26.04.1977
Sameinað þing: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

10. mál, votheysverkun

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera lítið úr því, að það þurfi fjár­magn til þess að vinna verk, og þá er auðvitað æskilegt að það sé líka fjármagn til þess að gera það sem þessi till. gerir ráð fyrir. En sumt af því, sem till. gerir ráð fyrir, hygg ég að muni ekki kosta mikið fjármagn, svo sem að kynna bændum reynslu þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða mestu leyti á votheys­verkun. Það vill þannig til, að það er heill hópur af mönnum í þjónustu hins opinbera eða Bún­aðarfélagsins, mönnum sem eru vel að sér í þessum efnum, og þeir gætu beint störfum sín­um að þessu sviði, geri ég ráð fyrir, að sjálf­sögðu án þess að þar komi til mikil ný fjár­útlát.

En svo er hinn þáttur þessarar till., þar sem talað er um að veita hærri stofnlán til bygg­ingar votheyshlaðna en þurrheyshlaðna. Það má segja að það þurfi meira fjármagn ef gert er ráð fyrir að það verði sömu lán til þurrheys­hlaðna og hafa verið. En það er hægt að hugsa sér að ná þessu marki með því að lækka lánin til þurrheyshlaðnanna, svo það fé, sem við það sparast geti hrokkið til þess að hækka lánin til votheyshlaðnanna, þannig að þau verði hærri. Nú er ég ekki að segja að þetta eigi að gera. Að sjálfsögðu er æskilegt að fá þarna fjármagn. En till. sjálf er, má segja, að forminu til hlut­laus í þessu efni. Ef þessi till. verður samþykkt, sem ég vonast til að verði, þá er það að sjálf­sögðu ríkisstj. að vega og meta hvað hægt er að gera til aukinnar fjáröflunar í þessu skyni.

Mér sýnist af því, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, að það væri full ástæða til að auka fé til lána vegna þurrheyshlaðna og ann­arra útihúsa bænda, og það væri full ástæða þó að þessi till. hefði ekki komið til. Ég geri ráð fyrir að það verði athugaður sá möguleiki að auka fjárframlög í þessu skyni. Geri ég ráð fyrir að það mundi vera gert í samráði við Stofn­lánadeildina og þá lánastofnun sem hv. þm. Stefán Valgeirsson er formaður fyrir.