02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

102. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Frv. það, er við fjöllum hér um. er á þskj. 114 og er flm. Pétur Sigurðsson, en frv. fjallar um tilkynningarskyldu íslenskra skipa. Þar skal kveða svo á, að öll íslensk skip, sem búin eru talstöðvum, önnur en varðskip, skuli tilkynna: a) brottför skipsins úr höfn; b) staðsetningu skipsins a. m. k. einu sinni á sólarhring, fiskiskip samkv. ákvörðun eftirlitsstöðvar og farþega­skip eftir aðstæðum; c) komu skipsins í höfn. En í 5. gr. er fjallað um fiskibáta, sem eigi eru búnir talstöðvum. Á þá er lögð sú kvöð að tilkynna sig einnig. Síðan eru nokkur önnur atriði í þessu frv.

Efni frv. er í 12. gr., 13. gr. er að lög þessi öðlist þegar gildi og er frv. einkar ljóst. En sjút­vn. þótti þó rétt að ræða frv. við forsvarsmann Slysavarnafélags Íslands um framkvæmdaatriði, þar sem sérstaklega í 5. gr. er lögð nokkur kvöð á þá smábáta sem ekki eru búnir talstöðvum, og vildum við forvitnast nánar um með hvaða hætti væri hægt að fullnægja þessari kvöð. N. varð sammála um eftir þessar umr. að nauðsynlegt væri að gera hér á nokkra breytingu að gefa smásvigrúm til þess að hægt yrði að verða við því sem 5. gr. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. koma tilkynningarskyldu á þá báta sem ekki eru búnir talstöðvum. Og eins og brtt. á þskj. 645 bera með sér bætum við aftan við 5. gr.: „samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sem sett skal í sam­ráði við Siglingamálastofnun ríkisins og Slysa­varnafélag Íslands.“

Við erum með fleiri smáorðalagsbreytingar, sem ég skal aðeins rekja.

Í 9. gr. frv. segir svo um gjald fyrir þjónustuna og kann að valda nokkrum misskilningi: ,,Skal það miðast við stærð skips og fara minnkandi eftir því sem skipin eru stærri.“ Til þess að afstýra misskilningi leggjum við til að orðin „og fara minnkandi eftir því sem skipin eru stærri“ falli burt, þar sem upplýst var að miðað er við skip undir 15 tonnum með lægsta gjaldið og svo nokkuð hækkandi í fjórum flokkum, en engan veginn neitt hlutfallslega hækkandi eftir stærð skipa. Við teljum að rétt sé að ákveða það í reglugerð eftir stærð skipanna hverju sinni.

Síðan er 11. gr. um kostnað og sektir. Við leggjum til að þar sem ríkissjóður ber allan kostnað í raun, þá sé einnig rétt að ríkissjóður fái sektarfé ef til komi.

Við tókum eftir því í 12. gr., að þar stendur að sjútvrh. ákveði með reglugerð greiðslur út­gerðanna til Landssíma Íslands svo og um nánari framkvæmd þessara laga. Við veltum vöngum yfir því, hvort rétt væri að sjútvrh. tæki þetta að sér og það væri sett í lög. Við komumst að því, að heppilegra mundi vera að aðeins stæði: „Ákveða skal“ o. s. frv., því að eins og hv. þdm. vita er Póstur og sími undir samgrn. og við a. m. k. á þeim nauma tíma, sem við höfðum til vinnu, gátum ekki sannfært okkur um að hér væri rétt að orði kveðið í frv.

Að öðru leyti er n. sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum er ég hef nú greint frá. Hér er um mjög mikilsvert og gott mál að ræða og sannarlega kominn tími til þess að um þetta séu sett lög, svo mikilvægt sem það er fyrir alla að fylgjast með flota okkar og áhöfn hverju sinni.