02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4148 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

21. mál, leiklistarlög

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Að mínu mati hefði menntmn. þurft að velta ýmsum atriðum þessa frv. betur fyrir sér, en vegna þess að ríkisstj. virðist staðráðin í því að senda Alþ. heim á miðvikudag, þá er þetta eitt þeirra mála sem við höfum orðið að afgreiða án þeirrar at­hugunar sem það hefði þurft við og ég er nánast viss um að öll menntmn. hefði viljað að færi fram. En ég er þó svo hlynnt því að þetta frv. verði að lögum, að ég hef ekki gert við það nema eina aths. og flutt eina brtt. Hún er á þá leið, að liður I í 4. gr. falli niður.

4. gr. fjallar um hlutverk leiklistarráðs, og þar stendur m. a. um hlutverk þess, að það eigi „að vera vettvangur skoðanaskipta og umræðna um leiklistarmál og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma.“ Mig fýsti að vita hvort nokkuð kæmi fram í frv. um það, hvers konar stefnu hér ætti að framfylgja og þá með hvaða hætti. En þegar ég fletti upp í aths. til að verða einhvers vísari, þá stendur þar aðeins: „Þarfn­ast ekki skýringar:“ Mér fannst því að það væri vel hægt að misskilja þessa setningu og þarna væri hugsanlega verið að opna leið til þess að mynda einhverja opinbera stefnu sem gæti orðið listamönnum fjötur um fót. Mér fannst enn fremur varla þurfa að taka það fram í lögum, að þetta leiklistarráð skyldi ræða leiklistarmál eða hafa skoðanir uppi um leiklistarmál, og fannst því að athuguðu máli rétt að fella þennan lið niður. Meðflm. mínir báðir eru í menntmn., hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson og Magnús T. Ólafsson. Þeir eru mér sammála um þetta atriði.

Ég þykist þess nú fullviss raunar eftir að hafa lesið till. n., hinar fyrri, sem samdi þetta, að hér er ekki átt við að leiklistarráð eigi að vera með puttana í því sem skrifað er, heldur skuli hér reka leikhús innan frjálsra og framsækinna marka með íslenska leikhúshefð að kjölfestu. Undir þetta hefði ég getað skrifað, en þetta hefði ég viljað fá skýrt í lögunum. Ég tel að það skipti ekki miklu máli fyrir leikhúsráð eða bindi hendur þess þó að þessi liður falli brott, því að þær skoðanir, sem meiri hl. leiklistarráðs hefur uppi, hljóti eftir sem áður að koma fram í þeirri ráðgjöf sem því er ætlað að veita rn., sveitarfélögum og leiklistarstofnunum. En til þess að fyrir­byggja allan misskilning í framtíðinni tel ég rétt að fella þetta alveg burt. Ég ítreka það þó, að ég hef ekki áhuga á að tefja þetta mál.