15.04.1977
Sameinað þing: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ef dæma má eftir þeirri skýrslu, sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram og flutt, hefur verið harla tíðindalítið í utanríkismálum íslendinga síðustu 12 mánuði eða svo. Ekki mun þó í raun og veru vera hægt að segja þetta um tímabilið, heldur hefur það verið ærið viðburðarríkt. En hæstv. ráðh. hefur valið þann kost að vísa út og suður í stærstu málin með örfáum orðum og velja leið hagræðing­arinnar, segja sem allra minnst, en fylla upp í þau mál sem ekki eru eins umdeild eða tíðinda­mikil. Kann að vera að þessi stefna hans í skýrsl­unni valdi því að Alþ. hefur ekki nokkurn áhuga á þessari skýrslu eða umr. um hana og hefur vantað a. m. k. 4 af hverjum 5 alþm. á fundinn í dag. Tel ég þetta miður, af því að ég hygg að það sé nú reynsla í þjóðþingum nágrannalanda, og ætti svo að vera hér líka, að árleg umr. um utanríkismál sé með stærri viðburðum þingsins og hún sé þannig undirbúin að þm. hafi á henni áhuga og vilji taka þátt í henni, aðrir en einn talsmaður fyrir hvern flokk. Þessar umr. taka heila daga og nætur í höfuðborgum Norðurland­anna, svo að dæmi sé nefnt.

Af því, sem hæstv. ráðh. hefur nálega sleppt eða nefnt með örfáum orðum, nefni ég fyrst landhelgismálið. Það er að vísu rétt hjá honum, að mönnum er það vel kunnugt. Þó væri fróðlegt að fá mat hans á þeim tíðindum, sem gerst hafa undanfarið ár, og því, hvernig landhelgismálið stendur í næsta nágrenni við okkur.

Í öðru lagi tel ég að hæstv. ráðh. hafi alger­lega gengið fram hjá einu skuggalegasta utan­ríkisvandamáli sem íslenska þjóðin á nú við að stríða, sem er gífurleg skuldasöfnun erlendis. Þó er langur kafli í skýrslunni — og góður svo langt sem hann nær — um utanríkisviðskipti. En þetta meginatriði, sem hvenær sem er getur haft áhrif á skipti okkar við umheiminn, finnst mér að vanti og hefði átt að vera meginatriði sem aðrar upplýsingar um viðskiptamál snerust um.

Í þriðja lagi nefni ég það, að hæstv. ráðh. lætur sér nægja 6 línur um varnarmálin sem að jafnaði eru með stærstu þáttum í utanríkisskiptum okkar, og þykir mér þó keyra um þverbak þegar hann lýsir því yfir að hann þurfi ekkert um þau að segja af því að það sé komin fram till. um þau frá Alþb. Þar á umr. að fara fram. Þetta finnst mér vera lágkúrulegt af hæstv. ráðh. Hann á að hafa frumkvæði og ræða um þessi mál eins og hann vill og lofa öðrum að koma til sín, en ekki hlaupa á eftir einstökum till., eins og hann gerir, og vísa til þeirra í árlegri yfirlitsskýrslu ríkisstj. um utanríkismál.

Enn má nefna það, að lítið er fjallað um norrænt samstarf. Er vísað til annarrar og ágætr­ar skýrslu um það. En einnig þar eru mörg atriði sem mér finnst að eigi heima í almennri yfirlitsskýrslu og að ekki megi skorta einhverjar hugleiðingar um samband okkar við Norður­löndin, enda hefur ýmislegt verið að gerast þar, t. d. hið aukna efnahagssamband okkar við Noreg, viðburðir í öryggismálum norðmanna og við­komandi hafinu fyrir norðan okkur, umr. um öryggismál í Norðurlandaráði og fleira, sem allt jaðrar við hagsmuni okkar og full ástæða væri til að ræða.

Enda þótt rólegt hafi verið í landhelgismálinu og við höfum getað fagnað miklum sigri nú undanfarið hefur undanfarið tveggja missira tímabil ekki farið varhluta af stórum viðburðum á því sviði. Það hófst með þorskastríði sem stóð s. l. vor, samningum um það og síðan, eftir að þeir runnu út, þeirri blessunarlegu þróun að við erum lausir við breska togaraflotann. Þetta eru sögulegir atburðir og vafalaust þeir af atburðum þessa árs sem hæst mun bera í sögubókum ís­lendinga í framtíðinni. Enda þótt stjórnarand­staðan hafi á þessu tímabili veitt ríkisstj. all­hart aðhald og verið ósammála ýmsum atriðum í sambandi við framkvæmd þeirrar heildarstefnu sem þjóðin vill að minni hyggju öll standa sam­an um, þá er sjálfsagt að viðurkenna það, að árangur starfsins þetta ár hefur orðið sá að við höfum unnið mikinn sigur. En baráttan í land­helgismálinu hefur færst frá okkur yfir á næstu lönd fyrir austan okkur og verður fróðlegt að fylgjast með hver tíðindi þar gerast og hvort þau leiða til þess að mál verði aftur tekin upp varðandi landhelgi okkar. Ég vil láta í ljós þá eindregnu von, að ríkisstj. ljái ekki máls á að ræða um samninga við Efnahagsbandalagið, því að við erum ekki aflögufærir af þeim fiskstofn­um sem það hefur áhuga á. Slík skýrsla sem þessi hefði verið ágætt tilefni til að gefa stefnuyfir­lýsingu eða ítreka fyrri stefnu varðandi grund­vallaratriði þessa máls. Þá hefðu nokkrar línur orðið fréttnæmar og kannske getað gert gagn, sparað einhverjum mönnum suður í Brüssel tál­vonir eða jafnvel ferðalög.

Ég gat þess, eins og ég raunar gerði í þessari umr. á þinginu í fyrra, að ég tel skuldir íslend­inga við aðrar þjóðir vera orðnar hættulegt mál og raunar það mál sem hættulegast geti reynst sjálfstæði íslendinga. Við höfum horft upp á að fjármálaræðu breska fjmrh. er svarað af leið­toga stjórnarandstöðunnar með því að segja: Þetta var ekki fjármálaræða ríkisstj., heldur Al­þjóðagjaldeyrissjóðsins. Við fréttum af því að önnur skuldug verðbólguþjóð, Ítalir, hafi orðið að hlýða, boði og banni Alþjóðagjaldeyrissjóðs­ins. Eru þessi örlög á næsta leiti fyrir okkur? Þróunin í þessum málum hefur verið svo hættu­leg að það yfirskyggir öll smáatriði varðandi rekstur á viðskiptum okkar við umheiminn. Enn í ár ætlar ríkisstj. sér að taka 20 milljarða að láni erlendis, nota helminginn af því til að borga afborganir og vexti af eldri lánum, veita skuldunum á undan sér og bæta 10 milljörðum við. OECD, stofnunin í París, sem utanrrn. ann­ast samband við, hefur lýst því yfir að við ís­lendingar séum nú skuldugastir allra þjóða sem í þeim samtökum eru, en þar eru allar efna­hagslega sterkustu þjóðir heimsins. Innanlands er þetta mál svo alvarlegt í augum hugsandi manna, að jafnvel æskulýðssamtök Sjálfstfl., stærri stjórnarflokksins, láta frá sér fara óvenju­lega hörð og alvarleg mótmæli gegn þessari þróun.

Nú er mér ljóst að skipting viðskiptamála á milli utanrrn. og viðskrn. er eins og hún er. Hún hefur þróast þannig á alllöngu tímabili, og það kann að vera að hæstv. utanrrh. þyki það sér nokkur fjötur um fót í slíkum umr. eða takmarki það hvað hann getur sagt um viðskiptamál. En mér finnst alvara málefnisins sjálfs vera það mikil, að slík atriði ættu ekki að hindra að reynt væri að líta á þessi mál sem heild, því að það getur farið svo áður en langt líður að þessi mál verði orðin eitt af stærstu verkefnum utan­ríkisþjónustunnar.

Í byrjun skýrslu sinnar ræðir hæstv. ráðh. nokkuð um ástand í utanríkismálum almennt og kemur fljótlega að forseta Bandaríkjanna hinum nýja, Jimmy Carter, og nefnir þá að vonum viðhorf Carters til mannréttindamála. Þarf ekki að fjölyrða um að Carter hefur tekið upp þann hátt að veita þeim minnihlutahópum, sem berjast fyrir mannréttindum fyrir austan járntjald, að­allega í Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu, beinan stuðning í ræðum og með því að hitta fulltrúa þeirra að máli. Þetta hefur orðið til þess, að viðhorf til þessarar mannréttindabaráttu hefur orðið að meiri háttar utanríkismáli og a. m. k. nokkrir af utanrrh. Norðurlandanna hafa látið í ljós skoðun á þessum málum. Ekki var annað að heyra á utanrrh. svía, sem hér var í heimsókn, heldur en hún hafi verið ómyrk í máli um þetta, um vanþóknun sænsku ríkisstj. á stefnu t. d. tékka og einnig Sovétríkjanna.

Hæstv. utanrrh. Íslands lætur sér nægja að taka á heldur vægan hátt undir ummæli Carters, en segir ekkert frá eigin brjósti. Ekki efast ég um hans eigin skoðanir, þær koma fram í um­tali hans um Sameinuðu þjóðirnar. En hann hefur valið að fara miklu vægar í sakir heldur en næstu nágrannaríki okkar, og er það fróðlegt út af fyrir sig.

Mér er fullkomlega ljóst að það er erfitt vanda­mál hvort yfirleitt er hyggilegt að blanda saman siðferðilegu mati á stjórnvöldum í meðferð þeirra á þegnunum og milliríkjaviðskiptum. En þetta hefur gerst og farið eins og ferskur blær vegna þess hvert nýnæmi er að því. Carter hefur fengið jákvæðar undirtektir t. d. hjá sumum Norður­landanna og fleiri löndum í Vestur-Evrópu, þó að frá því séu undantekningar, eins og t. d. kanslari Vestur-Þýskalands. Ég tel ástæðu til að benda á að utanrrh. okkar gengur þarna skemmra en flestir nágrannar okkar og fer sér hægt í að taka undir þann stuðning sem baráttuhópar fyrir mannréttindum, sérstaklega í Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu, hafa fengið frá Vesturlöndum. Slíkur stuðningur hefur þar af leiðandi verið mjög lítill frá ríkisstj. okkar. Kann að vera að hæstv. ráðh. hafi ástæður fyrir því að hann velur þessa stefnu.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um öryggis- og samvinnuráðstefnuna, sem haldin var í Hels­inki á sínum tíma, og það samkomulag, sem kennt er við Helsinki. Mannréttindadeilurnar hafa risið í sambandi við þá ráðstefnu og í skjóli þess, að samningurinn, sem gerður var, opnar á vissan hátt fyrir það að samningsþjóðirnar geti rætt um ýmis mannréttindamál sem nefnd eru í viðkomandi „kúrfu“ samkomulagsins, án þess að hafa afskipti af innanríkismálum annarra.

Hins vegar vil ég taka fram að ég er mjög sammála því viðhorfi sem hæstv. ráðh. lætur í ljós til framþróunar Helsinki-sáttmálans og þeirr­ar ráðstefnu sem á að fara fram í Belgrad í Júgóslavíu nú á næstunni. Verður þar fjallað um hvernig þetta samstarf, sem tókst í Helsinki, þróist á næstunni. Ég tel það rétt, sem hann segir, að það væri óviturlegt að gera Belgrad­ráðstefnuna að neins konar réttarhöldum yfir einstökum þátttökuríkjum. Þótt mannréttinda­málstaðurinn sé góður væri miklu fórnað ef hann yrði til þess að splundra þessu samkomulagi algerlega, eins og ekki er útilokað að gæti gerst ef illa yrði á málum haldið í Belgrad.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um hafrétt­arráðstefnuna, og á því sviði get ég einnig tekið undir skoðanir hans. Ég vil láta í ljós þá skoðun að við íslendingar verðum að halda áfram virkri þátttöku í hafréttarráðstefnunni og sýna að við höfum áhuga á fleiru en því sem kemur okkur sjálfum til góða. Aðdragandi þessarar ráðstefnu var mjög merkur, þegar fram kom hugsjónin um það, að allt haf utan við landhelgi strandríkja skyldi verða sameiginleg eign mannkynsins og auðæfi hafsbotnsins skyldi verða hagnýtt fyrir fátækar þjóðir. Þetta er einhver stórbrotnasta hugsjón í alþjóðamálum sem fram hefur komið um langan tíma, og jaðrar við að hún jafnist við stofnun og tilgang Sameinuðu þjóðanna sjálfra. Þetta er auðvitað mesta þjóðnýting sem nokkrum manni hefur dottið í hug á jörðinni. En ég hygg að það sé þýðingarmikið skref fyrir örlög mann­kynsins að þetta takist. Ef það tekst ekki, þá mun ríkja ástand á höfunum sem verður kom­andi kynslóðum ekki til blessunar. Það er því mikilvægt að samkomulag náist um verkefni fyrstu nefndar á ráðstefnunni, sem er samning­urinn um úthafið, og ég vænti þess að íslenska sendinefndin, sem að minni hyggju hefur unnið gott starf, sérstaklega forustumaður hennar, um langt árabil, haldi áfram og leggi lóð sín á vogarskálar þess að lausn finnist á þessum vandamálum. Sitthvað er raunar óvíst enn varð­andi önnur mál sem þarna eru og gætu vel komið upp. Hæstv. ráðh. nefndi nokkur þeirra, og við eigum fullkomið erindi þó ekki væri nema til að fylgja þeim eftir. En tilhneiging hefur verið til þess að íslenska sendinefndin einbeitti sér að okkar eigin hagsmunamálum, en léti hitt algerlega sitja á hakanum, jafnvel að ganga svo langt að láta úthafsmálin vera sem eins konar verslunarvöru, þannig að við værum reiðu­búnir til þess að rétta þar einhverjum hjálpar­hönd sem vildi hjálpa okkur með fiskveiðilög­söguna. Þetta eru e. t. v. ekki annað en venjuleg vinnubrögð á alþjóðavettvangi, en engu að síður held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur og sóma okkar að við sýnum áfram jákvæðan áhuga á þessu máli.

Ég minntist á að hæstv. ráðh. hefði látið sér nægja fá orð um öryggismál okkar og varnar­mál. Mér finnst varnarmálin og framkvæmd þeirra vera svo umsvifamikil að það hljóti að vera efni í kafla í skýrslu einu sinni á ári að skýra þjóðinni frá nokkrum helstu atriðum í sambandi við þau. Það er ekki nóg að taka þau til umræðu annað eða þriðja hvert ár, þó að það sé þakkavert hvenær sem það er gert.

Í þessu sambandi sakna ég þess, sem mér finnst að Alþ. ætti að ræða, hverjar skoðanir okkar eru á þróun öryggismála í nágrenni við okkur, sérstaklega fyrir norðan okkur á Atlantshafinu, hvað er að gerast í samningum norðmanna og rússa sem geta haft áhrif á allt þetta svæði. Snertir þetta okkur nokkuð? En menn virðast ekki hafa mikinn áhuga á slíkum bollaleggingum eða tilraunum til þess að flytja upplýsingar, sem kynnu að vera fyrir hendi, eða draga fram skoð­anir annarra manna, þó að varla sé hægt að opna svo blað t. d. í Noregi að ekki séu greinar og fréttir um þessi mál. Og ég sakna þess líka að ekkert skuli vera rætt um hlustunartækni sem notuð er hér á Íslandi og umhverfis landið. Þó að fréttir segi okkur að hlustunardufl reki á land og fiskibátar veiði upp hlustunarkapla, þá ríkir einhver dómadagsþögn um þetta málefni sem hægt er að lesa um í erlendum tímaritum. Ef menn vilja kynnast þessari tækni, sem veldur því að hafið umhverfis Ísland, þ. á m. fiski­miðin, er morandi af hlustunartækjum Banda­ríkjanna og Sovétríkjanna og e. t. v. fleiri aðila, get ég vísað til árbókar þeirrar stofnunar í Stokk­hólmi, SIPRI, sem hv. síðasti ræðumaður gerði mjög að umtalsefni. Hygg ég að hann hafi ekkert ofsagt um það hversu fróðlegt er að fylgjast með þeim upplýsingum sem sú stofnun birtir um friðar- og vopnamál. Ég tel að þetta atriði, sem sjómenn okkar reka sig á og rekur upp á strendur okkar, sé veigamikið í sambandi við skilning á því, hvernig varnir Íslands eru framkvæmdar, hvað það er sem er að gerast hér, hvernig stendur á því að önnur ríki hafa áhuga á okkur og af hverju sá áhugi stafar. En veigamikið svið, sem getur veitt okkur skýringar sem hafa áhrif á þessi mál, er ekki talað um. Íslenska þjóðin hefur aldrei heyrt þetta nefnt fyrr en hún heyrir fréttirnar, og íslensku blöðin eru nú einu sinni þannig, að þau taka þessi dufl og fara að gera úr þeim annaðhvort rússagrýlu eða einhverjar vangaveltur um að ameríkanar hafi skrifað með rússnesku letri á duflin, þó að ekki þurfi nema miðlungs áhugamann um þessi mál til þess að geta ímyndað sér hvað þarna er á ferðinni.

Ég hef aldrei verið í þeirri stöðu að fá neinar upplýsingar um varnarliðið undir þagnarheiti og hef aldrei getað fengið neinar upplýsingar um þessa hluti frá varnarliðsmönnum hér á Íslandi eða NATO-mönnum í Brüssel eða Norfolk. En með því að lesa þekktustu rit um þessi mál kemst maður að þeirri niðurstöðu að eitthvað meira en lítið hljóti að vera á ferðinni.

Ég sakna þess einnig að heyra jákvæðar fréttir frá hæstv. ráðh. um flugstöðvarmálið á Kefla­víkurflugvelli. Það var sagt fyrir nokkrum ára­tugum, þegar mönnum þóttu framkvæmdirnar við Miklubraut í Reykjavík ætla að dragast, að strákur hafi verið spurður að því hvað hann ætlaði að gera þegar hann yrði stór, og hann sagði: Ég ætla að vinna í Miklubrautinni. Ég held að það hljóti að fara svo að yngri menn í vissum embættum geti sagt, að það verði ævi­starfið þeirra að dunda við það að undirbúa þessa flugstöð. Ég er sjálfur sannfærður um að búið væri að reisa hana ef vinstri stjórnin hefði ekki forklúðrað þeim málum eins og öðru í ís lenskum utanríkismálum. En aðskilnaðurinn á milli farþegaflugsins og varnarliðsins er aðkall­andi mál. Það er óþolandi fyrir virðingu ís­lendinga að þetta skuli blandast saman á þann hátt sem gerist á flugvellinum.

Ég sakna einnig nánari frásagna um ýmislegt annað í sambandi við rekstur flugvallarins til viðbótar við sitthvað sem hefur komið fram í fjölmiðlum og var nefnt í ræðu síðasta ræðu­mann. Er forvitnilegt að vita hver viðhorf manna eru til öryggis farþega á flugvellinum. Það er stórmál á flugvöllum um allan heim, þótt það snerti e. t. v. ekki varnirnar beint. Einnig væri forvitnilegt að heyra hvernig öryggisbún­aði flugvallarins fyrir farþegaflug í heild er háttað.

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma í að ræða fleiri atriði sem hæstv. ráðh. drap á. Um mörg þeirra, eins og viðhorfin til Suður-Afríku og til þróunarlandanna, er ég algerlega sammála því sem fram kemur í skýrslunni. Ég gleðst eins og aðrir yfir því sem hefur náðst í sambandi við hjálpina við þróunarlöndin, þó að við séum enn mjög skammt á veg komnir. Það var þó virðingarverð aukning sem varð við afgreiðslu síðustu fjárl., og ég vænti þess að atkv. Íslands á alþjóðavettvangi verði áfram not­uð til þess að styðja þá almennu stefnu varð­andi þriðja heiminn sem hæstv. ráðh. lýsti sér­staklega í því sem hann sagði um Suður-Afríku.

Að lokum vil ég láta í ljós ánægju yfir því, að hrundið skuli hafa verið í framkvæmd þeirri tilraun að sendiherra með aðsetri í Reykjavík annist samband við ýmis fjarlæg lönd. Hann er að vísu orðinn einsdæmi í veröldinni, því hann er sendiherra hjá hálfu mannkyninu, en við erum líklega einsdæmi líka. Mér er minnisstætt þegar það var fyrst nefnt við íra fyrir 10–15 árum, hvort þeir mundu sætta sig við að maður úr Reykjavík væri útnefndur sendiherra í Dyflinni. Þeim kom þetta þá svo spánskt fyrir sjónir, að þeim fannst það ógerlegt með öllu, vildu heldur hafa mann sem sæti í Kaupmannahöfn, sem lík­lega er álíka langt frá Dyflinni og Reykjavík. En ég vænti þess að þegar tími verður til að rannsaka þessa tilraun gagnrýnum augum muni koma í ljós að hún hafi gefist vel.

Um aðrar breytingar á utanríkísþjónustunni vil ég láta í ljós að ég hef ekkert nema gott um þær að segja. En það kann að vera veikleiki manns, sem er í stjórnarandstöðu og hefur dá­lítinn áhuga á utanríkismálum, að ég tel það ekkert sérstakt hrós um hæstv. ráðh., að það hafi ekki fjölgað starfsfólki í rn. í 10 ár — 10 um­brotaár. En ég veit að hann er hagsýnn maður og hefur með því sýnt fullan trúnað við ríkisstj. sem auðvitað eru allar sparnaðarstjórnir. Engu að síður verður hver að bjarga sér í kerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft, og ég vænti þess, að utanríkisþjónustan fái með árunum þá starfs­krafta og þá aðstöðu sem hún þarf til að geta gegnt hlutverki sínu. Hún hefur gert það vel, er sífellt að gera betur. Því er ekki að leyna, að utanríkisþjónustan er mjög lítil miðað við það verkefni sem hún hefur. Lítil verður hún alltaf að vera. En við skulum vænta þess, að við get­um gert vel við hana ekki síður en aðra þætti stjórnkerfisins í framtíðinni.