04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

7. mál, ferðafrelsi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þar sem till. þessi mun sennilega koma til n. þar sem ég á sæti, þá finnst mér rétt nú strax við þessa umr. að gera í stuttu máli grein fyrir áliti mínu á henni.

Ég vil þá strax segja það, að ég er sammála því sem ég tel vera meginefni till. og hljóðar á þessa leið: „Skal stefna íslenskra stjórnvalda vera sú að ryðja úr vegi öllum hindrunum á ferðafrelsi.“ Um þetta er ég fullkomlega sammála hv. flm. Hins vegar er ég ekki eins sammála um þær leiðir sem eigi að fara til þess að ná þessu marki.

Ég tel að við íslendingar eigum að fara þá leið að þessu marki, sem við raunar höfum farið hingað til, að hafa ferðafrelsi sem allra víðtækast, þannig að það séu engar sérstakar óeðlilegar hömlur á því að útlendingar geti komið hingað og ferðast hér. Á þennan hátt tel ég að við gefum öðrum þjóðum gott fordæmi og við getum líka staðið traustir á þeim grundveili að krefjast slíks hins sama af öðrum þjóðum, að þær veiti eins fullt ferðafrelsi hjá sér eins og við veitum hjá okkur. Mér finnst að flm. hugsi sér ekki að ná þessu marki á þann hátt, heldur með því móti að reyna að þvinga aðrar þjóðir til þess að fallast á okkar skoðun eða okkar stefnu á þann hátt að ef þeir haldi uppi óeðlilegum hömlum í sambandi við ferðafrelsi, þá eigum við að gera slíkt hið sama og sjá hvort við getum ekki þvingað fram okkar stefnu á þann þátt. Ég tel þessa leið óvænlegri til árangurs heldur en þá sem við höfum fylgt. Ég tel að þó að við séum beittir ýmsum hömlum erlendis sem við teljum rangar, þá eigum við ekki að taka þær upp, heldur halda áfram fullu ferðafrelsi og berjast á þeim grundvelli fyrir því að aðrar þjóðir veiti sama rétt.

Ef ég ætti að fara að segja mína sögu, þá hef ég orðið fyrir svipaðri reynslu erlendis og sumir þeirra þm. sem hér hafa talað. Mér virðist að ég muni vera í nokkuð svipaðri skúffu í ameríska sendiráðinu og hv. 5. landsk. þm., Svava Jakobsdóttir. Ég hef farið til Bandaríkjanna í ein tvö eða þrjú skipti í sambandi við Hafréttarráðstefnu Sameinuðu bjóðanna, og ég hef fengið áritun á þá leið að ég hef orðið að hypja mig mjög fljótlega í burtu eftir að þessum ráðstefnum hefur verið lokið. Þetta eru þrengri hömlur en voru áður í Bandaríkjunum, því þegar ég fór á þing Sameinuðu þjóðanna fékk ég mjög ríflega áritun, þannig að mér virðist að þetta sé nú að brenglast dálítið hjá þeim a.m.k. hvað mig snertir.

Þegar ég hef farið til Austur-Evrópu, sem hefur verið m.a. í boðsferðum. — sennilega hef ég ekki farið þangað öðruvísi en sem boðsgestur. þá hef ég fengið áritun til þess að dveljast í þessum löndum. En þess hefur verið vandlega gætt að ég dveldist ekki einum degi lengur en boðstíminn var, ég yrði að hypja mig tafarlaust heim þegar honum hefur ver9ð lokið. Ég hygg að ég hafi aldrei fengið að dveljast lengur í þessum löndum en svona 12 daga í mesta lagi, eftir þann tíma, þegar boðstímanum var lokið, varð ég að hypja mig heim.

Þó að ég hafi þessa reynslu bæði vestan hafs og austan tel ég ekki rétt að við íslendingar tökum upp sama háttalag. Ég vil ekki beita ameríska þegna sem hingað koma, eða Austur-Evrópuþegna, sem hingað koma, sömu meðferð og við íslendingar erum beittir undir ýmsum kringumstæðum í þessum löndum. Ég tel að við eigum að hafa áfram fullt ferðafrelsi gagnvart þegnum þessara landa þó að við teljum okkur beitta einhverjum ólögum hjá þeim, enda finnst mér það vera að hengja bakara fyrir smið. Þó að stjórnvöld þessara landa hafi einhverjar rangar reglur, eigum við ekki að láta það bitna á þegnum þeirra. Ef þeir vilja koma hingað og ferðast hér, þá eiga þeir að hafa leyfi til þess þó að við verðum e.t.v. að sæta einhverjum hömlum í viðkomandi löndum.

Við erum vafalaust öll á því að við eigum að stefna að því að andi kalda stríðsins hverfi og verði bætt sambúð á milli þjóða. Mér finnst að það sé spor aftur á bak og í anda til kalda stríðsins ef við förum að taka upp t.d. sams konar hömlur á ferðafrelsi og aðrar þjóðir kunna að beita og við höfum ekki beitt áður.

Ég var á Hafréttarráðstefnunni í New York í sumar og ég fylgdist þar dálítið með málflutningi í samþandi við flokksþing repúblikana. Það var háð þann tíma sem ég var þar. Og það vakti alveg sérstaka athygli mína að annar af aðalkeppinautunum um framboð fyrir repúblikana, fyrrv. ríkisstjóri í Kaliforníu, Reagan, vildi beita ekki ólíkum baráttuaðferðum og felast í þessari till. Hann benti á að það væru alls konar hömlur í austantjaldslöndunum sem bandaríkjamenn yrðu að sætta sig við og þeir hefðu ekki staðið sig nógu vel, Ford og Kissinger, með því að mæta þessum hömlum ekki á þann veg að taka upp sams konar hömlur í Bandaríkjunum. Ég var ósammála þessari kenningu, og sem betur fer var flokksþing repúblikana að mínum dómi líka ósammála henni og hafnaði þessum manni sem frambjóðanda og þeirri stefnu kalda stríðsins sem hann barðist fyrir. En það er af alveg sömu ástæðu og ég gat ekki sætt mig við afstöðu Reagans sem ég get ekki sætt mig við þær vinnuaðferðir sem virðast felast í þessari till.

Ég vænti hins vegar að það geti náðst fullt samkomulag og sé fullt samkomulag hér á Alþ. um það meginefni till., að það skuli stefna að því að íslensk stjórnvöld vinni að því að ryðja úr vegi öllum hindrunum á ferðafrelsi, en það tel ég best gert með því að við séum til fyrirmyndar í þessum efnum og getum þess vegna með góðri samvisku krafist þess af öðrum að þeir veiti fullt ferðafrelsi, eins og við gerum. Við eigum hins vegar ekki að taka upp þær reglur sem þeir hafa og við teljum rangar og viljum að þeir leggi niður.