30.04.1977
Efri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4023 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þegar þetta mál kom til 2. umr. urðu hér nokkr­ar umr. um það, hvernig skilja ætti ákvæði til bráðabirgða, 1. mgr., þ. e. a. s. að ákvæði 1. gr. skyldu einnig gilda um þær konur sem synjað hefur verið um fæðingarorlofsgreiðslur vegna þeirra aðstæðna sem 1. gr. á við um. Hv. 2. þm. Reykn. hélt því fram, að það mætti fullkomlega túlka þetta þannig að allar þær konur, sem annars hefðu átt rétt á þessum greiðslum áður, gætu samkv. þessu fallið undir þessa skilgreiningu, en ekki einungis þær sem sóttu, þrátt fyrir það að lögin hindruðu þær í því að ná þessum rétti. Þetta gilti ekki bara um þær, heldur um þær konur einnig sem lásu lögin eða kynntu sér þau og sáu að það var tilgangslaust að sækja, vegna þess að lagaákvæðið var það skýrt um tekjumörkin. Ég held að til þess að taka af öll tvímæli um þetta sé rétt að umorða þetta ákvæði til bráðabirgða, og ég leyfi mér að flytja um það hér skriflega brtt., þ. e. a. s. að 1. mgr. þessa ákvæðis orðist svo:

,,Ákvæði 1. gr. skal einnig gilda um þær konur sem ekki hlutu fæðingarorlofsgreiðslur vegna þeirra aðstæðna, sem 1. gr. á við um.“

Ég hafði von um það á tímabili að hv. n. mundi taka þessa sjálfsögðu till. upp. Það var því miður ekki. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá úr þessu skorið, því að túlkun okkar hér verður ekki metin gild, eða ég er hræddur um að hún verði ekki metin gild, þannig að mér þykir rétt að fá úr þessu skorið og ákvæði til bráða­birgða breytist á þann veg sem ég hef hér lýst í þessari skrifl. brtt. sem ég leyfi mér hér að afhenda forseta.