19.04.1977
Sameinað þing: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3298 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

266. mál, útgjöld vísitölufjölskyldunnar

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra for­seti. Sú fsp., sem ég hef borið fram til hæstv. forsrh. á þskj. 440 um útgjöld vísitölufjölskyld­unnar, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hversu mikill hluti (í krónum og hundraðs­hlutum) af ársútgjöldum vísitölufjölskyldunnar miðað við verðlag 1. febr. s. l. fer til greiðslu: a) aðflutningsgjalds, b) skatta af framleiðslu og söluskatts, c) verslunarálagningar?“

Auk þess að spurst er fyrir um hlut verslunar­alagningar í útgjöldum vísitölufjölskyldunnar er spurst fyrir um þátt nokkurra veigamestu óbeinna skatta, sem vísitölufjölskyldan greiðir í ríkissjóð. Óþarft ætti að vera að taka fram, að hér er ekki spurt um allar óbeinar skattgreiðsl­ur, t. d. er undanskilinn verulegur hluti skatta á bifreiðar og rekstrarvörur bifreiða. Enn frem­ur er undanskilinn þáttur launaskatts í vöru­verði, skemmtanaskattur, flugvallagjald, þing­lýsingar- og stimpilgjöld, svo að eitthvað sé nefnt. En þeir þættir, sem spurt er um, ættu þó að gefa verulega vísbendingu um hver hlutur ríkissjóðs í mynd óbeinna skatta gæti verið af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar.