02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Við höf­um nú talað allir flm. að þessari till. Ég held að í máli okkar hafi komið fram flest það sem skiptir meginmáli, ég get því verið stuttorður. Það hefur verið flutt öfgalaust og án nokkurs hótanatóns á einn eða annan veg. Hins vegar hef ég aðeins heyrt því fleygt, að málið gæti fengið alvarlega niðurstöðu ef við værum ekki góðu börnin og hlýddum í einu og öllu. Ég verð að harma að slíkt skuli koma fram í jafnviðkvæmu máli og við erum hér að fjalla um, því að allir viljum við vel gera í þessu efni, held ég, en höfum aðeins nokkuð mismunandi sjónarmið.

Við tölum hér því miður af dýrkeyptri reynslu, og þess vegna er þessi till. flutt. Hún er ekki flutt, eins og 2. þm. Reykn. réttilega undirstrik­aði, hún er alls ekki flutt til að skapa neina úlfúð og misklíð. Hún er flutt vegna hræðslu og nauðsynjar á því að við förum varlega um sinn í sókn okkar í ókynþroska fisk. Og það er staðreynd, hvað sem hver segir hér í kvöld til að andmæla þessari till. eða hvernig sem menn greiða þessari till. atkv., þá er það staðreynd að sókn okkar í ókynþroska fisk er of mikil. Og ég verð að segja ykkur eina sögu frá Vest­fjörðum. Það getur vel verið að einhverjir taki það þannig, að það sé verið að ala á ríg, en þessi frásögn var sögð af fúsum og frjálsum vilja og án nokkurrar þvingunar frá einum eða neinum. Einn af talsmönnum togaraútgerðar á Vestfjörðum sagði: Það eru engin hrogn ti1 í þessum fiski, þó að ég ætti líf mitt að leysa gæti ég ekki skaffað eina tunnu. — Þá þarf ekkert mat, hvorki af opinberri stofnun eða öðrum, á hvaða stigi þessi fiskur er. Hann er veiddur um of, ekki eingöngu af vestfirskum dugnaðarsjómönnum, heldur af öllum sem sækja á þessi mið. Hann er veiddur um of. Við viljum hamla á móti þessu ágæta veiðarfæri í bili vegna óhjákvæmilegrar nauðsynjar að okkar mati.

Það er alveg rétt, að ég geri engan greinarmun, og það hefur komið fram í máli okkar allra, bæði sem erum með og á móti, að við gerum engan greinarmun á því, hvernig við drepum fiskinn, í botntrolli eða flottrolli. En það er grjóthörð staðreynd, hvað sem sagt verður, að eðli flottrollsins er það, að því er aðeins beitt þegar fiski­mennirnir verða varir við torfurnar uppi í sjó, og þá er í langflestum tilfellum um mikla veiði á stuttum tíma að ræða með þeim afleiðingum að það er aukið smáfisksmagn í því kasti — ég segi því miður. Það er vitað mál, að þeir, sem hag­nýta flottrollið mest og best, verða að hafa í skipum sínum lágmarksvélarafl til þess að tog­krafturinn né nægilega mikill, og þá fer þetta allt saman, að möskvinn er ekki eins opinn og aðstæður væru annars til, ef aflinn er minni, og þá lokast veiðarfærið allt og hirðir allt sem að kjafti kemur.

Ég fylgdist með löndun hérna um daginn úr skipum sem komu að vestan, og ég má til að segja ykkur frá einni löndun sem átti sér stað hér í Reykjavík, því að það er opinbert mál nú, en það var afli úr skipinu Bjarna Benediktssyni, því góða skipi, sem fékk afburðagott kast, stærsta kast sem ég hef heyrt um nú undanfarið, að mati manna um 90 tonn í kastinu, og tók rúman sólarhring að koma fiskinum undir þiljur. En hvað skeði þegar fiskurinn kom hér í land? Að mestu leyti var hann meira og minna skemmdur. Aðeins þetta eina atvik réttlætir það að mínu mati að hamla á móti notkun flotvörpunnar í bili meðan fiskstofnarnir eru að jafna sig.

Ég gæti líka sagt frá öðrum togara frá Vestfjörðum sem lenti líka í mjög góðu kasti og náði rúmum helmingi, þá sprakk trollið og fiskurinn flaut dauður um allt.

Mig hryllir við svona atburðum. Ég vil ekki að þeir endurtaki sig um óákveðinn tíma, — ég vil það alls ekki. Og ég efast um að nokkur maður vilji það. En við eigum að hafa kjark til þess að bægja þessu frá. Til þess sitjum við hér á Alþ. Og það eru engin rök fyrir því að banna trollið á ákveðnum veiðisvæðum við landið og hafa það opið á öðrum — ekki nokkur. Annað­hvort skal það vera bannað alveg eða ekki.

Ekkert veiðarfæri drepur fisk ódýrar en nótin, og það er hægt að velja úr fiskinum fisk fyrir fisk, en samt er hún bönnuð af því að menn töldu að hún tæki of mikið í hverju kasti, þótt stór fiskur væri eingöngu, þó að hún væri ein­göngu sunnan- og suðvestanlands. (StJ: Hún gerði það líka stundum.) Hún getur drepið smátt og hún getur drepið stórt. En vegna þess að við megum ekki vera svona stórtækir við ríkjandi aðstæður, þá féllust útvegsmenn á án þess að gera hina minnstu kröfu til skaðabóta, að nótin væri tekin úr umferð fyrir mörgum árum, 10 árum. Það eru alltaf einhverjir sem óska eftir að hún komi til baka, en það hefur ekki náð fram að ganga vegna þess að menn vilja ekki að við notum svo stórtæk veiðarfæri eins og nótin er.

Menn bera ótta nú við flotvörpuna. Og það er nákvæmlega rétt, það sem 5. þm. Austurl. sagði, að það kaupir enginn togara í dag til þess að hafa flotvörpu sem aðalveiðarfæri. Hún er sem hjálpartæki. Þegar menn verða varir við að fiskurinn leitar upp í sjó í þéttum torfum, þá er gripið til flotvörpunnar, sem liggur tilbúin til að kasta, og henni beitt með þeim árangri sem við þekkjum.

Sérfræðingarnir segja auðvitað ekki að það skuli drepa fiskinn í ákveðið veiðarfæri. Það er ekki þeirra hlutverk. Og ég vil undirstrika það við hæstv. ráðh.: Við erum að heimta af þeim umsögn sem er ekki í þeirra verkahring að gera. Þeir segja hvað má sækja mikið heildarmagn í stofninn. Þeir leggja til að sóknin sé takmörkuð. Og við eigum að taka hina pólitísku ákvörðun hér á Alþ. í því efni.

Ég heyrði ráðh. því miður ýja að því, að rétt væri að hamla nokkuð á móti veiðunum — skulum við segja — með því að fara varlega í langan vinnutíma í 3–4 mánuði yfir sumarið. Ég þakka aftur mjög fyrir orð hv. 2. þm. Vestf. sem tók undir þá skoðun, að rétt væri að gefa fólki frí a. m. k. laugardag og sunnudag yfir sumarmánuði á Vestfjörðum og víðar og draga þannig úr þeim mikla sóknarþunga sem er hringinn í kringum landið á þessum árstíma. Það er verulegt skref í áttina. Og margir hafa talað um að togarakaup ættu að vera til þess að þeir lægju jafnan við bryggju á mánudagsmorgni og þá hæfist löndun kl. 7 eða 8 og veiðarnar væru mjög skipulegar og sókn í samræmi við eðlilegan vinnutíma og fengi þannig á sig meira iðnaðarsnið. Það virðist ekki mega stjórna með þessum hætti. Ég veit ekki hvað veldur. En ég held að þetta sé mál sem þurfi að athuga vel, kannske að skoða, eins og sagt er í dag. En hvað á að skoða það lengi? Ég sé enga ástæðu til að velta þessu á undan sér árum saman.

Nei, því miður þurfum við ekki að óttast að fiskurinn fyrir vestan eða annars staðar deyi úr elli. En við höfum af því beyg, margir hverjir, bæði utan Alþ. og innan, að við sækjum of sterkt í smáfiskinn, ókynþroska fisk. Það er alveg rétt, að skýrsla svipuð og ég las hér upp áðan mun vonandi verða með öðru sniði eftir 155 mm möskvinn hefur verið notaður. Hann mun sía meira smáfiskinn út. Sérstaklega þegar afla­minnkun á sér stað, eins og hefur verið hjá togurunum nú í bili, kemur í ljós gildi 155 mm möskvans.

Hæstv. ráðh. er af einhverjum „prinsip“-ástæðum á móti því að banna flottrollið undan Vest­fjörðum. En hann er ekkert af „prinsip“-ástæðum á móti því að banna flottrollið að meiri hluta hringinn í kringum landið, á miklu stærra veiði­svæði. Hvaða „prinsip“ gildir undan Vestfjörðum? Ég sé enga vísindalega röksemdafærslu fyrir að hafa annað „prinsip“ þar. (Sjútvrh.: Ég nefndi ekki Vestfirðina í þessu sambandi.) Nei, en hæstv. ráðh. hefur bannað flotvörpuna á stórum haf­svæðum og hann veit nákvæmlega hvar. Ég þarf ekki að lesa það upp. Nei, við skulum bara með rólegri yfirvegun gera okkur grein fyrir því, að þetta er í bili nauðsyn til þess að koma í veg fyrir of mikla sókn í ókynþroska fisk, og okkur er bara sómi að því að gera þetta um sinn.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði að svona bann verði að byggjast á athugun. Það eru margir tugir athugana til, og skipstjórarnir sjálfir, sem eru með þessi tæki, beita þeim af því að aðrir gera það, þetta hefur ekki verið bannað. En margir hverjir yrðu mjög fegnir að hvíla flotvörpuna, jafnvel meira en eitt ár. Og hann segir einnig að allt verði að skoðast nánar í sambandi við flotvörpuna sem slíka. Það þarf ekki. Við höfum dæmin um allt. Og hann leggur til að við leitum að skynsamlegum leiðum til þess að draga úr sókninni.

Hér er um skynsamlega leið að ræða sem skapar ekki nein sérstök vandamál. Hún bægir frá uggvænlegri þróun við ofsókn í ókynþroska fisk. Ég vil að við gerum sérstakar ráðstafanir til þess að afnema veiðar á undirmálsfiski, fiski sem á eftir að vaxa og auka kyn sitt. Það verður að veiða með tilliti til reynslu og vísindalegra staðreynda, annars fer allt í sama horf hjá okkur og var fyrir útfærsluna. Það væri mikil ógæfa ef við gætum ekki borið gæfu til þess að koma þorskstofninum í rétt horf nema næstum ganga af honum dauðum eins og síldinni. Hvílík ógæfa! Vildi nokkur maður tengja nafn sitt við slíkt? Ég get ekki ímyndað mér það. Það voru margir sem aðvöruðu með síldina. Menn sögðu alltaf: Þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi, það er nóg til, við skulum bara halda áfram. — Og það þarf ekki að rekja þá hörmungarsögu. Við vorum nokkrir sem nöldruðum um að fara varlega, stöðva í tvo mánuði, einn mánuð, a. m. k, að fara mjög varlega yfir sumar­mánuðina. Við vorum hrópaðir niður á ákveðnum vettvangi, bókstaflega hrópaðir niður, og ætla ég ekki að fara að rekja þá raunasögu. Við leggjum hér aðeins til að fara varlega í eitt ár til tilrauna, af því að dæmin sanna að það er óhjákvæmilegt. Og ég undirstrika það, að jafn­vel þótt mönnum finnist sú skýrsla, sem ég las upp áðan, uggvænleg og ekki kannske nægilega vísindalega unnin, þá gefur hún ótvírætt vísbendingu um hvað fiskurinn er smár og á hvaða aldursskeiði sá fiskur er sem bæði flotvarpa og botnvarpa koma með að landi. Þess vegna um­fram allt er nauðsyn á því að fara varlega. Og þá er rökrétt skref að taka flotvörpuna úr umferð til reynslu eitt ár. Það er alveg rökrétt skref og eitt af því árangursríkasta sem hægt er að gera.

Ég harma það, að hæstv. ráðh. er með eins konar hótunartón út í okkur sem viljum samþykkja það að leggja flotvörpuna til hliðar í bili, þá fari allt í voða með þetta frv. Við í n. höfum haft þetta frv. rúma tvo daga til með­ferðar, en það var nærri þrjá mánuði í Nd. og þá skeði ekki neitt. Var það enginn voði? Var þar enginn voði á ferðum? Ég harma svona mál­flutning, og ég veit að þetta er ekki eðlilegur málflutningur. Það er eitthvað annað sem býr þarna á bak við. Það á ekki við að vera með snuprur í garð okkar sjútvn.-manna í Ed. í þessu tilfelli. Hér er líklega um mótsögn eða missögn að ræða af hendi hæstv. ráðh. og ég fyrirgef honum það af öllu hjarta, en ég vil þá fá till. samþykkta í leiðinni.