13.04.1977
Sameinað þing: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

148. mál, bygging nýs þinghúss

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Nokkrir hv. þm. Alþfl. flytja hér till. um að hafinn verði undir­búningur að nýbyggingu fyrir Alþ. vestan við núverandi þinghús og stefnt að því að fyrsta skóflustungan veriði tekin á 100 ára afmæli al­þingishússins árið 1981. Ég held að þessi till. sé allrar athygli verð, því að ég held að það geti tæpast dulist neinum hv. þm. eða öðrum að þörfin fyrir nýtt þinghús er orðin mjög brýn. Þrengslin hér í þingsalnum eru óviðunandi með öllu, og þessi þrengsli bitna reyndar ekki aðeins á hv. þm., heldur ekki síður á gestum þeirra og áheyrendum. Satt að segja er það furðulegt að áheyrendum að umr. hér á Alþ. skuli vera boðið að sitja uppi á þeim hænuprikum sem eru hér fyrir ofan okkur. Ég held hins vegar að það sé nokkur meinloka að Alþ. geti hvergi annars staðar átt heima en í þessari kvos, þar sem það er nú. Ég vil að vísu alls ekki útiloka þann möguleika, en mér finnst það ekkert sjálfgert mál. Ég tel því sjálfsagt og eðlilegt, ef þetta mál verður nú tekið til nýrrar athugunar, að það sé þá gert á breiðari grundvelli en till. gerir ráð fyrir. Það eru mikil þrengsli í þessari litlu kvos, þar sem miðbær Reykjavíkur er, og alveg sérstaklega þegar hafðar eru í huga þær kröfur sem gerðar eru til bíla­umferðar og stæðis fyrir bíla og bifreiðar.

Nýtt alþingishús er reyndar ekki eina stórbygg­ingin sem talað er um að reyna að koma fyrir í þessari kvos. Við vitum að stjórn Seðlabanka Íslands hefur verið önnum kafin við það á undanförnum árum að reyna að koma fyrir stórbyggingu hér í miðbænum og hefur ekki gengið vel. Eins hafa ríkisstj. fleiri en ein gert tilraun til að fá það samþ. að nýtt stjórnarráðs­hús verði reist hér í miðbænum, nánar tiltekið á svonefndri Bernhöftstorfu við Lækjargötu, en einnig með misjöfnum árangri og engar ákvarð­anir hafa enn verið teknar um þá byggingu. Og flestir minnast sjálfsagt þeirra tilrauna sem gerðar voru á sínum tíma til að koma upp ráð­húsi einmitt hér á svipuðum slóðum — ráðhúsi fyrir Reykjavíkurborg. Ég er einn af mörgum sem eru þeirrar skoðunar að þessar stórbygg­ingar eigi ekki heima hér á miðbæjarsvæðinu og það sé tilgangslaust og óþarft að vera að reyna að troða þeim hér niður þar sem ekki er pláss fyrir þær. Ég held að það sé miklu hyggilegra að reyna að velja nýjan, rúmgóðan stað þar sem vel getur farið um þessar byggingar og hægt er að koma þeim fyrir í fögru og vistlegu umhverfi, þar sem einnig er sæmilegt rúm fyrir aðvífandi umferð.

Með þetta í huga flutti ég ásamt hv. þm. Svövu Jakobsdóttur till. á þinginu 1973–1974, veturinn 1973–1974, þar sem lagt var til, að kosin yrði 7 manna milliþn. sem gerði í samráði við skipu lagsyfirvöld till. um hvar hagkvæmast væri að velja stað nýjum byggingum fyrir æðstu stjórn landsins, þar sem ljóst væri orðið að á núver­andi miðbæjarsvæði í Reykjavík yrði ekki í fram­tíðinni nægilegt landrými fyrir helstu stjórnar­stofnanir ríkisins. Í till. sagði einnig: „Á því svæði, sem valið yrði, skal m. a. gera ráð fyrir byggingum fyrir Alþingi, ríkisstj. og ráðuneyti, Seðlabanka Íslands og aðrar ríkisstofnanir, eftir því sem þurfa þykir. Þó skal gert ráð fyrir að ríkisstofnunum, sem ekki eru háðar æðstu stjórn landsins í daglegum störfum sínum, verði í framtíðinni valinn staður í þéttbýliskjörnum úti um land, utan höfuðborgarsvæðisins.“

Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta sé skyn­samlegasta stefnan. Ég vil ekki fullyrða neitt um hver sá staður sé sem heppilegastur er. Það þarf að skoða betur. Lengi vel hafði ég hug á og reiknaði með að hyggilegast yrði að velja þessum stjórnarstofnunum stað á hinu nýja mið­bæjarsvæði sem ráðgert hefur verið í Fossvogi. En vel má vera að nú sé of seint að koma þessum stofnunum þar fyrir. Það veit ég ekki. Það má vera að það sé liðin tíð að þar sé rúm fyrir þessar stofnanir. Þetta þyrfti að sjálfsögðu að athuga nánar. En ég vil leggja á það áherslu að margir aðrir staðir hér í grenndinni koma til greina, og það þarf að sjálfsögðu að leggja tals­verða vinnu í að athuga það með hliðsjón af áætluðu skipulagi á þessu svæði hvar slíkar stofn­anir ættu best heima.

Þetta er sú athugasemd sem ég vil gera við till. hv. þm. Ekki það að ég hafi neitt á móti því að samþ. sé að undirbúningur að nýbyggingu fyrir Alþ. sé hafinn, heldur hitt, að mér finnst nokkuð óskynsamlegt að slá því föstu að þessi bygging skuli tvímælalaust vera vestan við núver­andi þinghús. Ég held að það sé engin ástæða til að slá föstu, hvar staðurinn sé, fyrr en að betur athuguðu máli.