28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3918 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hefur verið við völd í tvö ár og átta mánuði. Hún hefur því vissulega fengið sinn reynslutíma. Á aðeins 15–20 mínútum verður stefna ríkisstj. almennt ekki rædd að neinu gagni. Ég vel því þann kostinn að ræða hér nær einvörðungu um stefnuna í atvinnu- og fjárhagsmálum, enda er nú svo komið á því sviði að ekki er annað sjáanlegt en að allsherjar vinnustöðvun sé að skella yfir sem bein afleiðing af dýrtíðar- og kjaraskerðingarstefnu ríkisstj.

Þegar litið er yfir orð og gerðir ríkisstj. í efnahagsmálum blasir við ömurleg staðreynd. Það er eins og allt hafi snúist við í höndum hennar og niðurstaðan hafi ævinlega orðið öfug við það sem lofað var. Hér skulu nefnd nokkur dæmi.

Í fyrstu stefnuræðu forsrh. sagði hann að útlit væri á að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann yrði 1000 millj. kr. í árslok 1974. Hann sagði að ríkis­stj. væri staðráðin í að kippa þessu í lag og því ráðgerði hún að greiða a. m. k. helming skuldarinnar niður á fyrsta ári. En nú, tveimur og hálfu ári síðar, var skuld ríkissjóðs við Seðla­bankann um 11 milljarðar kr.

Forsrh. sagði líka í fyrstu stefnuræðu sinni að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri allt of lítill, aðeins um 2000 millj. kr. Það átti líka að leiðrétta. Nú skuldar hins vegar Seðlabankinn um 12 milljarða erlendis eingöngu vegna gjaldeyris­stöðunnar, því að gjaldeyrisvarasjóðurinn hvarf á nokkrum mánuðum og síðan hefur allt verið rekið með skuldasöfnun.

Þegar ríkisstj. tók við hét forsrh. því, að dregið skyldi úr ríkisútgjöldum. Síðan hafa ríkisútgjöldin þrefaldast og hækkun á almennum rekstrarkostnaði gnæfir þar langt yfir alla aðra rekstrarliði.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, voru skuldir þjóðarinnar við útlönd um 40 milljarðar, en nú eru þær yfir 100 milljarðar.

Ríkisstj. lofaði í upphafi skattkerfisbreytingu og lækkun skatta. Skattkerfið er óbreytt, nema mörgum nýjum sköttum hefur auðvitað verið bætt við og heildarskattheimtan hefur stóraukist.

Hún lofaði breyttu verðlagseftirliti sem leiða mundi til verðlagslækkunar. Verðlagseftirlitið er óbreytt, en verðhækkanir á öllum sviðum hafa orðið meiri en dæmi eru til um áður.

Og lækkun verðbólgunnar um 1,5% á ári, eins og forsrh. boðaði að verða mundi strax á fyrsta starfsári stjórnarinnar, hefur snúist upp í 40–­50% verðbólgu á ári síðan stjórnin tók við og það þrátt fyrir það að raungildi kaups í land­inu hafi farið lækkandi.

Þannig er hrakfallabálkur stjórnarstefnunnar í efnahagsmálum. Öll þessi hrakföll og allar þessar vanefndir reynir ríkisstj. að afsaka með óhag­stæðum ytri skilyrðum og verðfalli á útflutningsvörum. Slíkar afsakanir eru haldlausar þegar litið er á starfstíma hennar í heild. Verð á út­flutningsvörum hefur verið hátt og aldrei fyrr eins hátt og það er nú. Á s. 1. ári hækkaði t. d. útflutningsverðið um 18% og var þá hærra en það hafði nokkru sinni fyrr verið. Í ár er enn spáð 15–16% hækkun á útflutningsverði. Út­flutningsverðið er því hátt. Innflutningsverð hækkaði aðeins um 5% á árinu 1975 og um önnur 5% á árinu 1976 og nú er spáð 7% hækkun á innflutningsverði.

Óreiðan í efnahagsmálum stafar því ekki af óhagstæðum ytri skilyrðum. Það, sem þar var óhagstætt, gerðist á árinu 1974, en síðan hefur ástandið farið stórbatnandi. Það er fyrst og fremst stefna ríkisstj. í efnahagsmálum sem valdið hefur þeirri óðaverðbólgu sem yfir hefur gengið og enn er hér í fullum gangi.

Nýlega hefur verið gerð nokkur athugun á því, hverjar séu beinar orsakir þeirra verðlagshækkana sem fram koma í framfærsluvísitölunni. Þessar athuganir leiða í ljós athyglisverðar staðreyndir, m. a. þessar:

Á tímabilinu 1. febr. 1974 til 1. febr. 1977 eða s. 1. þrjú ár hefur framfærsluvísitalan hækkað um 181%. Á sama tíma hefur sjötti taxi Dagsbrúnar hækkað um 149% eða allmiklu minna. Þessar miklu verðlagshækkanir má rekja til þriggja meginorsaka, þ. e. a. s. um 20% eða 1/5 má rekja til erlendra verðhækkana eða þeirra orsaka sem okkur hafa ekki verið viðráðanlegar, um 48% eða tæpan helming má rekja til beinna ákvarðana stjórnvalda og um 32% eða tæpan þriðja part má rekja til afleiðinga af kaupgjalds­hækkunum.

Það, sem þessar tölur segja í stuttu máli, er þetta: Um helmingur dýrtíðarinnar stafar beinlínis af því að ríkisstj. hefur ákveðið gengislækkanir og leyft gengissig. Þannig hefur inn­flutningsverð á vörum verið tvöfaldað. Þá hefur ríkisstj. hækkað söluskatt oftar en einu sinni, lagt á sérstakt 18% vörugjald og dregið úr niður­greiðslum hlutfallslega frá því sem áður var. Þessar ráðstafanir ríkisstj. ásamt með samþykkt á hækkun opinberra þjónustugjalda hafa leitt til verðhækkunar á s. l. 30 árum sem nemur 90%. Verðlagshækkanir, sem rekja má til launahækkana á þessum tíma, eru líka afleiðingar af stjórnarstefnunni, vegna þess að kaupmáttur launa hefur minnkað á þessum tíma, en ekki aukist. Sé kaupþátturinn af þessum ástæðum tekinn út úr myndinni má segja að orsakir verðlagshækkana á þessum þremur árum stafi að 70% af völdum ríkisstjórnarstefnunnar í efnahagsmálum.

Verðhækkanir á opinberri þjónustu á þessum tíma eru lýsandi dæmi um stefnu ríkisstj. í verðlagsmálum. Á nákvæmlega sama tíma og kaupgjaldið hækkar um 149% og framfærsluvísitalan hækkar um 181%, þá hækkaði eftirfarandi opinber þjónusta þannig: Hljóðvarpsgjald hækkaði um 278%, sjónvarpsgjald hækkaði um 279%, rafmagnsverð hækkaði um 260%, strætisvagna­gjöld hækkuðu um 315%, símagjöld hækkuðu um 248%, farmgjöld hjá Skipaútgerð ríkisins hækkuðu um 238%, sementsverð frá Sementsverk­smiðju ríkisins hækkaði um 327%, hitaveitu­gjöld hækkuðu um 174%. Þessi dæmi sýna að ríkisstj. hefur sjálf gengið á undan með verðhækkanir og hækkað opinbera þjónustu langt yfir meðaltalsverðhækkanir. Þannig hefur ríkisstj. beitt verðbólgunni sem hagstjórnartæki. Leiðin var sú að hækka verðlag, en halda niðri kaupi.

Enginn maður, sem nokkra glóru hefur í höfðinu, getur í dag haldið því fram að erfiðleikar okkar stafi af of háu kaupgjaldi. Sannleikurinn er sá, að vinnuafl okkar er farið að leita til annarra landa í ískyggilegum mæli. Það sanna opinberar skýrslur. Og það leitar til annarra landa vegna óviðunandi launakjara hér.

En hvar liggur þá vandi okkar í efnahagsmálum? Hann liggur m. a. í því, að hér er haldið uppi tvöfalt hærri vöxtum en í viðskiptalöndum okkar, — vöxtum sem leiða til ofurþunga í út­gjöldum í ýmsum starfsgreinum og vöxtum sem valda óheyrilegri dýrtíð. Hann liggur m. a. í því, að ríkið og opinberir aðilar ráðstafa milljörðum kr. á ári í framkvæmdir sem ekki geta skilað arði í mörg ár og sumar munu aldrei skila nein­um arði. Hann liggur í því að samkv. síðustu fjárl. þarf ríkið að greiða um 9000 milli. kr. á ári í vexti af lánum, en þessi vaxtagreiðsla rík­isins jafngildir 5–6 söluskattsstigum í gjald­heimtu. Vandi okkar liggur m. a. í því, að við eyðum og sóum gjaldeyri og verðmætum í óþarfa og í skipulagsleysi og í illa rekin fyrirtæki og stofnanir. Vandi okkar liggur m. a. í því, að peningamálum þjóðarinnar er ekki stjórnað í þágu framleiðsluatvinnuvega í því skyni að auka framleiðslu og framleiðni og gera reksturinn hag­kvæmari. Hér hefur stefnan hvert á móti verið sú að draga úr fjárfestingu til atvinnuvega lands­manna sjálfra um 21% að magni árið 1975 og um 17% að magni aftur árið 1976, og enn er beinlínis áætlað í opinberum plöggum að dregið verði úr fjárfestingu atvinnuvega landsmanna á þessu ári um 12–14%. Í stað þessa er fjárfestingunni beint að Grundartanga, hafnargerð þar, vegarlagningu hangað, raflínulögn þangað og hlutafjárframlagi í hann taprekstur og í virkjunarframkvæmdir vegna erlendrar stóriðju svo milljörðum skiptir.

Stefna ríkisstj. í atvinnumálum er mótuð af vantrú á íslenska atvinnuvegi, en oftrú á erlenda stóriðju. Dæmi um þetta eru ótalmörg. Nýlega hafa t. d. iðnrekendur skýrt frá því, að þeir vildu greiða starfsfólki sínu hærra kaup og teldu það nánast nauðsynlegt eins og komið væri, en skilyrði þess væri að rekstur þeirra byggi við hliðstæð rekstrarskilyrði og keppinautar þeirra er­lendis. Með þessu eru íslenskir iðnrekendur að benda á að hér búa þeir við helmingi óhag­stæðari lánakjör en annars staðar þekkist, hér er þrengt að þeim í lánsfjármálum og hér búa þeir við hærra orkuverð og sífellda nýja og nýja skattheimtu ríkisins á ýmsum sviðum. Sem sagt, iðnrekendur heimta breytta stjórnarstefnu.

Lánakjör þau, sem nú hafa verið sett af stjórnvöldum, gera nánast allar framkvæmdir í ís­lenskum landbúnaði óframkvæmanlegar. Verð­trygging stofnlána og háir vextir fá ekki staðist í landbúnaði okkar. Þessar lánareglur eru líka settar til þess að stöðva framkvæmdir, en ekki til að leysa neinn vanda.

Í málefnum sjávarútvegs hefur komið fram, að það er nánast trúaratriði að stöðva allar umbætur fiskiskipaflotans og draga á langinn og helst af öllu að stöðva þær endurbóta- og hag­ræðingarframkvæmdir sem unnið hefur verið að í fiskiðnaði landsmanna.

Þeir, sem stjórna peningamálum þjóðarinnar, virðast ekki skilja hvaðan þeir peningar koma sem þeir fara höndum um og þeir lifa á sjálfir. Þeir skilja ekki hvar uppspretta þeirra er og hvað til þess þarf að sú uppspretta geti fært í þjóðarbúið peningaleg verðmæti.

Erlenda stóriðjan mætir hins vegar öðru viðmóti af hálfu stjórnvalda. Hún þarf ekki að greiða okurverð fyrir raforkuna. Hún getur sagt, eins og fulltrúar Járnblendifélagsins á Grundar­tanga sögðu nýlega í bréfi til Alþ., að þeirra verksmiðja mundi búa við raforkuverð sem yrði það hagstæðasta sem vitað væri um til nýrra fyrirtækja á norðurhveli jarðar. Þetta voru þeirra orð.

Erlenda stóriðjan þarf ekki heldur að búa við íslensk verðtryggingarlán. Hún tekur erlend lán á helmingi lægri vöxtum en hér gilda. Erlend stóriðja þarf ekki heldur að hafa áhyggjur af nýjum skattaálögum í ýmsu formi eins og ís­lensk fyrirtæki. Hún er undanþegin öllum slíkum kvöðum.

Áhugi ríkisstj. á erlendri stóriðju er svo mikill að hún hikar t. d. ekki við að leggja fram sem hlutafé áhættufé 3.500 millj. kr. til Grundartanga­verksmiðjunnar, og samkv. upplýsingum, sem einn af þm. Sjálfstfl. gaf á Alþ. fyrir nokkrum dögum, sýna útreikningar, sem hann lét gera og byggðir eru á áætlunartölum Járnblendifélagsins, að ríkissjóður muni þurfa að greiða með verksmiðjunni um 3400 millj. kr. á næstu 6 árum í beint meðlag og er þá búið að taka tillit til allra greiðslna frá félaginu í formi skatta og annars — sem sagt nettótap 3400 milli. kr.

Sú stefna í atvinnu- og fjárhagsmálum, sem ríkisstj. hefur fylgt, hlýtur að vera öllum landsmönnum áhyggju- og umhugsunarefni. Ég skil mætavel að fylgismenn Sjálfstfl. spyrja af nokkr­um þunga og reiði: Hvar er skattkerfisbreytingin, Geir Hallgrímsson? Hvar er skattalækkunin, sem lofað var, Geir Hallgrímsson? Hvar eru nýju verðlagseftirlitsreglurnar sem áttu að lækka verðlag? Hvar eru nú loforðin um minnkun ríkisútgjalda? Hvar er nú stefna Sjálfstfl. um minnkun ríkisafskipta? Koma þau fram í Grundartangaverksmiðjunni? Og hvar er nú stefna Sjálfstfl. um endurskoðun laga um Framkvæmdastofnun ríkisins? Var hún kannske aldrei neitt annað en krafa um formleg helmingaskipti? Og ég skil að sjálfstæðismenn spyrji: Hvar er stefnan, Geir Hallgrímsson, um gætni og ráðdeild í fjármálum og minnkun erlendra skulda? Það er von að mennirnir spyrji.

Ég skil líka ofurvel að þeir, sem studdu Framsfl., spyrji hvað hafi eiginlega komið fyrir flokkinn í íhaldssamvinnunni. Bændur spyrja skiljanlega hvers vegna þeirra kjör séu nú lakari en nokkru sinni áður, sbr. alla mótmælafundi þeirra á þessum vetri. Þeir spyrja líka hvað hafi komið til að Framsfl. skyldi samþykkja þá okur­lánastefnu sem nú stöðvar allar framkvæmdir í landbúnaði. Ég skil að framsóknarmenn spyrji hvað hafi komið til að flokkurinn samþykkti í fyrra stækkun álversins í Straumsvík sem nemur 11 þús. tonna framleiðslu á ári án allra skilyrða. Og enn spyrja þeir hvort flokkurinn ætli virkilega að samþykkja þriðja kerskálann í Straumsvík sem nú er verið að semja um og ákvörðunin um virkjun Hrauneyjafoss er í beinum tengslum við. Og er nema von að framsókn­armenn spyrji hvernig flokkurinn ætli að koma heim og saman byggðastefnu sinni og stóriðju­stefnunni með 18 milljarða framkvæmdirnar á Grundartanga.

Sú barátta, sem nú er framundan í launa- og kjaramálum, er ekki aðeins barátta á milli verka­fólks og atvinnurekenda. Hún er jafnframt barátta gegn rangri stjórnarstefnu, gegn þeirri stefnu að beita verðbólgunni sem hagstjórnartæki og gegn þeirri fávíslegu og óþjóðlegu stefnu sem nú er rekin í atvinnumálum þjóðarinnar. Allir þeir, sem nú eiga í kjaradeilum, jafnt verkamenn og sjómenn og opinberir starfsmenn, háskólamenn og annað launafólk, verða að átta sig á því samhengi sem er á milli verðbólgu og kjara­skerðingarstefnu ríkisstj. og stefnu hennar al­mennt í efnahagsmálum.

Launa- og kjarabarátta, sem slitin er úr samhengi við baráttuna á sviði landsmála, við hina pólítísku baráttu, verður alltaf árangurslaus. Launafólk allt og allir þeir, sem bera hag ís­lenskrar atvinnustefnu fyrir brjósti, þurfa að átta sig á að Alþb. er eini flokkurinn sem stendur gegn auknu áhrifavaldi útlendinga í íslensku atvinnulífi, er eini flokkurinn sem er heilsteyptur flokkur íslenskra launamanna.

Alþb. hefur sett fram till. sínar um íslenska atvinnustefnu. Sú stefna byggist á að landsmenn sjálfir nýti auðlindir landsins og hafsins í kringum landið, hafsins sem við börðumst fyrir í landhelgisátökunum að fá full yfirráð yfir til þess m. a. að stórauka afrakstur okkar af því hafsvæði. Alþb. gerir kröfu til þess, að atvinnu­reksturinn sé vegna fólksins, en ekki öfugt, og hafnar því með öllu forsjá erlendra gróðaafla í atvinnulífi landsins. Kjarabaráttan nú beinist því óhjákvæmilega að því að knýja fram breytta stjórnarstefnu í grundvallaratriðum. Núv. verð­bólgu- og kjaraskerðingarríkisstj. verður því að víkja — því fyrr, því betra. — Góða nótt.