02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4085 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að efna hér til langra efnislegra umr. um þetta mál, þar sem mér hefur tvívegis í vetur gefist kostur á því: nú fyrir nokkrum dögum, þegar þetta frv. var til 1. umr. hér í hv. d., og fyrr í vetur, þegar ég mælti fyrir því utan dagskrár að beiðni fjölmargra starfsmanna í sjómannastétt.

Ég vil þó aðeins nota tækifærið að þessu sinni til þess að benda á röksemdafærslu sem kom fram í máli hv. þm. Sverris Hermannssonar áðan og ég held að Alþ. hljóti að vera nokkurt nýnæmi að þegar um er að ræða frv. til staðfestingar á brbl. En þessi ummæli hv. þm. voru á þá lund að þessi brbl. hefðu verið sett vegna þess að mikil upplausn og ringulreið kynni að vera fram undan, þ. e. a. s. því var spáð að mikil upplausn og ringulreið gæti verið fram undan. Ég er ansi hræddur um að það væri nú hægt að réttlæta marga brbl.-setningu með svona röksemdarfærslu. Ég er hræddur um að hæstv. ríkisstj. gæti t. d. í sumar sett brbl., jafnvel ein á dag, með slíkum röksemdum sem réttlætingu, að fram undan gætu verið aðstæður er sköpuðu upplausn og ringulreið og því ætti að ganga fram hjá því valdi sem 60 þjóðkjörnum fulltrúum er fengið í kosningum og stjórna með tilskipunum eins ráðherra.

Þetta er ný röksemd fyrir brbl.-setningu sem kom hér fram hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni áðan, og ég tel fulla ástæðu til þess að vekja athygli á henni þar sem með þessu er verið að setja ákveðið fordæmi fyrir störfum ekki aðeins þessarar hæstv. ríkisstj., heldur þeirra ríkisstj. annarra sem kynnu að fylgja á eftir. Ef þessi regla á að gilda, að mönnum í ríkisstj. sé heimilt að setja brbl. bara út frá því einu, að þeir haldi að mikil upplausn og ringulreið kunni e. t. v. að vera fram undan, án þess að nokkuð slíkt hafi gerst, þá er ég hræddur um að fáir verði óhultir á þessu landi og allra síst hv. þm. Sverrir Hermannsson. Ég er ansi hræddur um að mörgum flokksbræðra hans hefði ekki þótt ónýtt núna undanfarna daga að geta sett á þann hv. þm. brbl. með þeirri röksemd einni, að svo kynni að fara, ef svo héldi áfram sem horfði, að þá væri mikil upplausn og ringulreið í aðsigi.

Ég ætla ekki að fara frekar út í efnislegar umr. um þessi mál, en aðeins benda mönnum á það, að með því að samþykkja það frv., sem hér er lagt fram og hv. þm. Sverrir Hermannsson var að hvetja menn til þess að samþykkja, er Alþ. og alþm. um leið að fella úrskurð sinn þar um og skapa það fordæmi að ráðh. ekki aðeins í núv. ríkisstj., heldur í hverri ríkisstj. sem henni kann að fylgja á eftir, geti gripið til brbl.-setningar án þess að nokkur sjáanleg og brýn þjóðar­nauðsyn krefjist, með þeim rökstuðningi einum, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson flutti hér áðan, að svo virðist vera að mikil upplausn og ringulreið kunni að vera einhvers staðar fram undan.

Að lokum vil ég aðeins fara örfáum orðum um það sem sagt er í áliti meiri hl., að ég hafi ekki verið viðstaddur á fundi sjútvn. í morgun. Það kom ekki til af góðu að svo var. Fundur var haldinn í sjútvn. um þetta mál, að mig minnir, á föstudag í síðustu viku frekar en á fimmtudag. Þar var ákveðið að hafa annan fund um þetta mál í n. og gefa á þeim fundi forsvarsmönnum þeirra aðila, sem eiga hagsmuna að gæta, þ. e. a. s. sjómanna og útvegsmanna, tækifæri til þess að koma á fund n. og ræða við hana. Var ákveðið á þessum nefndarfundi í sjútvn. að stefna að því að hafa þennan fund kl. 11 í morgun. Hins vegar er það vaninn hér í þinginu að slíkir fundir séu boðaðir, vegna þess að það hefur oft og iðulega gerst, þó að menn hafi rætt um slíkt í n. þingsins, að boða einhverja ákveðna menn til fundar eða gefa mönnum kost á að koma til fundar við þn. á einhverjum ákveðnum degi einhvern tíma síðar, þá hafi forsenda fyrir slíku fundahaldi brostið, t. d. vegna þess að þeir menn, sem þar hafi átt að mæta hafi ekki getað mætt á tilteknum tímum. Vaninn er sá í þinginu að boða slíka nefndarfundi. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni. Fundur sjútvn., sem haldinn var í morgun, var ekki boðaður með öðrum hætti en ég hef lýst. Þess vegna mætti ég ekki á þeim fundi. Hins vegar sat ég á sama tíma og þessi fundur var haldinn á fundi í fjvn., í næsta herbergi við herbergið þar sem fundur sjútvn. þessarar hv. d. var haldinn. Þetta býst ég við að meðnm. mínum í sjútvn. hafi verið kunnugt um og hefði því verið hægt um hönd að drepa á dyr í næsta herbergi við það her­bergi, þar sem sjútvn. sat á fundi, og leyfa mér að vita af því að fundur væri haldinn.

Hins vegar kemst ég ekki heldur hjá því að benda á það sama og hv. þm. Garðar Sigurðsson gerði í ræðu sinni áðan, að það fór ekki mikið fyrir því á þessum fundi sjútvn. í morgun að þeim aðilum, sem eiga hagsmuna að gæta í þess­um málum og það mikilla hagsmuna, gæfist kostur á að láta álit sitt í ljós við hv. sjútvn. þess­arar d., vegna þess að klukkan 11.20, þ. e. a. s. þegar fundur sjútvn. um þetta mikilvæga mál, annar fundur n. þar sem átti að taka málið til efnislegrar umr., hafði staðið 15–20 mínútur, kl. 11.20 í morgun, hitti ég hv. þm. Pétur Sigurðs­son, formann sjútvn., hér fyrir utan þinghúsið og tjáði hann mér að þeim fundi, sem hófst kl. 11, væri lokið. (Gripið fram í.) Nei, þá var fundi fjvn. því miður lokið, honum lauk 5 mínútum fyrr. Það er því rétt hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að ekki var af hálfu stjórnarmeirihl. í n. tekinn mikill tími til þess að ræða við þá aðila sem hagsmuna eiga þarna að gæta, þannig að bæði var, að fundur sjútvn. var ekki boðaður með venjulegum hætti og á þessu máli var af hálfu n. ekki haldið með eðlilegum hætti, vegna þess að það eðlilega hefði að sjálfsögðu verið að n. hefði kallað til sín fulltrúa þeirra hagsmuna­samtaka sem þetta mál varðar, spurt þá m. a. um hvaða áhrif þessi brbl.-setning hefði haft á sín­um tíma og hvaða áhrif það mundi hafa t. d. á samningamál sjómanna ef þetta frv. yrði samþykkt. Þetta hefði verið hin eðlilega málsmeð­ferð, sú málsmeðferð sem ég átti von á. Þeirri málsmeðferð var ekki haldið, og ætlar þetta frv. því að enda sína sögu hér í þinginu með svipuðum hætti og hún hófst, þ. e. a. s. með harla undarlegum afgreiðslumáta.