03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðum þriggja hv. þm.

Ég vil leiðrétta hv. 1. landsk. þm. að ég hefði kallað málsmeðferðina skrípaleik. Ég sagði að það hefði verið skrípaleikur á Alþ. í gær, en alls ekki málsmeðferð, hvorki sjómanna, atvinnurekenda né ríkisvalds, á þessu máli frá því að viðræður hófust um kaup og kjör og allt það sem hefur farið fram á eftir. Ég vil alls ekki kalla það, sem hefur farið fram í sjómannafélögunum eftir þetta, skrípaleik, síður en svo. Mér finnst það miklu frekar sorgarleikur eða raunalegt hve félögin hafa verið veik og ósamstæð. Og ég held að það sé ekki styrkur fyrir ríkisvald á hverjum tíma að aðilar vinnumarkaðarins eigi ekki sterk félög til þess að semja og tala saman Ekkert er meira virði en að þessi aðildarfélög séu sterk og samheldni þar til þess að ná samningum og setja metnað sinn í að ná samningum um kaup og kjör, þannig að það eigi aldrei að koma til kasta ríkisvaldsins. Þetta er ekki skrípaleikur, þetta er sorgarsaga. Og ég ann sjómannasamtökunum þess af heilum hug að þau byggi betur upp sína félagslegu baráttu heldur en raun ber vitni og fleiri aðilar á landinu, hví að félagslegt starf víða er í algerum molum eins og menn vita.

Það er líka misskilningur að ég hafi haldið hví fram að það eigi að vera nákvæmlega sömu kjör um allt land með þessum brbl. eða semja um sömu kjör. Það lá fyrir allan tímann að þar sem er um sérsamninga að ræða, þar verður auðvitað að semja að nýju og þeir sérsamningar eiga að vera í heiðri hafðir. Það er sérstaða í hinum ýmsu byggðarlögum sem verður að taka tillit til og bæði launþegar og atvinnurekendur hafa gert, ekki núna síðustu árin, heldur áratugum saman. Það eru mismunandi aðstæður, sérstaklega þó í tveimur landsfjórðungum, Austfjörðum og Vestfjörðum, sem eru með mikinn vertíðarafla. Hitt er svo meira samræmanlegt, í togaraútgerðinni, en þó líka til þar sérkröfur og sérsamningar sem eiga fullan rétt á sér. Með þessum brbl. er ekki verið að breyta þessu á nokkurn hátt. Þeir, sem hafa haft eitthvert forskot, eiga að hafa það áfram Lögin meina alls ekki þeim félögum eða heildarsamböndum að hafa slíkt forskot, og það var aldrei ætlunin með þessum brbl.

Hv. 11. landsk. þm. talaði, eins og hans var von og vísa, mjög málefnalega um þetta mál og aðdraganda allan, enda tók hann mjög virkan þátt í þessu starfi sem sáttanefndarmaður og kom fram í þeim efnum og var í því hlutverki, sem hann tók að sér, eins og í öllum sínum störfum, til fyrirmyndar að dómi allra þeirra manna sem með honum störfuðu. Hann er auðvitað á móti þessum lögum af skiljanlegum ástæðum. Hann hefur alltaf verið á móti því að ríkisvaldið blandi sér í lausn deilumála sem þessara. En ég segi fyrir mitt leyti að það, sem á milli okkar ber, er að ég tel að með þessum brbl. séum við ekki að blanda okkur beint inn í þessa deilu, heldur að gera að veruleika það samkomulag sem gert var og var forsenda þess að allt gengi fram Þar ber okkur á milli. Ég hef margsinnis tekið fram að ég tel mjög óeðlilegt og óæskilegt að grípa inn í deilur um kaup og kjör og alls ekki fyrr en sé búið að reyna samninga til hlítar. En ég vil líka benda á það, að brbl. fela í sér allverulegar kjarabætur fyrir þá sem voru búnir að semja til 15. maí á næsta ári. Ef ég væri sjómaður, þá mundi ég telja það mikils virði að líf- og örorkutrygging hefði hækkað með þeirri breytingu að dánarbætur hækkuðu úr 1 millj. í 2 millj. og örorkubætur úr 3 millj. í 6 millj. Það munar um minna hjá fólki, ef sú óhamingja hendir að fyrirvinnan annaðhvort slasast alvarlega eða deyr, að fá þessar bætur sem það fengi ekki fyrr en þá í næstu samningum, eða eftir 15. maí. Þetta verða menn líka að hafa í huga. Brbl. eru ekki eingöngu til þess að minnka rétt sjómanna, þau eru líka í og með að auka rétt þeirra sem höfðu samið, eins og ég nefndi hér dæmi um.

Ég biðst afsökunar á því, að þegar ég talaði hér um fiskverðshækkunina, þá sagði ég að fiskverðshækkunin hefði orðið 33% við sjóðakerfisbreytinguna. Það er að vísu rétt að hún var 33% við þann tíma, en af þessum 33% eru 24% vegna sjóðakerfisbreytingarinnar, hitt var vegna hækkunar erlendis, svo að þetta kom ekki nógu skýrt fram hjá mér. Hv. 11. landsk. þm benti mér á þetta, og það vil ég hér með leiðrétta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að karpa lengur um þetta mál. Ég vii þó aðeins taka fram út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl e. sagði, að ég tei að brbl. hafi ekki verið brotin, þau hafi verið haldin af sjómönnum. Þau heimila samninga, og það segir ekkert til um að það eigi að vera heildarsamningar eða samningar verkalýðsfélaga. Ég hefði talið æskilegra, eins og t.d. á Vestfjörðum, að Útvegsmannafélag Vestfjarða og Alþýðusamband Vestfjarða hefðu gert samkomulagið á línubátunum. Hins vegar var deilan á línubátunum þar fyrir hendi í allan fyrravetur. Þar hefur verið, eins og viða annars staðar, bullandi óánægja með skiptaprósentuna og viðast hvar var línuútgerð ekki hafin þegar brbl. voru gefin út.

Það var stórkostlega orðum aukið að bátar hefðu stöðvast, því að meira að segja eftir að samningar náðust á sumum stöðum, þá liðu 4–5–6 dagar að bátarnir færu á sjó vegna þess að þeir voru þá ekki einu sinni tilbúnir. Það, sem gerðist og braut ísinn, var á Súgandafirði. Skiptaprósentan hefur jafnan verið hærri vestra en víðast hvar annars staðar, og bar er þá skýringu að finna, að þar er línuúthaldið ólíkt lengra en alls staðar annars staðar á landinu. Yfirleitt byrjar línuútgerð í septemberlok að jafnaði og fyrstu dagana í okt., í einstaka tilfellum fyrr, — þá lít ég yfir nokkur ár í einu, — og henni lýkur ekki fyrr en í vertíðarlok, 15. maí. Og ég held að menn séu sammála um það, að þar eru mestu hörkuveður á vertíðinni og lína er sótt þar af mikilli hörku eða var eiginlega alls ráðandi, og þetta er sennilega einhver erfiðasta vinna á sjó og sömuleiðis í landi við beitingar, sem við þekkjum nú í dag, og mjög langur vinnudagur og ólíkt lélegri aðbúnaður heldur en t.d. á okkar nýrri og glæsilegri skipum. Því tel ég ekki óeðlilegt að skiptaprósentan hækkaði þar. Það var boðin 29.2% skiptaprósenta á móti 28.2%. En það verður þá líka að taka með í reikninginn, ef menn fara eitthvað að hugsa um afkomu útgerðar að viðast hvar annars staðar er beitingin framkvæmd í ákvæðisvinnu, þar sem maðurinn, sem beitir í landi, hefur þá miklu betri afkomu heldur en þessi eini háseti sem fer á sjó. En vestra eru yfirleitt allir menn hlutarráðnir, og það gerir gæfumuninn, að útgerðin getur ekki borgað hærri skiptaprósentu þar heldur en þar sem sumir eru hlutarráðnir, en aðrir vinna í akkorði, og skapar mikið ósamræmi og ósanngirni. Til þess að leysa þetta vandamál bauð fiskkaupandinn á Súgandafirði að greiða 0.8 og var samið um 30% skiptaprósentu. Þetta braut ísinn. Síðan var gert samkomulag á öðrum stöðum og yfirleitt er þetta samkomulag um 30%. En þar var farið út í aðra sálma. Þar var farið út í að minnka línulengdina og þar með aflavonina, og þegar það er reiknað út, miðað við línulengdina á þessum stað sem ég nefndi, þá má segja að það hafi verið dæmi þess að skiptaprósentan sé komin í 31.5% eða jafnvel 32% — ég þori ekki alveg að fullyrða það, en það er alveg um þetta bil. Þetta hefst upp úr því að heildarsamtök reyna ekki að ná samningum. En ég tel þessa þróun vera mjög óeðlilega. Aftur er ég mjög ánægður með samningana í Súgandafirði og tel að þeir hafi verið sanngjarnir í alla staði og engan veginn brjóta í bága við brbl.