30.03.1977
Efri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

146. mál, tékkar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. En ég vil — og það er að nokkru leyti tilefnið til þess að ég kem hér upp aftur — leiðrétta það, að ekki var í mínum huga misnotkun fyrirtækja sem hafa hvað mest með ávísanaviðskipti að gera, heldur einmitt misnotkun þeirra sem skipta við fyrirtækin. Ég get upplýst það hér að ég rak verslun, þó nokkuð umfangsmikla varahlutaverslun fyrir ákveðna bifreiðategund, sem ég var á þeim árum umboðsmaður fyrir, ásamt öðrum stærri vélum, og fann ég mig tilneyddan að neita að taka við greiðslu í ávísunum frá öðrum bönkum og peningastofnunum en þeim sem gáfu mér upplýsingar um að innstæða væri fyrir hendi og meira en það, þegar ég hringdi í bankann, áður en ég tók við ávísun sem greiðslu, á sama hátt og í viðskiptum sem ég hef átt erlendis meðan ég bjó þar. Þá gat bankinn tekið frá þá upphæð, sem ávísunin var gefin út á, gegn því að gefa upp númer, dagsetningu og upphæðina á ávísuninni. Þá skipti ekki öllu máli hvort ég kom með ávísunina í bankann til innheimtu sama dag eða nokkrum dögum seinna, innstæða var frá tekin. Þess vegna tek ég undir það með hæstv. ráðh., að það þarf að athuga það miklu betur hvort ekki þarf að setja strangari reglur varðandi bankana sjálfa um útgáfu á ávísanaheftum, þannig að það skapist ekki þessi eltingarleikur við einstaklinga sem gera það að leik að gefa út falskar ávísanir. Ég held að það mundi auðvelda mjög öll ávísanaviðskipti ef bönkunum væri sett einhver upplýsingaskylda um innstæður á þann hátt sem ég gat um, þannig að gefi maður upp upphæð, númer á ávísun, hver gefur hana út og hvenær hún er dagsett, þá sé viðkomandi banki þar með búinn að taka frá upphæð til greiðslu á þeirri ávísun.

Ég hefði gjarnan viljað hafa hér þó nokkrar umr. um þessi ávísanamál, en ég ætla að láta það bíða þangað til þetta mál kemur aftur til umr. og mun þá til upplýsingar fyrir ráðh. m. a. koma að ráðstöfunum á tekjum Seðlabankans eða viðskiptabankanna af því sektarfé sem myndast í tékkasjóði og kannske fleiri sjóðum Seðlabankans.