30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4026 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð því miður að standa hér upp, fyrst þetta tækifæri gafst, og lýsa hryggð minni yfir framkvæmd þessa þáttar í gærkvöld. Ég hlýddi á allan þáttinn frá upphafi til enda og undraðist niðurstöður þáttarins, vægast sagt. Mitt tal hér var ger­samlega slitið úr samhengi og komið með glefsur sem gáfu alranga hugmynd um hvernig þetta mál hafði komið inn í Alþ. á sínum tíma. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tel að hafi átt sér stað mismunun í fréttaflutningi. Ég man eftir tveimur dæmum a. m. k. hér í Ed., að ég sá ástæðu til að hringja til fréttastofu Ríkis­útvarpsins, þar sem aðeins var greint frá því að vissir þm. hefðu tekið til máls um ákveðið mál þó að fleiri hefðu talað. Þetta er náttúrlega enginn fréttaflutningur, ekki nokkur fréttaflutningur, og nær ekki nokkurri átt að aðeins sé til­greint að vissir þm. tali í máli. Annaðhvort á að vera sagt frá því, hvað menn segja, í samþjöppuðu máli eða a. m. k. tilgreind nöfn þeirra, sem taka þátt í umr., og þá algerlega sleppt hvað þeir segja. Ég verð að mælast til þess, að annaðhvort hæstv. forsetar þingsins eða stofnunin sjálf athugi þetta mál í framtíðinni.

Ég er ekki að halla á viðkomandi fréttamann, að neitt óheiðarlegt búi hér á bak við eða nokkuð annað eigi sér hér stað en eilítið athugunarleysi eða kannske þröng vinnuskilyrði jafnvel. Það getur vel verið að vinnuskilyrði séu ekki nægilega góð, þá þarf einnig að hlutast til um það. En þetta lítur þannig út gagnvart þeim, sem fylgjast með, að hér eigi sér stað mismunun, og það vil ég forðast og það veit ég að allir hv. þdm. vilja líka forðast og stofnunin sem slík. En þetta hefur átt sér stað. Ég man eftir tveimur tilvikum sem ég sá mig tilneyddan að segja frá því að fleiri þm. tóku til máls en sagt var frá í fréttum.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir að þetta tækifæri gafst til að vekja athygli á því, að frétta­flutningur frá þessari stofnun er mikilvægur, en þá þarf hann að komast til þjóðarinnar með eðlilegum og góðum hætti.