20.04.1977
Sameinað þing: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3394 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér segir svo hugur að ein gömul persóna úr Íslandssög­unni brosi nú nokkuð og jafnvel meira, að það skuli hafa komið fram, er hann hafði hug á á sínum tíma, að Alþingi íslendinga takist á um skotsilfur nokkurt og deildi hart og hver seildist eftir því sem hann gæti náð í. En ég skal ekki hafa fleiri orð um þá viðleitni fyrir mörgum árum þó það hafi tekist að endurvekja þá hug­mynd í dag.

Það er staðreynd að ályktunin er á þessa leið: „Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að setja Þjóðhátíðarsjóði þá skipulagsskrá sem prentuð er með ályktun þessari.“

Ég gagnrýndi aðdragandann að þessu máli, því það er búið að stofna sjóðinn og það segir á bls. 6, í ræðu seðlabankastjórans:

„Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Seðlabankinn hefur ráðist í útgáfu sérstakrar minningarmyntar í ágóðaskyni hlaut það að vera nokkurt álitamál hversu með skyldi fara.“ Auð­vitað hlaut það að verða álitamál. Og hann segir síðar, að verið sé að „verja svo miklum fjármunum til þarfa utan við verksvið bankans.“

Hugmyndin fæddist þar, og hún er góð sem slík. Ég er ekki að deila á það. Og það var rétt hjá hæstv. viðskrh., að hann misskildi það sem ég vildi sagt hafa. Ég var ekki að deila á það, að okkur skyldi hafa áskotnast þetta fjármagn. Ég var að deila á það, hvernig þetta kom hér inn í þingsalina, og geri það hiklaust.

Ég tel, þar sem loforð um Þjóðarbókhlöðu er svo gamalt sem raun ber vitni, að þá hafi Alþ. brugðist. Og af því að þetta átti sér stað, þessir aurar komu nú í kassann og eru til, tel ég það viðeigandi, fremur en að fara í það sem þetta mál gengur út á, að standa nú við gefin loforð og ráðstafa þessum fjármunum, helst öllum, í Þjóðarbókhlöðuna og koma henni á öruggan veg, því að ekkert er meira verðmæti að mínu mati en að varðveita hér okkar lífsskilyrði í landinu ásamt bókmenntum. Það, sem þessi till. fjallar um, er að öðru leyti góðra gjalda vert, en það mun kosta hundruð milljóna, mörg hundruð milljónir eða jafnvel milljarða í framtíðinni. Það er svo stórt og mikið verkefni og þarf margfaldan undirbuning til þess að framkvæma það skynsamlega.

Á bls. 7 segir, með leyfi forseta, örstutt: „Seðlabankinn sér um varðveislu sjóðsins og mun leitast við að ávaxta hann með sem hagkvæmustum kjörum.“

Auðvitað hlýtur verðtrygging að vera inni­falin í þessum orðum í jafnmiklu verðbólguþjóð­félagi og við búum við.

Að öðru leyti vil ég taka undir orð hæstv. forseta um að þjóðhátíðarnefnd stóð sig með sóma. En Alþ. stóð sig ekki með sóma með styrk og stuðningi við starf hennar, og það var um tíma svo, að ég og fleiri drógum í efa að hér værri meiri hl. á Alþ. fyrir að halda þjóð­hátíðina á sínum tíma. En ég og nokkrir fleiri alþm. vorum alltaf mjög harðir talsmenn þess að hún félli ekki niður og yrði haldin á Þingvöllum sameiginlega fyrir alla þjóðina.

Forsrh. hefur lýst yfir, að að hans mati höf­um við efni á hvoru tveggja. Það er gott að heyra slíka yfirlýsingu af hendi hans. Það er gott að heyra það. En svo heyrir maður að við þurfum nú að herða sultarólina æðivíða, og það eru nokkuð mismunandi skoðanir sem koma hér fram. Þetta áform, sem greint er hér frá á bls. 8 og 9, er svo stórkostlegt, að það mun kosta, eins og ég sagði áðan, stórfé og þarf að athuga það mál mjög gaumgæfilega og leggja um það sérstaka áætlun fyrir Alþ. Það getur vel verið að hann viti um einhver úrlausnarefni og láti þá Seðlabankann gefa út aðra mynt í annað sinn og þriðja sinn og fjórða sinn o. s. frv. og þar sé lausnin fundin. En þá skulum við ákveða Seðla­bankanum þetta verksvið, því að hann segir hér sjálfur að þetta er utan við verksvið sitt.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð fleiri. Ég undirstrika það, að ég teldi það vel gert að ráðstafa þessu fjármagni í heilu lagi til Þjóðarbókhlöðu. Við getum síðan tekið til umr. þetta mál um þjóðhátíðarsjóð, að tryggja honum sóma­samlegt fjármagn skv. þeim till. er liggja hér fyrir í fyrsta skipti til umr. á Alþ.