02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Fundarályktun sú, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, barst mér í morgun. Ríkisstj. hefur ekki haft tækifæri til þess að ræða á fundi ályktunina eða þá beiðni sem hún hefur inni að halda, en mun væntanlega gera það á venjulegum fund­artíma á morgun. Hins vegar er það skoðun mín, að þessi ábending sé of seint fram komin, nægileg tækifæri hafi verið áður til að koma slíkri beiðni á framfæri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla efnislega um þessa beiðni eða málið á þessu stigi, en segi það sem mína skoðun, sem ég hef þegar sagt, að þessi beiðni sé of seint fram komin. Í raun og veru hefur mál þetta gengið tvívegis í gegn­um þd.: Annars vegar þegar um samningana við Union Carbide var að ræða og frv. er veitti ríkis­stj. heimild til þess að gera samning við það fyrirtæki. Síðan hefur málið aftur verið lagt fyrir þingið þótt að sumra áliti væri talið að fyrra frv. veitti heimild til þess að gera samning við annað fyrirtæki í stað Union Carbide. Málið hefur verið hér fyrir Alþ. frá því fyrir jól og hefur hlotið afgreiðslu í fyrri d. og er nú komið til 2. umr. í þessari deild. Ég tel því ekkert að vanbúnaði að málið verði hér tekið fyrir til 2. umr. og hljóti venjulega þingmeðferð. En það breytir auðvitað ekki hinu, að ríkisstj. mun taka málið til meðferðar á fundi sínum á morgun, og ef ákvörðun ríkisstj. er slík að ekki samrýmist því, sem ég hef hér sagt, þá er málið ekki endanlega afgreitt frá þinginu.