26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3752 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

117. mál, bygging dómshúss

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti hv. allshn. sem hefur orðið sammála um að mæla með að þessi þáltill. verði samþykkt — þáltill. um byggingu dóm­húss, með þeirri breytingu sem greinir á þskj. 520, að síðari málsl. till. falli niður, þ. e. tíma­markið um það hvenær byggingu hússins skuli lokið.

Í grg. með till. og ræðu hv. flm., Ellerts B. Schram, er hann mælti fyrir till. komu fram helstu rökin fyrir flutningi till. Hv. allshn. hefur fallist á þessi rök og hefur þar engu við að bæta. Bárust umsagnir frá yfirsakadómara og ríkissaksóknara og þykir mér rétt að geta nokkurra atriða úr umsögnum þeirra.

Yfirsakadómari bendir á í sinni umsögn, að á s. l. vetri hafi tekið gildi lög, sem fela í sér algera nýskipun á meðferð opinberra mála og stofnun sérstakrar rannsóknarlögreglu, og í fram­haldi af þeirri löggjöf sé auðvitað nauðsynlegt að búa vel að stofnunum þeim sem þar eiga hlut að máli, ef umbætur þær, sem stefnt er að, eigi að vera annað en orðin tóm. Þess vegna fagnar yfirsakadómari, að vakin skuli athygli á nauðsyn þess að reisa sérstakt dómhús í Reykja­vík, og væntir þess, að till. verði samþykkt.

Ríkissaksóknari sendi nokkuð ítarlega umsögn. Hann bendir á að héraðsdómstólar í Reykjavík séu orðnir fjórir og á jafnmörgum stöðum í borginni. Auk þess getur hann þess, að embætti ríkissaksóknara sé nú á tveimur stöðum í leiguhúsnæði í Reykjavík og þar að auki verði hin nýstofnaða rannsóknarlögregla ríkisins á enn öðrum stað innan eða utan borgarmarka. Hann bendir á að mörg mikilvæg rök séu til þess, að þessar stofnanir verði á einum og sama stað, og nefnir þessi helst: 1. Ef héraðsdómstólarnir væru á sama stað væri unnt að nýta mun betur húsnæði og starfstæki þeirra. 2. Hinir sömu starfsmenn gætu unnið í þágu allra dómstól­anna, t. d. skoðunarmenn, dómritarar, þingvottar og skrifstofufólk. Auðveldara væri að sameina héraðsdómstólana í Reykjavík í einn dómstól, borgardóm, til samræmis við skipan í öðrum borgum Norðurlanda. Sending sakargagna og annarra erinda milli þessara stofnana yrði mun hraðari og auðveldari en nú er svo og önnur samskipti þeirra sem eru mikil. Þá yrði brátt verulegur fjárhagsávinningur fyrir ríkissjóð ef stofnanir þessar væru fluttar úr leiguhúsnæði í húsnæði í ríkiseign. Það væri mjög til hag­ræðis öllum þeim, sem skipti eiga við þessar stofnanir, og þeir eru margir, ef þær væru á einum og sama stað. Loks nefnir hann að það hljóti að auka reisn þeirra stofnana, sem fara með rannsóknarvald, saksóknarvald og dómsvald, ef svo er að þeim búið að í einhverju samræmi sé við verkefni þeirra, sem er að halda uppi lögum og rétti þessa lands og lýðs. Og með hliðsjón af þessu, sem hann hefur þarna upp talið, mælir hann eindregið með samþykkt þess­arar þáltill. um byggingu dómhúss í Reykjavík.

Með hliðsjón af þeim rökum, sem hér hafa verið tíunduð, er það till. allshn., að Alþ. sam­þykki þáltill. með þeirri breytingu sem getur á þskj. 520.