19.04.1977
Sameinað þing: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

73. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp í ræðustólinn til þess að þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög jákvæðar und­irtektir undir þá till. sem hér er nú til umr. Ég ætla ekki að fara að blanda inn í þessa umr. hugleiðingum um það, hvort við þurfum að gera fiskveiðisamning við Efnahagsbandalag Evrópu vegna grænlendinga, það er annað mál, en mér þykir vænt um að heyra það, að hæstv. utanrrh. styður þessa hugmynd, að grænlendingum verði gert kleift að láta rödd sína heyrast í Norður­landaráði. Og því fylgir vissulega sá hugur ég veit það — frá hálfu hæstv. ráðh., eins og ég hygg að ég hafi lagt áherslu á í tölu minni áðan, að við íslendingar hljótum að telja það skyldu okkar við hvert tækifæri að styðja þá baráttu sem grænlendingar heyja nú í fyrsta lagi fyrir því að fá heimastjórn í líkingu við það sem færeyingar hafa fyrir löngu fengið.

Ég vil aðeins í sambandi við þær hugleiðingar benda á þann mikla mun sem er þó á aðstöðu færeyinga annars vegar og grænlendinga hins vegar, að þegar um er að ræða fiskveíðímál og Efnahagsbandalag Evrópu, þá kemur þessi mun­ur afar greinilega í ljós. Það virðist svo sem færeyingar geti á grundvelli sinna heimastjórn­arlaga ráðið sínum málum a. m. k. að verulegu leyti sjálfir í þeim efnum, en grænlendingar verða, að því er manni er tjáð, að hlíta því, sem danir og Efnahagsbandalag Evrópu ákveða fyrir þeirra hönd, enda þótt fram hafi farið atkvgr. um það í Grænlandi, hvort þeir vildu aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, á sínum tíma, þegar sú atkvgr. fór fram Í Danmörku, og ég held um 80% þeirra sem greiddu atkvæði í Grænlandi, vildu ekki aðild. Þetta er mikill munur, sem m. a. kemur þarna fram, og ég hygg að allir íslend­ingar hljóti að fagna því að það er vaxandi hugur í grænlendingum nú að auka sjálfstjórn sína og sjálfstæði.