22.04.1977
Efri deild: 61. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

165. mál, póst- og símamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. í 3. gr. þessa frv. til l. um stjórn og starfrækslu póst- ­og símamála segir svo, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

„Póst- og símastofnun hefur einkarétt á að stofna til og starfrækja hvers konar póst-, síma- ­og aðra fjarskiptaþjónustu“ o. s. frv. Ég leyfi mér að flytja brtt. við þessa gr., svo hljóðandi: „Brtt. við frv. til l. um stjórn og starfrækslu pósts og síma. — Frá Albert Guðmundssyni. –­- Við 3. gr. 2. mgr. falli niður.“ Ég leyfi mér að leggja hana fram skriflega.

Í frv. til l. um stjórn og starfrækslu póst- og símamála er ákvæði um einkaleyfi póst- og símamálastofnunar ofaukið, enda er slíkt ákvæði ekki í gildandi lögum um þessa stofnun. Nú­gildandi ákvæði um einkaleyfi Pósts og síma er að finna í póstlögum, nr. 31/1941, og í fjar­skiptalögum, nr. 30 frá 1941. Ekki getur hjá því farið að fyrr eða síðar verði ákvæði þeirra laga, sem fjalla um einokunaraðstöðu ríkisins til handa, felld niður. Eru þá sérstaklega höfð í huga ákvæði II. kafla fjarskiptalaga þar sem ríkinu er m. a. í 2. gr. þeirra laga veitt einokun á að flytja til landsins, selja, leigja og dreifa út á annan hátt, smíða, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki, tæki, taugabúnað og þvíum líkt eða hluta þeirra o. s. frv. Þessi einokun er síðan framseld Pósti og síma í IV. kafla laganna. Þar sem full ástæða er til að ætla, að einokun og hvers konar höft á athafnafrelsi eigi þverrandi fylgi að fagna, er það bæði þarflaust og varhugavert að bæta einokunarákvörðunum inn í fleiri lög en gert hefur verið til þessa því að ætla má að þær verði felldar úr gildi innan skamms. Ég tel tímabært að það verði athugað, hvort ekki sé skynsamlegt að leggja niður allan innflutning á símatækjum og öðrum fjarskiptatækjum á vegum Pósts og síma, leyfa frjálsan innflutning á þeim og færa símvirkjamenntun inn í Iðn­skólann, Iðnskólinn útskrifi símvirkja og einka­aðilum verði leyft að gera við síma og selja síma og þannig fá þá fjölbreytni í tækin sem eru í öðrum frjálsum löndum, — það er alltaf verið að vitna til útlanda, — á sama hátt og viðtækjaverslun Íslands var blessunarlega lögð niður á sínum tíma og fjölbreytni bæði í gæð­um og útliti tækja fór að sjást á íslenskum heimilum eins og annars staðar. Það má líka nefna einkaleyfi á bifreiðainnflutningi o. fl. sem ríkið hafði. Þá yrði hlutverk Landssímans eða Pósts og síma skulum við segja verklegar fram­kvæmdir á borð við það sem hitaveitur gera, rafmagnsveitur eða aðrar þær samveitur sem leggja taugar að heimilum fólks, en það, sem er svo aftur sett inn í heimilin, er á valdi hús­ráðenda og þeirra sem búa í viðkomandi byggingum.

Ég skal ekki fylgja þessari brtt. úr hlaði með fleiri orðum.

Varðandi þá brtt., sem hv. 2. þm. Reykn. flutti hér, þá er ég sammála hluta af henni, en hefði gjarnan viljað vita frá flm. hvað þýði samþykkt þessara hugmynda hans í íþyngingarátt fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem mér hafa treyst hingað inn í þessa stofnun til þess að gæta hagsmuna sinna. Mér ber á sama hátt að gæta hagsmuna þeirra eins og hv. þm. ber fyrir brjósti hags­muni sinna umbjóðenda að parti. Ég held að við getum allir verið sammála um að þéttbýliskjarnarnir, hvort sem þeir eru hér eða norður í landi, hjálpa til við byggingu á ýmsum sam­veitum og því sameiginlega úti um allt land og að sjálfsögðu hvílir miklu meira á þessum þéttbýliskjörnum við það, að farið er að væða landið á margan hátt. En hvenær er ofgert að íþyngja íbúum þéttbýliskjarnanna? Hvað verður langt þangað til þeir segja: Hingað og ekki lengra? Ég held að hér í Reykjavík, — ég skal ekki segja hvernig það er í Reykjaneskjördæmi, — sé kom­ið að suðupunkti á margan hátt. Ég vil vara hv. 2. þm. Reykn. við slíkum tillöguflutningi sem þessum, en fagna því að ráðh. á miklu mýkri hátt heldur en ég geri hefur mótmælt tillöguflutningnum.

Ég vil svo að lokum aðeins lýsa furðu minni á því, að nokkur, hvort það er þm., sem er tímabundið ráðh., eða þm., sem er tímabundið ekki ráðh., skuli vera á móti því að setja stjórn yfir stofnun og þá sér í lagi stofnun sem er þetta veigamikil. Ég held að það sé miklu nauðsynlegra að þarna komi stjórn og þá sjö manna stjórn fyrir Póst og síma heldur en margar aðrar stofnanir. Ég er með Innkaupastofnun rík­isins í huga, þar sem ég hef flutt till. um að stjórn verði sett yfir hana, og felst ekki í því á einn eða annan hátt ádeila á þá sem stjórna þar í dag. En ég get ekki ímyndað mér að með nokkrum rökum sé hægt að koma í veg fyrir að till. hv. samdeildarþm. okkar, Stefáns Jónssonar og Eggerts G. Þorsteinssonar, verði sam­þykkt. Ég fyrir mitt leyti mun styðja hana.