03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. utan dagskrár að neinu ráði. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú bókun sem hæstv. forsrh. las hér upp og ríkisstj. hafði gert á fundi sínum í morgun, þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé of seint að fá fram vilja þess fólks á Hvalfjarðarströnd og í Borgarfirði sem járn­blendiverksmiðjumálið snertir hvað mest. Ég verð í fyrsta lagi að mótmæla því harðlega, að þetta sé of seint. Eins og hér hefur verið lögð áhersla á af talsmönnum stjórnarandstöðu, þá er ekkert sjálfsagðara en það, að Alþ. verði að störfum næstu vikurnar, undir heim kringumstæðum sem nú eru, og þá er að sjálfsögðu nægur tími til þess, jafnvel fyrir þá sem ætla sér að samþykkja þetta járnblendiverksmiðjumál, að fá fram vilja fólksins sem það snertir alveg sérstaklega.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að koma því á framfæri, að það er nú þegar vitað svo og svo mikið um mikla og vaxandi andstöðu við þetta fyrirtæki hjá því fólki sem það hlýtur sérstaklega að bitna á sakir umhverfisröskunar, sakir mengunarhættu og sakir annarra þeirra atriða sem margsinnis hafa verið rakin og ég ætla ekki að fara frekar út í hér. Ég vil aðeins — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp hér inn­gang að erindi sem allir þm. Reykn. hafa fengið sent og einnig hefur verið lagt fram á skrifstofu Alþingis, þar sem kemur fram mjög glöggt hver er vilji fólksins í Kjósarhreppi. Það hefur verið og kannske eðlilega lögð á það áhersla við umr. um járnblendiverksmiðjuna, að þetta mál snerti sérstaklega fólkið í Vesturlandskjördæmi, og það gerir það vissulega. En það snertir einnig það fólk í Reykjaneskjördæmi sem býr hinum megin Hvalfjarðar, því að við vitum að Hvalfjörðurinn er ekki breiður, og vissulega lætur það fólk sig þetta mál varða. En með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upphaf að erindi sem okkur þm. Reykn. barst ásamt undirskriftum:

„Á fundi í Kvenfélagi Kjósarhrepps, höldnum að Eyri í Kjós þann 26. apríl 1977, var ákveðið að Kvenfélagið beitti sér fyrir almennri undirskriftasöfnun meðal íbúa Kjósarhrepps gegn áframhaldandi framkvæmdum við fyrirhugaða járnblendiverksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði vegna augljósrar mengunarhættu af völdum verksmiðjunnar fyrir hreppinn og of mikillar fjárhagslegrar áhættu fyrir þjóðina í heild.“

Síðan segir í þessu bréfi sem þm. fengu: „Ályktun þessi var borin milli allra bæja í Kjósarhreppi 27.–29. apríl. 91 íbúi hreppsins var heima við, þar af skrifuðu 77 undir.“

Þetta bréf er afhent þm. Reykn. hinn 30. apríl, og hér er ég með þessar 77 undirskriftir. Það kemur hér fram að 14 af þeim, sem til náðist, hafa ekki verið reiðubúnir til þess að skrifa undir þessa ályktun. Hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, komst þannig að orði hér áðan, að það væri bara „fólkið hans Jónasar“ sem væri á móti þessari járnblendiverksmiðju. Nú er það ótvírætt að Jónas Árnason, hv. 5. þm. Vesturl., hefur átt miklu og vaxandi fylgi að fagna í Vest­urlandskjördæmi. En þessir 77 kjósendur í Kjós­arhreppi eru þó ekki í þeim skilningi „fólkið hans Jónasar“. Hins vegar kæmi mér það á óvart ef hv. þm. Axel Jónsson þekkti ekki býsna margt af því fólki og raunar hv. þm. Oddur Ólafsson þekkti töluvert af því líka, þannig að ég hygg að þetta dæmi um afstöðu fólksins í Kjósarhreppi sé nokkuð ljóst um það, hversu mikil og hversu vaxandi andstaða er gegn þessu járnblendifyrir­tæki einmitt á þeim slóðum þar sem það á eftir að hafa mest áhrif bæði í sambandi við umhverfisröskun og mengun. Það er því vissulega þung ábyrgð þeirrar hæstv. ríkisstj. sem vitandi vits er nú að ganga gegn vilja að því er virðist mikils meiri hl. fólks í þessum hreppum sem þetta mál varðar alveg sérstaklega.

Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur lagt fram rökstudda dagskrá í Ed. í sambandi við þetta járnblendiverksmiðjumál. Hann telur þar upp 12 atriði sem öll í senn og næstum því hvert um sig eru það mikils háttar, að þau eru ástæður gegn því að reisa þessa verksmiðju. Eitt af þeim atriðum, sem hann nefnir, er það, að svo virðist sem fólkið í þeim hreppum, sem þetta mál skiptir mestu, sé andvígt verksmiðjubyggingunni. Ég held að það megi kveða miklu fastar að orði og það sé þegar komið fram, að það er mjög mikil andstaða og mikill meiri hl. fólks í þessum hreppum er andstæður þessari verksmiðju. Því segi ég það — og það skulu vera mín lokaorð hér utan dagskrár — að það er mikil og það er þung ábyrgð þeirrar ríkisstj. og þeirra alþm., stjórnarsinna, sem ætla að knýja það fram að þessi verksmiðja verði nú reist, þrátt fyrir það að það virðist liggja fyrir að mikill meiri hl. fólks í þessum héruðum er andstæður í verksmiðjunni. Og það á að koma í veg fyrir, að sú and­staða komi fram með lýðræðislegum hætti, með því að neita þessu fólki um að það fari fram leynileg atkvgr. Ég segi: Þessi ábyrgð er þung.