04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

7. mál, ferðafrelsi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., er kynnt á dagskránni sem till. um ferðafrelsi, og er það í samræmi við titil þessarar till. eins og hún er á þskj. sem 7. mál. Auðvitað er ég hlynntur ferðafrelsi og geri ráð fyrir því að allir hér inni séu sama sinnis, um það þarf varla að ræða. Ég tek líka fram, að mér finnst að þær reglur, sem bandaríkjamenn setja varðandi ferðalög til lands þeirra, séu hálfhlægilegar og að mínu viti ástæðulausar reglur.

En athygli manna hlýtur auðvitað að beinast að öðrum þjóðum þegar rætt er um ferðafrelsi. Og það er athyglisvert að í grg. með þessari till. og í framsöguræðu hv. flm. víkur hann nær eingöngu að Bandaríkjunum, eins og Bandaríkin séu ímynd þeirrar þjóðar og þess ríkis sem skerði ferðafrelsi og annars konar mannréttindi. Hann vék að vísu nokkrum orðum í gamansömum tón að ferðasögu til Sovétríkjanna og komst að þeirri niðurstöðu að reglur þar í landi væru ögn mildari hvað snertir ferðafrelsi heldur en þekktist hjá öðrum þjóðum. Það er saga til næsta bæjar að þessi yfirlýsing skuli vera gefin nú, árið 1976, hér á hinu háa Alþingi.

En hv. flm. er afar seinheppinn, að það skuli vilja svo til að þegar þessi till. hans kemur hér til umr. á hinu háa sameinaða Alþingi, þá er það nákvæmlega 4. nóv, 20 árum eftir að sá sögulegi atburður átti sér stað í Ungverjalandi að tilraunir þeirrar þjóðar voru bældar niður, tilraunir til þess að öðlast venjuleg mannréttindi voru bældar niður af sovéskum her. Ég tel óviðeigandi annað og reyndar óhjákvæmilegt að á þetta sé minnst þegar rætt er um ferðafrelsi sem einn anga af almennum mannréttindum. Og ég teldi meira við hæfi að Alþ. gerði þann atburð að umræðuefni og fjallaði um það hvernig við íslendingar getum aðstoðað þessa hrjáðu bjóð til þess að öðlast almenn mannréttindi, þ. á m. ferðafrelsi. (MK: Gagnkvæmt ferðafrelsi.) Ég mun koma að því ef hv. þm. hafa ofurlitla þolinmæði.

Ég tel sjálfsagt að þegar rætt er um ferðafrelsi, þá sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir almennum mannréttindum og hvernig þau eru virt. ekki aðeins hér á Íslandi, heldur annars staðar. Þessi till., sem hér er borin fram af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, mun vera ætluð til þess að tryggja almennt ferðafrelsi. (MK: Gagnkvæmt.) Þá skal ég endurtaka það: gagnkvæmt ferðafrelsi. En ég sé ekki betur en að þessi till stríði einmitt gegn þessum meinta tilgangi, vegna þess að í síðustu mgr. þessarar till. segir svo, með leyfi forseta: „Vilji önnur ríki ekki fallast á þá skipan.“ þ.e.a.s. ryðja úr vegi öllum hindrunum á ferðafrelsi. „heldur leggi hömlur á ferðir íslendinga, skulu þegnar þeirra ríkja sæta sömu tálmunum ef þeir kjósa að ferðast til Íslands.“ (MK: Gagnkvæmt.) Ég held að það sé rétt að forseti gefi þessum hv þm. orðið hér á eftir til þess að hann geti útskýrt þetta hugtak og þessi frammíköll sín hér í deildinni.

Ef það vakir fyrir hv. flm. að stefna að ferðafrelsi, þá á auðvitað ekki að ná því marki með því að setja takmarkanir á ferðafrelsi annarra ef þeir setja takmarkanir á okkar ferðafrelsi, heldur eigum við að stuðla að því að beita okkur fyrir því að aðrar þjóðir leggi niður hlægileg skilyrði eða tálmanir á ferðafrelsi þeirra þegna. (MK: Till. fjallar um það.) Till. fjallar um það, að ef ekki verði fallist á þetta, þá eigum við íslendingar að setja tálmanir gagnvart þeim. (MK: Gagnkvæmt.) Ég held því að hér sé meiri háttar misskilningur á ferðinni hjá fim. og till. stríði algerlega gegn tilgangi sínum.

Þeir menn, sem hafa leynt og ljóst um áratuga skeið staðið með þeim öflum í heiminum sem hafa bælt niður og skert almenn mannréttindi, staðið með kommúnistaríkjunum, stefnu þeirra í framkvæmd þar sem kommúnisminn ræður ríkjum, — þeir menn sýna aðeins hræsni þegar þeir flytja till. hér á Alþ. um það að ferðafrelsi, jafnvel gagnkvæmt ferðafrelsi, eigi að taka upp. Ég tel það vera nær þeim og þessu þingi að ræða um það í alvöru hvernig við íslendingar, hvernig þjóðþing okkar hér á þessu litla landi geti tekið þátt í þeirri almennu viðleitni og áreiðanlega stuðlað að því að koma fram vilja alls þorra þjóða og alls þorra þess fólks sem býr við undirokun í dag, — hvernig við getum hjálpað þessu fólki til þess að öðlast frelsi á nýjan leik. Það væri meira við hæfi á þessum degi, 4. nóv., þegar 20 ár eru liðin frá því að uppreisnin í Ungverjalandi var bæld niður.