03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

205. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Guðlaugur Gíslason:

Hæstv. forseti. Aths. síðasta hv. þm. gaf mér tilefni til þess sérstaklega að koma hér upp í ræðustól.

Ég vil byrja á því að þakka hv. n. fyrir undirtektir undir þetta mál. Eins og fram hefur komið bæði í framsögu og fram kemur af grg. hefur þetta mál verið í undirbúningi um nokkurra ára bil, eins og segir í nál., en sú athugun, sem fram hefur farið fram að þessu, hefur öll miðast við eðlilegar aðstæður og eðlilega þróun, bæði áætlun um hvað strengurinn mundi endast lengi og hver raforkuþörfin yrði í Vestmannaeyjum á næstu árum.

Nú bar það við í vetur, eins og hv. Alþ. er kunnugt, að fram kom bilun á strengnum, ekki einu sinni, heldur þrisvar, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að hjá því verður ekki komist að skapa meira öryggi en nú er í flutningi á raforku til Vestmannaeyja. Við skulum vona að komist hafi verið fyrir þær bilanir sem fram komu í vetur. En það er svo mikið í húfi í sambandi við raforkuflutning til Vestmannaeyja, að ég held að það væri óverjandi fyrir hv. Alþ. og stjórnvöld að gera ekki þær ráðstafanir sem hér er lagt til og með því að skapa, að því er við teljum, nokkurn veginn fullt öryggi um raforkuflutning til Vestmannaeyja. Ég vil benda á það, að frá áramótum og fyrstu fjóra mánuði ársins fer þarna fram vinnsla á fiskafurðum, að ég hygg nú á þessum vetri að verðmæti milli 5 og 6 milljarða kr. Ef svo illa tækist til að rafstrengurinn bilaði í ársbyrjun og veðurfar væri kannske erfiðara en hefur verið í vetur væri mikið í húfi. Við eigum því að venjast við Eyjar að þar geti verið mjög erfitt í langan tíma að koma við viðgerð á sæstreng, og þá gætu þessi verðmæti hreinlega farið forgörðum á þessum stað. Væri það ekki einasta óbætanlegt tjón fyrir það fólk sem þar býr, heldur væri þetta mjög tilfinnanlegt tjón fyrir þjóðarbúið í heild. Það er af þessari ástæðu, að ég tel að það sé þegar full þörf á því, að þetta mál hafi nokkurn forgang og ég vil segja verulegan forgang í sambandi við ráðstafanir í orkumálum og að unnið verði að því að skapa fullt öryggi í flutningi á orku til Vestmanna­eyja innan þess tíma sem mögulegt er. Ég tel að varla sé forsvaranlegt annað en að þetta öryggi verði komið þegar fyrir næsta vetur. Það er, að ég hygg, hægt að gera það ef þannig er haldið á málum sem ég tel að með þurfi, að það verði nú þegar farið að undirbúa það að nýr strengur verði lagður út til Eyja.