé í vegaáætlun heldur hefur vegamálastjórnin gert það og aldrei verið um það deilt, að hún annað en gert það samviskusamlega, eins og hennar er von og vísa, og svo mundi verða enn, þá get ég gefið fyrirheit um að á yfirstandandi ári muni á þessum liðum sem eru þarna, til fjallvega o. fl., verða varið 3 millj. kr. til þessa Bláfjallavegar og í framhaldi af því muni það verða athugað betur á næsta ári hvað hægt væri að gera fyrir veginn til þess að hann mætti koma að því gagni sem til var ætlast, þegar hann var opnaður, og hann hefur verið notaður til. Það er því ósk mín til hv. flm. að þessi till. verði dregin til baka, því að eins og hún er hér hefur hún ekki fjárveitingu á vegáætluninni og skapar þar halla og mundi ekki treysta það betur en þessi orð mín gera að tryggja framkvæmd málsins. Ég treysti því að hv. flm. hafi ekki athugað fullkomlega framkvæmd málsins þegar þeir fluttu þessa till., en um framkvæmdina mun verða séð að þessu sinni.

Nú er það svo með margt, að það er breytingum undirorpið, og er ekki nema gott um það að segja og ekki alltaf sem menn geta reiknað með því, eins og hv. 5. þm. Vestf., að það verði engu breytt og ákvörðun, sem kann að verða tekið um skiptingu fjármagns til vega nú, verði ekki breytt í náinni framtíð. Mér finnst að vegáætlun fyrir þetta ár sýni að svo er ekki, því að það er æðimikill munur á fjárveitingu t.d. fyrir Reykjaneskjördæmi núna en verið hefur áður, sem stafar auðvitað af því að Reykjaneskjördæmi hefur á sínum tíma fengið verulegt fjármagn til vegaframkvæmda, þó að ég hins vegar taki undir það, að betra hefði verið að þurfa ekki að ganga svo langt í því sem raun ber vitni um að draga úr fjárveitingum til þess. En þar er ekki um að saka að öðru en því, að við treystum okkur ekki til meiri fjárútvegunar í heild til vegaframkvæmda heldur en gert hefur verið. Þess vegna held ég að hv. 5. þm. Vestf. megi ekki reikna með því að við séum að afgreiða hér eilífðarmál sem aldrei verði um breytt síðar.

Út af því, sem sagt hefur verið um vinnubrögð í fjvn., þá veit ég að hv. 11. landsk. þm. heldur við það, sem hans er von og vísa, að þó að honum hafi mislíkað nú, þá viti hann að þetta var í fyrsta sinn sem skipt var eftir nýjum lögum og það mátti svo sem gera ráð fyrir því, ekki síst þegar var minna að skipta en menn hefðu óskað, að það væri eitthvað við þetta að athuga. En eins og kom fram hjá hv. 11. landsk. þm., þá vissi hann að félagar hans í fjvn. höfðu enga löngun til þess að sniðganga hann og munu taka upp við hann eðlileg vinnubrögð hér eftir sem hingað til. Hins vegar verð ég að segja það, að fjvn. fær með nýju lögunum aukin áhrif til skiptingar á vegafé. Ef við tökum árið 1374, sem var þó það ár sem menn vitna mikið til, þá var það svo að til hraðbrauta fóru af heildarfjárveitingunni 30.8%. Yfirleitt hefur það verið svo með hraðbrautarfjárveitingar að fjvn. hefur ekki skipt þeim, heldur hefur það verið Vegagerðin og vegamálaráðh., hver sem hann hefur verið, og svo var í þetta sinn. Til þjóðbrauta fóru það ár 7.7% af heildarfjárhæðinni og til landsbrauta 9.7%, eða samtals til landsbrauta og þjóðbrauta fóru 17.4%. Þetta var raunverulega fjármagnið sem fjvn. skipti þá. Ákvörðunin var hjá henni um hvernig þessu yrði skipt milli einstakra kjördæma. Önnur atriði í vegáætluninni voru þannig, að Skeiðarársandur fékk 23.8%, Austurlandsáætlun 6.4%, Skeiðarársandi var ekki skipt, það var ákvörðun um hverju til hans skyldi varið samkv. fjáröfluninni. Austurlandsáætlun var ekki skipt nema af þm. þar og Framkvæmdastofnuninni. Norðurlandsáætlun var með 10.5% sem á sama veg var með farið. Það var ákvörðun ríkisstj. að veita fé til Þingvallavegar það ár, sem var 4.8%, og til Djúpvegar var áætlun líka 105 millj. eða 6.3%. Allt var þetta gert án þess að einstakir þm. eða fjvn. réði þessu. Þess vegna er það mitt mat að með þeim lögum, sem sett voru í fyrra, sé stefnt inn á þá braut að auka vald fjvn. Það mun sýna sig að svo verður, þó að kannske hafi í fyrstu lotu einhver atvik leitt til þess að hv. þm. hafi ekki verið ánægðir með skiptinguna. Það verða þeir sennilega aldrei, hvernig sem með er farið hjá fjvn. Hinu verður ekki breytt, að fjvn. fær með nýju vegalögunum meira vald en áður hefur verið. T. d. er það svo, að til stofubrauta er nú varið 60.1% sem skipt er af fjvn. og til þjóðbrauta er varið 16.5% til annarra verka, sem ekki var ákveðið af fjvn. Það er hin ágæta Borgarfjarðarbrú sem vinur minn, hv. 5. þm. Vestf., hefur sérstakar mætur á, enda mun hann eiga eftir að njóta þeirrar brúar síðar meir ekki síður en aðrir þegar hann fer á milli höfuðstaðarins og heimilis síns. Til hennar er varið 16.5%, en Skeiðarársandur tók árið 1974 23.8% af heildarfjárhæðinni. Til Holtavörðuheiðar er farið 2.7% og til Oddsskarðs 4.2%. Þetta var ekki ákvörðun n., heldur till. Vegagerðar og vegamálaráðh., eða 23.4% af vegafé sem þetta ár er ráðið af öðrum en hv. fjvn., og auðvitað er það svo, að það eru ráð fjvn. þó að þar myndist meiri og minni hl. í þessum málum sem öðrum. Þess vegna tel ég að það sýni sig að stefnubreyting sé fólgin í lagabreytingunni sem gerði það að verkum að fjvn. hefur meira vald á þessum málum en hún áður hafði. Að því var stefnt. Það voru komnar fram veilur í hinum eldri lögum, og það sýndi best að hluti af fjárveitingunum til Vestfjarða í fyrra var ekki samkv. lögum. Það var ekki um að ræða að væri samkv. ákvæði í vegalögum sú fjárveiting sem fór til Hörgsnesvegar bæði 1975 og 1976. En hv. 5. þm. Vestf. gleymir svona smámunum af því að þeir voru honum þá í hag. (Gripið fram í.) Já, en ákvörðun var ekki tekin samkv. reglunni sem fjvn. gerði um skiptingu á milli þjóðbrauta og landsbrauta, og var þó hv. 5. þm. Vestf. einn af fjvn.- mönnum.

Hv. 8. landsk. þm. talaði hér áðan og auðvitað út frá sínu sjónarmiði. Hann var að tala um hvað illa væri farið með viss svæði landsins þar sem vegir væru verstir, og hann og hv. 5. þm. Vestf. eru alveg öruggir um að meta það hvar vegir eru verstir. Ég treysti mér ekki til þess, enda hef ég ekki þá hæfileika eða einsýni til að bera sem þeir. En ef hv. 8. landsk. læsi upp úr ræðu formanns Alþfl., sem hann flutti er vegáætlun fyrir 1972 var til meðferðar hér á hv. Alþ., en það er einmitt sú vegáætlun sem þessi hv. þm. leggur til grundvallar í sínu nál., þá talaði þáv. hv. 2. landsk. um þessa vegáætlun og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef litið er til framkvæmda þeirra, sem síðasta ríkisstj. gekkst fyrir í vegamálum, tel ég tvímælalaust merkilegasta þá stefnu sem hægt er að kalla hraðbrautarstefnuna. Í lok stjórnartímabilsins fór síðasta ríkisstj. inn á þá braut að útvega stórfé til að gera framkvæmdir sem tryggja okkur í fyrsta skipti hraðbrautir sem hægt er að kalla því nafni, að undanskildum Keflavíkurveginum. Þetta var tímabær stefnubreyting, og það var farið mjög myndarlega af stað.“

Nú ætla ég ekki að eyða tímanum í að lesa frekar úr þessari ræðu, en ég held að hv. 8. landsk. verði að tala hv. formann Alþfl. til, til þess að vita hvort hann hefur nú breytt um stefnu og skoðun á þessum málum því að þetta fellur ekki saman.

Út af því sem rætt hefur verið hér og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf., þá vil ég endurtaka það sem ég hef áður sagt, að það er stefnubreyting um viðhald til þjóðvega nokkur á árinu 1977 og veruleg á árinu 1978. Því verður ekki á móti mælt. Og það sem nú gerðist var að draga aðeins úr þessu vegna hagstæðrar vetrarveðráttu til að bæta úr til nýbygginganna. Um verktakalánin vil ég segja það, að það mál er nú miklu betur undirbúið en var á síðasta ári, og þess vegna er ég nokkurn veginn sannfærður um að það verður auðvelt að koma þeim málum í framkvæmd eins og til er ætlast. Ef það tekst ekki, verður að hafa það og verður ekki úr framkvæmdum, en ég veit að það mun takast.

Ég skal ekki fara að ræða frekar við hv. 5. þm. Vestf. um Vestfirði, og ég ætla ekki heldur að fara að ræða neitt við hann um brúna yfir Borgarfjörð. Hann má halda þessu áfram eins lengi og hann hefur löngun til. Það sakar mig ekki, og það sem mest er um vert, það sakar ekki verkið sjálft og það skiptir meginmáli. Það er nú svo með stærri verk og þannig verður það þegar farið verður að vinna að endurbótum á veginum yfir Breiðadalsheiði, að þá munu hv. alþm. sjá að nauðsyn ber til að hraða framkvæmdinni sem verulegt fjármagn er komið til, vegna þess að það er of dýrt að vera með það of lengi. Það, sem hv. þm. á að deila á mig fyrir, er hvað ég er hófsamur í fjárveitingum í þetta verk því að auðvitað þarf að hraða því eins og öðrum stórverkum.

Út af því, sem hv. þm. sagði og aðrir um happdrættisféð vegna Norður- og Austurvegar, þá vil ég segja það, að það fé hefur nú þegar markað veruleg þáttaskil og verið unnið verulega mikið að framkvæmdum þótt betur megi ef duga skal. Framkvæmdin á Holtavörðuheiði er verulegt átak og áfram verður haldið á þeirri braut. Það kom fram í skýrslu þeirri, sem ég skýrði frá í dag, að verið er að vinna á Hrútafjarðarhálsi og verið er að vinna í kringum Blönduós og verið er að vinna að vegagerð í Vakhólmi í Skagafirði, og það er verið að vinna við Austurveginn á Suðurlandi og áfram austur. Þetta hefur verið hægt vegna happdrættisfjárins sem við höfum notað. Að öðrum kosti hefðum við haft minna fé til ráðstöfunar til vegagerðar, ef þetta fé hefði ekki verið til. Hitt er alveg rétt, að það hefur ekki verið eins mikill hraði í vegaframkvæmdum og við hefðum kosið, en það hefur samt aukið hraðann í þessum framkvæmdum. Það er sama að segja um Öxnadalsheiðina. Þar var einnig fjárveiting og verður áfram til endurbóta á henni vegna happdrættisfjárins. Og það hefur verið svo, að það hefur verið afar erfitt að fá hv. þm. til þess að taka til greina vegi á þeim svæðum sem liggja á milli héraða, en þeir ern ekkert siður nauðsynlegir heldur en þeir sem innan héraða eru. Þeir eru misjafnlega nauðsynlegir, en það efast enginn um nauðsyn svæðisins á milli Norður- og Suðurlandsins og sama er á milli Austur- og Suðurlands og Austur- og Suður- og Vesturlands, allt er þetta jafnnauðsynlegt og verður reynt að vinna að því með þeim hraða sem við treystum okkur til.

Eitt af því, sem ég hafði dálítið gaman af hjá hv. 5. þm. Vestf., sem ég að vísu hef oft gaman af því að maðurinn er skemmtilegur, það var þegar hann fór að ráðast á að það hefði verið dregið úr viðhaldi á bundnu slitlagi, því að ef ég man rétt var það ein af aths. í ræðu hans við fyrri umr. um vegáætlun, að of miklu fé væri nú varið til þess, og eins hafi verið með verkfræðilegan undirbúning, það hafi verið talið að of mikið væri veitt til hans. En við því er ekkert að segja þó menn færi sig til eftir atvikum. En ég tek það fram, eins og áður hefur komið fram í því sem ég hef hér sagt og ég sagði við fyrri umr., að of lítið er að gert í vegamálum og það er af þeirri einföldu ástæðu að við erum í stórverkefnum sem hafa skilað okkur verulegum árangri, eins og orkumálin. Það er ekkert að efast um það, að þau eru þegar búin að skila okkur verulegum árangri. Það sýnir t. d. hvað dregur úr innflutningi á olíu núna, það er vegna þess hve duglega hefur verið að því staðið að dreifa hitaveitunum. Þannig verðum við að málum að standa og þá verðum við stundum að velja á milli.

En í sambandi við vegamálin vil ég með samþykki ríkisstj. gefa yfirlýsingu svo að hv. þm. þurfi ekki að velta fyrir sér, því að þrátt fyrir það að hér hafi ekki enn þá tekist að koma breytingum á tekjuöflun til Vegasjóðs, hefur þó mikið verk verið unnið í þeim málum, og það var von mín að hægt væri að ljúka því verki svo að hægt væri að afgreiða það á þessu þingi. Það tókst því miður ekki. En það er unnið áfram að því að athuga þessi mál miðað við þær aðstæður sem nú eru. Ég sýndi fram á það við fyrri umr. að t. d. bensínhækkunin hefur gert það að verkum að bensínskatturinn er nú þrátt fyrir hækkun í krónutölu ekki nema 25% af bensínverðinu frá því að vera um 50% áður. Þetta hefur auðvitað veruleg áhrif á Vegasjóð. Ég vil líka segja það, að ef svo vel tækist nú til að tekjur Vegasjóðs á þessu ári reyndust hærri en áætlað væri, þá væri það mikið gleðiefni, því að það, sem á hefur skort, er m. a. að þær hafa ekki staðist áætlun. Nú er of snemmt að segja um það. Þó að tveir fyrstu mánuðir ársins séu betri en sömu mánuðir í fyrra, þá er það nú ekki nóg til þess. En reynist svo, þá nýtur vegagerðin þess í fyrsta lagi á þann hátt, að ef um vanáætlun er að ræða í þeim verkefnum sem til framkvæmda koma, þá tryggir það framkvæmd þeirra og vegagerðin mun njóta þess. En í framhaldi af þessu vil ég fyrir hönd ríkisstj. gefa svo hljóðandi yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt vegáætlun sé gerð til fjögurra ára og endurskoðun samkv. vegalögum ekki ráðgerð fyrr en á Alþ. 1978–1979 hefur ríkisstj. ákveðið að láta endurskoða ljárframlög til vegamála á Alþ., þegar á næsta hausti. Mun það gert í tengslum við fjárlagagerð og lánsfjáráætlun, þannig að það fé, sem til vegamála er ætlað árið 1978, verði aukið. Ríkisstj. mun einnig beita sér fyrir því að lög um happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar nái tilgangi sínum þó að nokkru seinna verði en ætlað var. Upphæð útboðsins samkv. lögum verður því hækkað sem svarar því fé sem að láni hefur verið tekið. Verða samkv. þessari yfirlýsingu vegamálin tekin á ný til afgreiðslu hér á hv. Alþ. á hausti komanda.“

Þessa yfirlýsingu vil ég gefa samkv. samþykkt ríkisstjórnarfundar, og sýnir það að að þessum málum er þegar verið að vinna þó að ekki hafi tekist að ná þeim árangri sem til var ætlast við þessa vegafjárafgreiðslu. Hins vegar hefur nokkrum árangri verið náð. Það verður ekki hægt annað en viðurkenna það, hvað sem menn að öðrum kosti kynnu að óska sér.