20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3440 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur gert grein fyrir því sem gert var í n. þar gat ég ekki komið á tvo fundi, en hafði sagt honum það fyrir fram, að ég hefði ekki neitt skipt um skoðun og gæti staðið fyllilega að öllum þeim brtt. sem þar eru fram bornar. Við fyrri umr. þessa máls ræddi ég um þessar till., þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að gera það nú.

Þegar við skrifuðum undir nál. á sínum tíma var það þannig, að menn höfðu óbundnar hend­ur svo að hver gat fylgt nýjum brtt. eða komið sjálfur með aðrar till. í viðbót. Ég hef leyft mér að nota mér það og flytja eina brtt. við lög um veiðar í fiskveiðilandhelginni. Sannleik­urinn er sá, að þessi hugmynd um að banna flottrollið, sem þessi brtt. mín fjallar um, er ekki ný og hún er ekki einungis komin upp í mínu höfði. Hún var rædd á sínum tíma í þeirri stóru n. sem hafði með þetta mál að gera og undirbjó þá lagasetningu sem hér öðlaðist laga­gildi í maí í fyrra og kom til framkvæmda 1. júlí á s. l. ári. Í þessari n. var þetta talsvert mikið rétt, og það kom til atkv. hvort ætti að banna flottrollið í takmarkaðan tíma. Upp kom hugmyndin um tvö ár og átti ekki eins miklu fylgi að fagna og að hafa það eitt. Enginn talaði um að hann væri alveg á móti flottrolli, að það veiðarfæri mætti hvergi sjást og ætti alfarið að banna. Hins vegar vildu menn reyna það í takmarkaðan tíma á meðan við ættum í mestum erfiðleikum við að reisa við fiskstofnana.

Þessi afstaða manna mótaðist ekki af flokks­pólitískum skoðunum og ekki heldur eftir lands­hlutum og ekki eftir því hvort þetta voru alþm. eða þeir aðrir sem áttu sæti í þessari n. þetta var hreinlega hugmynd þessara manna, að það væri ekki rétt, meðan svo stæði á með fisk­stofnana, að bæta við svo stórvirku veiðarfæri eins og flottrollinu. En eins og er og síðan þessi lög voru sett hefur flottrollið verið bannað, það hefur verið bannað á mjög stóru svæði við landið. En það bann hefur ekki gildi í fiskvernd­arátt, vegna þess að það er bannað, en það er hins vegar leyft á öðrum svæðum, og mikill hluti þeirra svæða, þar sem flottrollið er leyft og notað, eru einmitt þau svæði við landið þar sem mest er um smáan þorsk, þ. e. a. s. einmitt þá dýrategund sem til stóð að reyna að bjarga.

Þegar hv. þm. Pétur Sigurðsson hafði það eftir fiskifræðingum og öðrum slíkum, að þeir sæju ekkert athugavert við að veiða fisk í flot­troll fremur en önnur veiðarfæri, þá er það auðvitað alveg rétt. En hitt er svo annað mál, að það er mest notað þar sem miðin eru viðkvæmust og mest af þeim fiski sem smæstur er, og það er enginn vafi að því er þannig varið með flottrollið, að það bætist við það sem kem­ur í önnur veiðarfæri. Þegar fer að tregast í botntrollið, þá setja þeir út þetta óskaplega veiðarfæri, sem er nánast engu öðru veiðarfæri líkt fyrir stærðar sakir og afkastagetu, og sópa saman gífurlegum afla á þessum viðkvæmu svæðum, þ. e. a. s. út af Vestfjörðum nálægt lokaða svæðinu, einmitt á þeim svæðum sem hefur hvað eftir annað þurft að loka vegna smáfiskadráps. Og það er ekkert smáræði sem þeir fá oft í hverju hali, það eru 30, 40, 50 tonn og jafnvel þaðan af meira. Á skipum, sem eru búin þessum veiðarfærum, eru 15 menn og þeir ganga vaktir 6 tíma á móti 6 tímum, 12 tíma á sólarhring, þannig eru aðeins 5 menn sem vinna að aflanum hverju sinni. Getur hver maður séð hvernig það gengur fyrir 5 menn að gera að slíkum afla sem kemur inn í einu. Nú í vetur veiddist fiskur fullur af æti og mikið smátt í aflanum, alveg á stærðarmörkum, viðkvæmur fiskur. Aðgerð á slíkum fiski af svo fáum mönn­um tekur langan tíma, þannig að það þarf ekki sjóvana menn til þess að sjá að síðustu 10–15 tonnin af svo stóru hali hlytu að vera orðin býsna ljót útlits þegar að þeim kemur, þannig að það er staðreynd, það er reynslan, að mikið af þessum fiski fellur í gæðaflokki og verður slæm vara fyrir bragðið. Auðvitað er það ekki alltaf, auðvitað kemur ágætur fiskur í flottrollið eins og önnur veiðarfæri.

Ég heyrði hér einn hv. þm. nefna það, — þó að það hafi komið upp úr okkar ágætu mönnum hjá Hafrannsóknastofnun, þar sem þeir meta þetta aðeins frá fiskifræðilegu sjónarmiði, hvað er veitt í hvaða veiðarfæri, en horfa hins vegar ekki á þetta sem ég var að segja, — nefna orðið leikmenn, að við leikmenn ættum að fara eftir því sem þar hefur verið sagt. Hins vegar held ég að mér sé óhætt að segja það, að ég sé ekki leikmaður í þessum efnum, heldur hef verið atvinnumaður í þessu í mjög langan tíma, auk þess sem ég hef séð þetta núna með eigin augum, ég var einn þeirra sem ekki var kannske mjög hræddur við ástandið, hafði eiginlega góð­ar vonir að allt væri á réttri leið. Sannleikurinn er hins vegar sá, að ég varð hreinlega skelfingu lostinn við að horfa á þetta.

Við höfum gert ýmsar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir smáfiskadráp. Það segir í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni á ýmsum stöðum um þetta efni, þar sem við höfum gripið til ýmissa ráðstafana. Við höfum t. d. á tiltölulega stuttum tíma, ýmsum til óþæginda, breytt svo hratt um möskvastærð í veiðarfærum að möskvinn hefur stækkað úr 120 mm í 155 mm, í dragnótinni allar götur upp í 170 mm. Þetta var gert vegna þess að álitið var að meira slyppi út af smærri fiski í stórriðna netinu, sem auðvitað gerir í mörgum tilfellum. Þetta var fyrst og fremst gert vegna þess að sérfræðingar okkar höfðu komist að því, að við ættum einn stóran árgang sem við þyrftum endilega að reyna að hlífa um sinn. Við notuðum líka þá aðferð að loka stórum svæðum langtímum saman. Við notuðum einnig þá aðferð, að við gætum gripið til skyndilokana, eins og hér hefur verið rætt um, þegar um mikið seiða­magn var að ræða í afla og eins smáfisk. Og svo hafa komið alls konar hugmyndir um hvernig ætti að takmarka sóknina. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur komið með markaðar till. í þessum efnum. Það hefur verið talað t. d, um heildarkvóta á þorski yfir landið og dreifa þess­um kvóta, dreifa þessu veiðimagni yfir árið eftir ákveðnum reglum o. s. frv.

Allar þær aðgerðir eru réttar að mínum dómi sem við höfum gripið til með þessari lagasetn­ingu, og skyndilokanirnar hafa sem betur fer borið nokkurn árangur, þótt hann hefði mátt vera meiri. En við skulum athuga það, að á sama tíma og við erum að hugsa upp ráð til þess að vernda þennan uppvaxandi fisk, verðum við að reyna að koma því til leiðar að eitthvað af þessum fiski lifi svo lengi að hann öðlist þann þroska að geta getið af sér afkvæmi, að fiskurinn geti komið til hrygningar 6–7 ára gamall, en það kemur auðvitað enginn fiskur til hryggningar ef hann er allur drepinn á bernskuskeiði. Sannleikurinn er sá, að þegar litið er yfir aflann nú á þeim svæðum, þar sem fiskurinn hrygnir, þá blasir það við hverjum manni, jafnvel þeim sem ekkert hafa vitað um þessa hluti áður, að þarna hefur auðvitað hrygn­ingarstofninn ekki aðeins minnkað, hann hefur hreinlega hrunið.

Ég stundaði sjó á vetrarvertíð allnokkrar vertíðir, fyrst fyrir rúmlega 20 árum og síðast fyrir líklega um 15 árum. Þá voru menn strax farnir að hafa áhyggjur af þessu. Þá voru menn strax farnir að sjá mikið tap í hrygningarstofni. Það komu að vísu eitt og eitt ár ákaflega sterkt inn á milli, eins og verður náttúrulega, misjafnt eftir því hvernig hrygning gengur á hverjum tíma. En nú er þetta svo að segja allt annað. Það er ekki lengur talað um vertíð og vertíðar­blær er allt annar og allt öðruvísi en hann var, enda er það álit sérfræðinga að hrygningarstofninn sé núna minni en 204 þús. tonn og hafi í fyrra verið einnig minni en 200 þús. tonn, og það voru einmitt þessi 200 þús. tonn sem menn töluðu um sem algert lágmark. Þar er hættu­markið.

Ég vona að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að hér er ekki verið að tala um neina flokks­pólitíska hluti. Þarna er verið að tala um svo alvarleg mál, að mistök og mörg víxlspor í þessu efni geta hreinlega kostað það að sjálf undirstaða lífsins í landinu, á Íslandi, — við höfum alltaf byggt okkar afkomu á fiskveiðum, ­veikist og jafnvel hrynji.

Ég vil leyfa mér að vona það líka, að hv. alþm. fari að hugsa aðeins um þetta núna síð­ustu dagana og fari að kynna sér hvernig hefur farið fyrir þorskstofninum við Grænland. Það er óskapleg mynd að horfa á sem teiknuð hefur verið upp af sérfræðingum í þeim efnum samkv. nákvæmum rannsóknum sem mjög gott hefur verið að framkvæma. Þar er stærð hrygningar­stofnsins mörkuð á línuriti sem liggur þannig, að línan dettur hreinlega niður úr toppi í einu horninu, — við getum hugsað okkur línurit, hér er ekki möguleiki til að sýna slíkt — og alveg niður í hornið á hinu, þ. e. a. s. hann er kom­inn niður undir núll. Og það er einmitt þetta sem við verðum að passa að ekki komi fyrir hér.

Ég sé ekki ástæðu til að gera úr þessu mjög langt mál. En ég vil leyfa mér að segja það, að þetta gerist á sama tíma og við erum að grípa til alls kyns ráðstafana til þess að þessi eini eða kannske núna tveir árgangar, sem við eigum sæmilega sterka, árgangarnir 1972 og 1973, fái að lifa til 1979 og 1980, svo þeir geti komið inn til hrygningar. Þetta feiknaveiðarfæri, flot­varpan, — ég er ekki viss um, og það er auð­vitað ósköp eðlilegt, að hv. þm. geri sér ekki grein fyrir hvernig þetta veiðfarfæri lítur út. Þeir hafa aðeins heyrt talað um þetta, séð þetta kannske á mynd, en þetta er óskaplega stórt og afkastamikið tæki og skemmtilegt veiðarfæri að nota ef um nógan fisk væri að ræða, og sjálf­sagt að grípa til þess þegar þar að kemur og við þurfum ekki að óttast um afkomu þorsk­stofnsins. Þá er þetta ákaflega hentugt veiðarfæri til þess að sópa inn miklum afla. En eins og það er notað núna og ekki síst þar sem það er notað núna, þar er smái fiskurinn sem við vilj­um að fái að lifa.

Ég vil líka benda á það, að þessi veiði er, eins og ég sagði áðan, að sumu leyti oft óhag­kvæm, vegna þess að þessi fiskur fer illa. En fyrst og fremst er hún óskynsamleg af þeirri ástæðu, að þegar við drepum fiskinn á þessum aldri, þá vegur hann að meðaltali kannske rúm­lega eitt kg. Við höfum tölur fyrir okkur, opin­berar tölur frá því á vertíðinni í fyrra, þegar mikil aflahrota kom út af Vestfjörðum, og þær tölur eru frá Fiskmatinu. Þá var tekin meðalþyngd þess þorsks, sem þá barst að landi um talsvert tímabil, og meðalþyngdin reyndist vera 1200 grömm. Stór vertíðarþorskur, eins og m. a. ég var með í að veiða vertíð eftir vertíð, það var gert ráð fyrir að þyrfti 100 stykki af honum í tonnið að jafnaði, þ. e. a. s. hann var 10 kg, 8–10 sinnum þyngri en þessi fiskur sem við erum að veiða nú. Og besti fiskurinn, sem þá veiddist, eða stærsti fiskurinn var enn þyngri, eins og menn vita, t. d. sá fiskur sem veiddist á vertíðinni 1964, þegar við veiddum fiskinn í nótina, sem aldrei skyldi verið hafa. Þá þurfti kannske ekki nema 80 í tonn, þá var 121/2 kg hvert kvikindi að meðaltali.

Ef bændur landsins tækju upp þennan hátt, að slátra sauðfé sínu svo snemma, þá gætu þeir alveg eins drepið lömbin nýfædd í stað þess að hafa það eins og hingað til, að slátra dilkunum að hausti. Það þætti ekki skynsam­legur búskapur. En það er þetta og ekki aðeins jafnslæmt og í þessu dæmi segir, heldur miklu verra, það sem við erum að gera. Þessi fiskur sem verið er að drepa á þessum aldri, er, eins og ég segi, rúmlega 1 kg, en eftir aðeins eitt ár er hann orðinn 3 kg og jafnvel meira og eftir tvö ár er hann orðinn kannske 4–5 kg frá þessum tíma. Þetta er ákaflega óskynsamleg slátrun.

Í þessari brtt. hef ég aðeins lagt til að veiðar í flotvörpu verði ekki leyfðar um takmarkaðan tíma, þ. e. a. s. eitt ár. Á því vinnst talsvert. Best væri ef hv. alþm. vildu framlengja það bann eitt ár í viðbót. Þá höfum við bjargað miklu. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki búið að samþykkja þetta, það er rétt. Ég ætla að leyfa mér að vona að a. m. k. ýmsir þeirra þm., sem hæst hafa haft og kannske minnst vitað, ættu ekki að hræðast mikinn atkvæðamissi og ekki láta einungis einhver miskilin kjördæmasjónarmið ráða afstöðu sinni, heldur láta heilbrigða skynsemi ráða, þ. e. a. s. ef til er. (Gripið fram í.) Það kann að vera og það er nokkuð víst, að þeir fiskimenn, sem hafa notað flotvörpuna í talsverðum mæli, muni ekki fá jafnmikinn afla eftir að hún hefur verið bönnuð um takmarkaðan tíma. Það er rétt en ég vil vekja athygli á því, að þeir hafa hingað til tekið ákaflega mikinn afla og miklu meiri en aðrir, þannig að margir þeirra togara og flestir þeirra togara, sem hafa notað þetta veiðarfæri, eru jafnvel tvöfalt hærri í aflamagni heldur en margir aðrir togarar af sömu stærð, hafa fengið á 5. þús, tonn á ári. En hversu mik­inn ársafla fengju þessir dugmiklu og aflasælu sjómenn, þegar búið væri að drepa allan fiskinn? Það er spurning sem ég held að þessir áköfu kjördæmismenn ættu líka að hafa í huga. Það kemur dagur eftir þennan dag, og ef við gerum hættuleg glappaskot þess eðlis, að ekki verði til baka snúið, þá tel ég að jafnvel þótt afli einstakra skipa kynni að minnka að nokkrum hluta, fengju goðan afla samt, í stuttan tíma eitt ár eða tvo, þá er það betra en slík óhappa­verk sem gætu orðið þess valdandi að þorskur­inn kæmist niður fyrir það lágmark sem hann má fara að mati okkar bestu vísindamanna.

Ég sá einnig nú fyrir skömmu þann fisk sem veiddur var þarna fyrir vestan, ágætan fisk sem vestfirðingarnir, sem sjaldan sáu annað en smákvikindin, kölluðu hreinan gullfisk. Svona falleg­an fisk höfðu þeir ekki séð í svona miklu magni í langan tíma. Það var ekki veitt í flottrollið, það ár í botntrollið. En það var þó ekki meiri gullfiskur en það, —- hann var að vísu ekki mældur með tommustokk, en vanir menn sjá nokkuð hversu langur fiskur er, — hann hefur verið þetta milli 60 og 70 cm. Það hefur kannske verið 1–2 árum fyrir hrygningu. (SvH: Hvaða gull­fiskar voru þetta?) En þessi fiskur kemur held­ur ekki til hrygningar. Þetta var geldfiskur. Allur aflinn, sem fékkst af svæðinu á þessum tíma, var ókynþroska fiskur, — allur aflinn eða, við skulum segja kannske 98–99% af honum. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða þetta, ekki síst vegna þess að ég sá þetta og skoðaði með eigin augum. Hv. 3. þm. Austurl. langar nú svolítið í sínum vandræðum að reyna að vera pínulítið sniðugur í framíköllum. Í mínum augum er þetta alls ekkert gamanmál og óþarfi fyrir hann að vera að snúa út úr orðum manna þegar þeir ræða hér af fullri alvöru alvarleg mál. Við veiðum enga gullfiska við Ísland. En það, sem ánægðir og duglegir fiskimenn kalla gullfisk í þessu samhengi, er auðvitað stór og góður fiskur sem að þeirra dómi er gulls ígildi. En ekkert af þessum fiski var kynþroska.

Það hefur verið talað um það við mig af ýmsum aðilum að þessi till. mín gæti orðið til þess að stöðva framgang þessa frv. Ég get alls ekki skilið þá röksemd. Þetta er aðeins ein brtt. Ef mönnum sýnist að þessi till. sé vond og þjóni engum og kannske aðeins illum tilgangi, þá fella þeir hana auðvitað. En ég vil leyfa mér að fara fram á það, að þeir skoði hug sinn vel, menn úr öllum flokkum, hvað þetta þýðir, og greiði síðan atkv. um málið samkv. sannfæringu sinni, sem ég vona að þeir myndi sér um efnið með því að skoða það sem rækilegast og með því að skoða það fordómalaust opnum augum.