14.04.1977
Neðri deild: 65. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er nú dálít­ið erfitt að fara beint úr orkumálunum í menn­inguna, en það mun rétt vera, að ég hafði kvatt mér hljóðs þegar þetta mál var til umr, um daginn. En einhvern veginn hef ég ekki haldið til haga því sem þá var til umr. og því sem ég ætlaði að ræða sérstaklega um. En þó er eitt atriði sem mig langar til þess að minna á vegna þess að hæstv. menntmrh. innti mig eftir því nokkru áður en fundur hófst, hvenær sem það nú var, fyrir hálfum mánuði eða svo, að hann óskaði eftir því að vera viðstaddur umr. um þetta mál. Þess vegna var það m. a. tilgangur minn með því að fara í ræðustól þá að fara fram á að málinu yrði frestað þar til hæstv. menntmrh. yrði við til þess að ræða þetta mál.

Þetta er óneitanlega mikið mál og snertir auðvitað grunnskólalögin fyrst og fremst, að ég hygg, eins og þetta er sett fram. Ég er sammála flm. um að hér er um stórt mál að ræða og mjög nauðsynlegt að fara að koma því svo fyrir að tónlistarfræðsla geti átt sér stað í öllum skólum landsins. En ég vil samt minna á það, að gert er ráð fyrir því í lögum um grunnskóla að lögin séu framkvæmd á tilteknu árabili. Ég man nú ekki hvort það eru 8 eða 10 ár sem lögin greina um þetta. Og við höfum auðvitað alltaf gert okkur grein fyrir því, að eitthvað af þessum atriðum hlaut að verða út undan í framkvæmd­inni, a. m. k. nokkur ár. Ég hygg þess vegna að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðh. sé hér við til þess að gefa skýringu á því hvernig stendur um framkvæmd þessa máls. Þess vegna vil ég nú leyfa mér að mælast til við hæstv. forseta að þessu máli verði ekki haldið áfram hér án þess að hæstv. menntmrh. sé viðstaddur.