20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

200. mál, innlend endurtrygging

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. frá því að lög nr. 43 frá 1947, um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o. fl., voru sett fyrir næstum 30 árum hefur þeim verið breytt aðeins þrisvar sinnum og það lítils háttar. Tvær breyt., það eru lög nr. 12 frá 1955 og lög nr. 5 frá 1964, fjölluðu um hámark á arðgreiðslum félgsins. Leyfilegur hámarksarð­ur er nú 2% á ári yfir vöxtum á almennum sparisjóðsbókum án uppsagnarfrests í Lands­banka Íslands. Þriðja breytingin, sem gerð var 1962, lög nr. 61, fjallaði um greiðslu fasteigna­skatts og aðstöðugjalds, en félagið greiðir nú fasteignaskatt og aðstöðugjald eftir þeim reglum sem um þau gjöld gilda á hverjum tíma.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, skiptist efnis­lega í tvo þætti. Hinn fyrri fjallar um áhættufé félagsins, en sá síðari um stríðsslysatryggingu skipshafna.

Í lögum frá 1947 var áhættufé félagsins ákveðið 6 millj. kr. Það var mjög ríflegt á þeim tíma, svo ríflegt að það var mun hærra en lágmarkskröfur um hlutafé eða ábyrgðarfé vátryggingar­félaga voru þá í okkar nágrannalöndum. Samkv. heimild í 5. gr. laganna hefur síðan verið bætt 400 þús. kr. við áættuféð, en það segir lítið á móti þeirri verðrýrnun íslensku krónunnar sem orðið hefur á síðustu 30 árum. Því er svo komið að áhættufé félagsins er óeðlilega lágt miðað við þá starfsemi sem því er ætluð. Þó að eigið fé félagsins er svo hátt að það fullnægi ákvæð­um laga um vátryggingarstarfsemi frá 1973 varðandi það atriði, þá er æskilegt að félag, þar sem ríkið er stærsti eigandinn, hafi ekki lægra áhættu­fé en það lágmarkshlutafé eða ábyrgðarfé sem gildir fyrir önnur vátryggingarfélög.

Rýrnun áhættufjárins mæld í erlendum gjaldeyri hefur valdið félaginu óþægindum í viðskipt­um við erlend vátryggingarfélög. Það hefur komið fyrir að félagið hefur misst af hagstæð­um viðskiptum vegna þess að áhættufé þess hefur þótt of lágt. Mönnum getur sést yfir að eigið fé félagsins er í raun meira en það sýnist, vegna þess að fasteignir eru bókfærðar mjög lágt. Þess er ekki að vænta, að erlendir aðilar lesi reikninga svo vandlega að þeir veiti því athygli þótt þetta sé útskýrt í athugasemdum. Þess vegna er orðið mjög aðkallandi að hækka áhættu­fé félagsins, og í frv. er gert ráð fyrir að það verði gert með þeim hætti, að bókfært verð fasteigna verði fært upp í 90% af brunabóta­mati. Út á nokkurn hluta þeirrar hækkunar á eigið fé er kæmi fram, yrðu gefin út jöfnunar­áhættufjárbréf fyrir sexfalda upphæð innborg­aðs áhættufjár. Við það kæmist innborgað áhættufé upp í 35 millj. 440 þús. Þar með er það orðið svo hátt að það samsvarar vel lág­markskröfum um hlutafé eða ábyrgðarfé í ýms­um grannlöndum okkar, eins og t. d. í Englandi. Nokkur ástæða er til að hafa hliðsjón af því, vegna þess að Endurtryggingin fær um 1/5 hluta af iðgjaldatekjum sínum af erlendum endur­tryggingarsamningi. Þegar búið er að hækka áhættuféð á þennan hátt, þá er ekki lengur þörf á að halda þeim áhættuábyrgðum sem félagið hefur nú, en þær eru 856 þús. kr. ábyrgð ríkis­sjóðs og frá Tryggingastofnun ríkisins, Brunabótafélagi Íslands og Sjóvátryggingarfélagi Ís­lands, 60 þús. kr. frá hverju. Þessar ábyrgðir eru því felldar niður í þessu frv.

Þá er í frv. gert ráð fyrir að ráðh. geti síðar heimilað frekari hækkun áhættufjárins ef nauð­syn krefur, t. d. vegna áframhaldandi verð­bólgu, sem búist er við að haldi eitthvað áfram þó að vonandi dragi úr henni.

Hinn þáttur þessa frv. er varðandi slysatrygg­inguna, en sá hluti frv. er orðinn úreltur frá því sem var upprunalega og því er hann færður til þess horfs sem nú þykir við eiga.

Ég vil aðeins skýra frá því til upplýsingar fyrir þm., að aðdragandinn að stofnun Íslenskr­ar endurtryggingar var sá, að þegar kafbáta­hernaðurinn byrjaði 1939, þá var stofnað félag sem kallað var stríðsslysatryggingarféag íslenskra skipshafna. Hlutverk þess var að annast stríðsslysatryggingar íslenskra skipshafna eftir því sem lög eða samningar sögðu til um á hverjum tíma. Nokkrir sjóðir söfnuðust hjá þessu félagi. En með lögum nr. 106 frá 1943 var ákveðið, að þegar stjórn félagsins teldi þáver­andi aðalhlutverki þess lokið skyldi nota þessa sjóði sem fjárhagsgrundvöll almennra endurtrygginga í landinu, einkum sjótrygginga. Nú var það svo, að samkv. lögum Stríðstryggingafélagsins átti að greiða mikinn hluta af eignum þess sem ágóðahluta til þeirra, sem iðgjöldin höfðu greitt, er félagið hætti störfum. Ríkis­sjóður hafði greitt mikinn hluta iðgjaldsins fyr­ir fiskibátana sem ekki sigldu með afla, og því var ríkið langstærsti iðgjaldagreiðandinn. Starf­semi þessa félags hefur þróast mjög vel og því hefur verið vel stjórnað og það er nú eitt af sterkustu vátryggingarfélögum landsins. Þar hef­ur verið unnið mjög merkt starf, m. a. með því að færa sem mest af sjótryggingum inn í landið.

Þetta frv. fékk mjög góða afgreiðslu í Ed. og um það var ekki neinn ágreiningur, enda hygg ég að það verði ekki heldur hér, því hér er aðeins verið að hækka áhættuféeð, og aðrar þær breyt., sem eru gerðar í frv., eru nauðsynlegar vegna breyttra tíma.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til heilbr.- og trn.