03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði hefur nú talsvert verið rætt hér á Alþ., og ég held að það leyni sér nú tæpast fyrir neinum að af hálfu aðstandenda þessa frv. er um að ræða næsta óvenjuleg og ömurleg rökþrot. Það vakti mikla athygli í útvarpsumr., sem fram fóru nú fyrir skemmstu, að hæstv. iðnrh. og aðrir stuðningsmenn þessa máls gerðu litla sem enga tilraun til þess að útskýra fyrir þjóðinni hvaða nauður ræki þá til að byggja þessa verksmiðju og hver væru eiginlega rök þeirra fyrir þeirri stóriðjustefnu sem þeir fylgja svo fast fram. Hins vegar tóku menn eftir því, að þessir talsmenn stóriðjustefnunnar eyddu langmestum tíma og gerðu það að aðalröksemd sinni, að fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson, hefði haft nokkur afskipti af málinu á undirbúningsstigi, og raunar má segja að þessi röksemd þeirra hafi verið það eina sem ýmsir þeirra höfðu fram að færa í þessu máli og hafa haft fram að færa fram til þessa.

Það er vissulega mikið traust sem Magnúsi Kjartanssyni er sýnt og Alþb., að menn færi það fram máli til ágætis einna helst, að hann hafi haft afskipti af því á undirbúningsstigi.

En hver er sannleikur málsins um afskipti Alþb. af þessu máli?

Það er rétt, að fyrrv. iðnrh. lét rannsaka möguleika á því að byggja járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og hann undirbjó þennan valkost ásamt fleiri valkostum sem við íslendingar gátum staðið frammi fyrir þegar að því kæmi að taka ákvörðun um hvernig orku Sigölduvirkjunar yrði varið. En staðreynd er, og henni verður ekki hnekkt, að Alþb. tók enga afstöðu til þessa máls meðan það var á undirbúningsstigi og meðan Alþb. átti aðild að vinstri stjórninni. Það er hvergi unnt að finna neina flokkslega samþykkt, hvorki af hálfu framkvæmdastjórnar, miðstjórnar né landsfundar, til stuðnings því að byggð verði járnblendiverksmiðja í Hvalfirði, og það er hvergi hægt að finna neina yfirlýsingu af hálfu Alþb. jákvæða gagnvart byggingu þess­arar verksmiðju. Alþb. beið eftir því að undir­búningur málsins ætti sér stað, rannsókn þess færi fram. Það beið eftir því að málin skýrðust. Og þegar Alþb. taldi að öll gögn málsins lægju þolanlega ljóslega fyrir tók flokkurinn málið fyrir. Það var í fyrsta sinn, sem flokkurinn fjallaði um það formlega. Og niðurstaðan var sú sem fram kom á landsfundi flokksins haustið 1974 að flokkurinn samþykkti einróma að snúast gegn byggingu þessarar verksmiðju. Sú afstaða mótaðist að sjálfsögðu alls ekki af því, hvort einhverjir alþb.-menn hefðu tekið þátt í rannsókn málsins eða undirbúningi þess, heldur af því einu, hver væru rök málsins. Það var mál­efnaleg afstaða sem tekin var, og hún byggðist á þeim tíma fyrst og fremst á tveimur atriðum: í fyrsta lagi því atriði, að við hefðum annað og hyggilegra við fáanlega orku að gera en eyða henni í þessa verksmiðju, og í öðru lagi, að við hefðum annað og æskilegra við fáanlegt fjármagn að gera en að eyða því í járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Og ég endurtek, að þessi samþykkt var gerð einróma, þ. á m. af öllum þm. flokksins. Það var ekki eitt einasta mótatkv. sem fram kom. Þetta er í fyrsta og eina sinn sem Alþb. hefur tekið afstöðu til þessa máls og þar af leiðandi eina ákvörðunartakan í sambandi við málið sem einhverju skiptir. En síðan þetta var hafa hrannast upp fjöldamörg önnur rök sem hafa styrkt þá afstöðu sem við alþb.­menn tókum fyrir tveimur og hálfu ári. Það hefur komið æ betur í ljós, að hér er um hið mesta glæfrafyrirtæki að ræða sem bersýnilega fylgir lítil hamingja fyrir land og þjóð.

Á þskj. 663 hef ég dregið saman nokkrar helstu röksemdir okkar gegn byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, og röksemdir þessar eru settar fram sem rökstuðningur fyrir till. til rökstuddrar dagskrár. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem í fyrsta lagi er sýnt, að raforkan til járnblendiverksmiðjunnar er seld undir kostnaðarverði og langt undir orkuverði frá næstu virkjun eftir Sigöldu;

í öðru lagi þar sem sýnt er, að íslenskir orkunotendur verða í framtíðinni að borga með orkunni til járnblendiverksmiðjunnar, en nýting orkunnar til innlendra þarfa, t. d. til húsahitunar, áburðarvinnslu, fóðurframleiðslu, fiskmjölsþurrkunar eða annarra nauðsynlegra verkefna væri ólíkt hagkvæmari;

í þriðja lagi þar sem ljóst er, að fjármagnshlutdeild íslendinga í þessari 20 milljarða fjár­festingu er einnig betur varið til annarra fram­kvæmda í landinu;

í fjórða lagi þar sem ákvæði um sölu afgangsorku til verksmiðjunnar eru ströngum skilyrðum háð og geta leitt til þess í erfiðu árferði, að raunverulega verði um forgangsorku að ræða, og þar sem óvissa ríkir um hvenær Kröfluvirkj­un skilar fyllstu afköstum og þess vegna er ljóst, að orkusala til járnblendiverksmiðjunnar getur valdið hættu á raforkuskorti í byrjun næsta átatugs;

í fimmta lagi, þar sem flest bendir til þess, að rekstur járnblendiverksmiðjunnar verði mjög áhættusamur, og vitað er, að miðað við verðlag á kísiljárni á s. l. ári og áætlaðan rekstrarkostnað verksmiðjunnar hefði beint tap á rekstrinum orðið það ár um 800 millj. ísl. kr.;

í sjötta lagi þar sem bersýnilegt er, að samningurinn við Elkem-Spigerverket er óeðlilega hag­kvæmur fyrir hinn erlenda aðila sem hefur allt sitt á þurru, selur dýrustu tækin til verksmiðjunnar með miklum hagnaði, selur tækni­kunnáttu fyrir hátt verð og fær síðan drjúg sölulaun fyrir selda framleiðslu, meðan íslenska ríkið tekur á sig að kosta dýrar framkvæmdir í þágu verksmiðjunnar, hafnargerð fyrir 800 millj. kr., vegagerð, raflínulögn og byggingu spenni­stöðvar;

í sjöunda lagi þar sem vitað er, að væntanlegur hreinsiútbúnaður verksmiðjunnar hreinsar ekki nema 95% af eitruðum útblæstri hennar;

í áttunda lagi þar sem upplýst hefur verið, að ýmsar óskir Náttúruverndarráðs um fyrirkomulag rekstrarins hafa verið virtar að vettugi;

í níunda lagi þar sem upplýst hefur verið, að kröfur Heilbrigðiseftirlitsins um skilyrði fyrir starfsleyfi verksmiðjunnar hafa verið sniðgengnar í ýmsum mikilvægum atriðum;

í tíunda lagi var sem ljóst er, að bygging verksmiðjunnar raskar eðlilegri byggðaþróun í nær­liggjandi héruðum og hefur almennt óheppileg áhrif á þróun byggðar í landinu;

í ellefta lagi þar sem flest bendir til þess, að bygging þessarar verksmiðju í Hvalfirði sé í al­gerri óþökk yfirgnæfandi meiri hluta íbúa í nálægum sveitum;

í tólfta lagi þar sem ekki verður séð, að nokkur nauðsyn kalli á byggingu þessarar verksmiðju, en sýnt er að hér er um glæfrafyrirtæki að ræða sem eykur hlutdeild erlendra auðfélaga í ís­lensku atvinnulífi;

telur Ed. Alþ. engan grundvöll til byggingar þessar verksmiðju og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil fara nokkrum orðum um þessa till. sem kemur til atkv. nú við 3. umr., eftir að till. hv. þm. Stefáns Jónssonar, fulltrúa Alþb. í iðnn., um að frv. verði fellt hefur ekki náð fram að ganga. Ég ætla þó að láta það koma hér sérstaklega fram að í fréttum útvarps og sjónvarps af þessum tillöguflutningi mínum hef­ur ekki komið nægilega skýrt fram að þessi till. er ekki hugsuð sem andstæði afgreiðsla við þá till. sem hv. þm. Stefán Jónsson gerði um að frv. væri fellt, heldur, eins og skýrt kom fram í umr. hér í gærkvöld af minni hálfu, er þetta hugsað sem varatill. eftir að ljóst er að till. hans nær ekki fram að ganga. En í fréttum útvarps og sjónvarps mátti skilja sem svo, að hér væri um að ræða tvær andstæðar till. eða a. m. k. tvær. till. sem stefndu ekki nákvæmlega í sömu átt.

Þetta vil ég að komi hér sérstaklega fram, vegna þess að frásögnin gat valdið þessum misskiln­ingi.

Fyrsta atriðið sem hér er nefnt, er verð raforkunnar til járnblendiverksmiðjunnar. Eins og kunnugt er, er um að ræða tvenns konar verð á orkunni til járnblendiverksmiðjunnar og um að ræða tvenns konar orku sem þangað er seld, tvær tegundir orku, ef svo má segja. Það er annars vegar svokölluð forgangsorka, orka sem við erum skuldbundnir til að skila jafnt og þétt alla klukkutíma sólarhringsins og alla daga ársins, óháð því hvað er heppilegast fyrir okkur sjálf, og svo hins vegar svokölluð afgangsorka, sem er öðrum skilyrðum háð. Hins vegar eru þessi skilyrði, sem sett eru um afhendingu afgangsorkunnar, það ströng, að í bréfi orkumálastjóra kemur fram að hæpið er að þar sé raun­verulega um afgangsorku að ræða sem unnt sé að selja fyrir svona lítið verð sem fyrirhugað hefur verið. Eitt af þeim skilyrðum, sem sett eru um afhendingu afgangsorkunnar, er að Lands­virkjun afhendi helminginn af henni á ári hverju, þ. e. a. s. 153 gwst., sem koma til viðbótar þeim 244 gwst. sem við erum í öllum tilvikum skyldir að afhenda á hverju ári.

Nú er það svo, að afgangsorkan fer á hverj­um tíma eftir því hve mikið vatn er í vötnum þeim sem orkuna framleiða, og það fer því mjög eftir árferði, fer eftir rigningunum á næstliðnu sumri, fer eftir frostum að vetri til o. s. frv., hve mikil orka er til reiðu til afhendingar. Talið er að við íslendingar getum afhent þessa afgangs­orku án vandræða í flestum tilvikum, en viður­kennt, að þau ár geti komið, kannske tíunda hvert ár, að þessi orka sé alls ekki fyrir hendi í kerfinu og verði því alls ekki afhent. Þegar slík ár koma er því helmingurinn af allri af­gangsorkunni, þ. e. a. s. um 153 gwst. raunveru­lega forgangsorka, — orka sem ekki er til í kerfinu öðruvísi en hún komi þá niður á annarri orkusölu. Er því ljóst að hér er tekin æðimikil áhætta. En að því vík ég síðar. Það, sem máli skiptir hins vegar, er að miðað við þessa áhættu er alls ekki hægt að tala um þessa orku sem afgangsorku í merkingu þess orðs, eins og hefur verið lagt í það í nálægum ríkjum, t. d. af norðmönnum. Það er þess vegna sem orkumálastjóri telur að miðað við þau skilyrði, sem eru fyrir afhendingu þessarar orku, sé verðlagið á af­gangsorkunni allt of lágt.

Í umr. um frv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, sem hér var á ferðinni fyrir tveimur árum, var þessi hlið málsins allmikið rædd og hefur enn verið rædd. Hefur verið sýnt fram á með skýrum rökum að verið er að selja þessa orku undir kostnaðarverði, jafnvel þótt miðað sé við framleiðslukostnað orkunnar eins og er í dag eða verður frá Sigölduvirkjun þegar hún er komin í fullan gang. En hér er þó rétt að vekja sérstaka athygli á því, að sú viðmiðun er í raun og veru ekki rétt, því að við erum raunverulega að selja orku frá næstu virkjun sem kemur í gagnið eftir að Sigölduvirkjun og Kröfluvirkjun hafa fullnýst. Sigölduvirkjun kemur í gagnið á þessu ári, og allar áætlanir benda til þess að hún verði raunverulega fullnýtt árið 1979, sennilega áður en járnblendiverksmiðjan verður komin í gang með fullum afköstum, sem ekki verður eins og menn vita, fyrr en væntanlega á árinu 1980. Það er því ljóst að við erum raunverulega að selja járnblendiverksmiðjunni orku frá þeirri virkjun sem verður að taka við af Sigölduvirkjun. Miðað við þá vexti, sem nú eru á lánsfé, miðað við stórhækkað kostnaðarverð virkjunarfram­kvæmda er því ljóst og þarf ekki að eyða frekari orðum að því, að hér er um það að ræða að verið er að selja orkuna langt undir kostnaðar­verði. Af þessu leiðir svo hitt, að íslenskir orku­notendur verða tilneyddir að borga með raforkunni til járnblendiverksmiðjunnar í framtíðinni.

Þegar umr. um þetta mál fóru fram fyrir tveimur árum gerði ég tilraun til að reikna það út, hve mikil sú fjárhæð væri sem orkuneytendur greiddu með væntanlegri járnblendiverksmiðju á ári hverju miðað við kostnaðarverð orkunnar eins og það var þá. Ég sýndi fram á það með skýrum rökum þá, að hér væri um að ræða 160 millj. kr. á ári eða hvorki meira né minna en 1600 millj. kr. á næsta áratug. Ég get hins vegar leyft mér að fullyrða að þessi upphæð er orðin allmiklu hærri og er vafalaust ekki fjarri lagi að hana megi þrefalda.

Við höfum bent á það við alþb.-menn, að nýting orkunnar til innlendra þarfa borgar sig margfaldlega fyrir íslenskt þjóðfélag. Þar eru verkefnin nánast ótæmandi. Það er ekki aðeins að enn sé mikið verkefni óleyst enn þar sem er húsahitunin sem bersýnilega verður að fara fram með raforku víða um land, — verkefni sem hæstv. iðnrh. hefur því miður trassað að sinna svo að hvert árið líður nú af öðru án þess að nokkuð sé litið á þarfir smábæja, þorpa og jafnvel kaup­staða víða um land sem bersýnilega þurfa að koma upp fjarvarmaveitum eða annarri tegund húsahitunar með rafmagni, vegna þess að jarðhiti verður ekki tiltækur. Ég veit vel, að hæstv. ráðh. mun reyna að hera það fyrir sig nú og síðar að hann sé að láta athuga málið. Það er ein af þeim klassísku röksemdum sem við alþm. heyrum æðioft að hafðar eru uppi þegar menn liggja á málum og hreyfa lítið við þeim. En ég held að það sé nokkuð augljóst mál, að eftir að hæstv. ráðh. er búinn að vera í sæti iðnrh. í þrjú ár án þess að nokkuð markvert hafi gerst á þessu sviði og án þess að svo mikið sem sé farið að tala við hreppsnefndir eða bæjarstjórnir sem hér eiga hlut að máli, þá er vonlaust að honum takist að telja nokkrum manni trú um að hreyfing sé á þessu í framfaraátt.

Eins er með fjöldamörg önnur verkefni sem okkur alþb.-mönnum verður tíðrætt um, svo sem að fóðurframleiðsla í landinu sé verulega efld og notaðir til þess innlendir orkugjafar. Við heyrum og fréttum af skýrslum og áætlunum sem stöku sinnum koma fram, en það er engin raun­veruleg framþróun á þessu sviði og hefur ekki verið í mörg ár. Og nú, fjórum árum eftir að olían þrefaldaðist í verði á heimsmarkaði, verðum við að horfa fram á það að allar heyköggla­verksmiðjur í landinu nota olíu til sinna þarfa og það er ekki fyrirsjáanlegt að nein ný verksmiðja bætist við, sem noti annan orkugjafa, fyrr en að mörgum árum liðnum, væntanlega ekki fyrr en í fyrsta lagi að þremur árum liðnum, jafnvel þótt nú sé tekinn upp fullur kraftur við framkvæmd þess máls og nýjar verksmiðjur drifnar upp. Einnig þetta ber að sjálfsögðu vott um mikla vanrækslu, — vanrækslu sem ekki að­eins hæstv. iðnrh. ber ábyrgð á, heldur engu síður hæstv. landbrh.

Eins er með áburðarvinnsluna sem rætt hef­ur verið um í mörg ár að þyrfti að auka veru­lega hér á landi. Við þm. fáum öðru hvoru í hendur skynsamlegar ábendingar sérfróðra manna um nauðsyn þess að áburðarvinnslan í landinu sé stóraukin. En í þessi þrjú ár hefur enginn orðið var við að neinar ákvarðanir væru teknar á þessu sviði, og sjálfsagt þarf að bíða eftir því fram á næsta kjörtímabil, jafnvel eftir því að ný ríkisstj. komi til valda í þessu landi, að ákvarðanir verði teknar.

Ástæðan er í öllum tilvikum sú sama. Hæstv. ríkisstj. hefur verið með hugann við þessar stóriðjuframkvæmdir og í samningagerð við ýmis erlend auðfélög, bæði um byggingu járnblendiverksmiðjunnar og um stækkun álverksmiðjunnar og um mörg fleiri verkefni, og það er svo að sjá að allur þessi áhugi á byggingu stóriðju í landinu hafi leitt til þess, að öðrum verkefnum hefur ekki verið sinnt. A. m. k. er það eina skýringin á því, að þessi vanræksla hefur átt sér stað.

Mörg önnur verkefni mætti nefna, t. d. að fiskmjölsþurrkun hér á landi fari fram með raforku, en ekki með olíu. Þetta verkefni hefði þurft að taka föstum tökum strax og olíuverðhækkunin skall yfir og með hliðsjón af því að við ætluðum að taka Sigölduvirkjun í notkun árið 1976 eða 1977. Það hefði verið vel við hæfi að koma því svo fyrir að fiskmjölsverksmiðjur um land allt hefðu getað tekið raforkuna í notkun til sinna þarfa, að svo miklu leyti sem það hefði verið tæknilega mögulegt án óhæfi­legs tilkostnaðar, einmitt um sama leyti og þessi virkjun hefði tekið til starfa. Er mér ekki kunn­ugt um að hæstv. iðnrh., og rn. hans hafi beint að þessu þarfa verkefni nokkurri hugsun eða að á vegum rn. sé nokkuð í bígerð hvað þetta mál snertir.

Hér er ekki eingöngu við hæstv. iðnrh. að sakast, heldur hefðu önnur rn. einnig mátt hafa þarna frumkvæði, svo sem rn. sjútvrh. En í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli við hvern er að sakast. Staðreyndin er að hér er um vanrækslu að ræða. Menn hafa ekki komið auga á neitt annað en að selja orkuna til járnblendiverksmiðjunnar. Og þar sem um var að ræða að selja hvorki meira né minna en helminginn af allri orkunni til járnblendiverksmiðjunnar, þá hefur mönnum sýnst að ekki væri á bætandi með einhver önnur verkefni.

Hitt er svo alveg ljóst, vegna þess að mér varð áðan tíðrætt um verðið til járnblendiverksmiðjunnar, að innlendur iðnaður mundi vafalaust vera fær um að gjalda talsvert miklu hærra verð til Landsvirkjunar og til raforkukerfisins en járn­blendiverksmiðjan gerir, og á það má benda, að margt af því, sem ég hafði í huga og nefndi áðan, er þess eðlis að þar kæmi afgangsorka vel til nota, t. d. í sambandi við heykögglafram­leiðsluna.

En það er ekki aðeins að sú hlið málsins, sem snýr að orkusölunni, sé meira en hæpin. Við íslendingar verðum ekki aðeins að fórna helmingnum af þessari rándýru virkjun, Sigöldu, í þessa verksmiðju. Við verðum líka að leggja fram 55% af 20 milljarða fjárfestingu, og auðvelt er að sýna fram á að mörg önnur verkefni eru miklu hagkvæmari og arðbærari fyrir efnahagskerfi landsmanna en bygging þessarar járnblendiverksmiðju. Það hefur komið fram í fréttum nú á seinustu mánuðum, að fiskifræðingar telja ekki útilokað að við íslendingar gætum aukið veiðar okkar á loðnu upp í 800 þús. til millj. lestir á hverju ári, og um þetta hefur verið skrifuð gagnmerk skýrsla. Hins vegar er langt í frá að veiðar okkar á þessu ári, jafnvel þótt mjög vel gangi, geti náð því marki. Ástæðan er sú, að til þess að svo verði þarf dýra fjárfestingu víða um land. Það þarf fjárfestingu í flutningatækjum, í nýjum verksmiðjubúnaði og síðast en ekki síst í nýjum þróm til að hægt sé að geyma miklu meira af loðnunni í langan tíma.

En þegar um það er að ræða að skipuleggja þetta verkefni, þá er auðvitað sama svarið úr öllum áttum: Það eru engir peningar til. Þetta er svarið sem okkur mætir í sambandi við þessa brýnu uppbyggingu í landinu, — uppbyggingu sem mundi gefa okkur íslendingum í aðra hönd margföld verðmæti á við þau sem járnblendiverksmiðjan getur nokkru sinni gefið okkur á hverju ári. Og raunar gildir það sama um mörg önnur verkefni sem ég einmitt var að nefna hér áðan, svo sem heykögglaframleiðslu eða húsahitun eða áburðarvinnslu eða basaltvinnslu. Í öllum þess­um tilvikum er um það að ræða, að það er engin hreyfing á málinu, jafnvel ekki utan iðnrn., vegna þess að menn hafa ekki fjármagn til þess að hreyfa sig til að koma neinu fram.

Við höfum orðið að skera niður lánsfjármagn fjárfestingarlánasjóðanna í stórum stíl á undanförnum árum vegna þess að við höfum ekki haft efni á þeirri uppbyggingu sem við höfum samt verið með á blaði. En þegar járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði er annars vegar, — verksmiðja sem hugsanlega kæmi til með að verða rekin með 800 millj. kr. tapi á ári, eins og ég vík að síðar, þá vantar ekki að allar fjárhirslur opnast og hægt er að leggja fram ekki aðeins stórfé á fjárl., heldur einnig taka stórlán erlendis án tillits til allra umr. um skuldabyrði landsmanna erlendis. Seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, er áhyggjufullur þegar hann ræðir um vaxandi skuldaaukningu landsmanna erlendis. En hann er hins vegar ekkert mjög áhyggjufullur þegar hann vippar sér út fyrir landssteinana og tekur margra milljarða lán til þessarar verksmiðju. Verður væntanlega að útvega með þeim hætti 90% af þeim 11 milljörðum sem við íslendingar þurfum að leggja fram til þessarar verksmiðju áður en lýkur. Reyndar verður það sjálfsagt miklu hærri upphæð en menn hafa nú fyrir aug­um.

Sem sagt, hér hef ég vikið að þessum tveimur þáttum málsins. Annars vegar er augljóst að orkan verður okkur íslendingum miklu arðbærari með því að selja hana til innlendra fyrirtækja sem geta greitt viðunandi verð fyrir orkuna. Hins vegar mundu þessi sömu fyrirtæki verða margfalt arðbærari sjálf en járnblendiverksmiðjan getur nokkru sinni orðið.

Áður en ég hverf frá þessari hlið málsins er rétt að víkja að orkuspám sem fyrir liggja nú, en eins og ég gat um áðan hefur því verið lýst yfir af Orkustofnun, að Sigölduvirkjun verði fullnýtt á árinu 1979 og Kröfluvirkjun verði fullnýtt tveimur til þremur árum síðar í sam­tengdu raforkukerfi landsins. Ef hins vegar í ljós kemur að eitthvert það árið, sem fram undan er, verður engin afgangsorka fyrir hendi í kerfinu vegna óvenjulegs árferðis, en á því eru, að því er sérfræðingar segja, kannske 10% líkur, þá er að sjálfsögðu um að ræða orkuskort í kerfinu miklu fyrr en ella, væntanlega þegar 1980.

Inn í þetta mál fléttast síðan óvissan hvað snertir Kröfluvirkjun. Ég er sannarlega ekki einn þeirra sem telja óvissu ríkja um að Kröfluvirkj­un verði þjóðinni til farsældar á komandi árum. Ég tel að mjög hyggilegt hafi verið að ráðast í þá framkvæmd. En hvorki ég né neinn annar getur lokað augunum fyrir því, að eldgos hefur verið í fullum gangi nú um eins árs skeið á þessu svæði og við vitum ekki hversu lengi það kemur til með að standa. Það getur staðið í 2–3 ár í viðbót, það getur staðið í 5 ár í viðbót, jafnvel lengur. Og meðan þessar náttúruhamfarir geisa á þessu svæði er auðvitað ekki fyrir það að synja, að óvissa ríkir um hvort Kröfluvirkjun skilar fullum afköstum. Ég tel að býsna mikið þurfi að ganga á og við þurfum að vera nokkuð óheppnir til þess að svo fari, að Kröfluvirkjun skili ekki nokkurri orku, hún muni þegar að fáum vikum liðnum skila okkur nokkurri orku inn í kerfið ef ekkert óvænt kemur upp á. En hitt viðurkenni ég fúslega, að það getur orðið bið á því fram yfir að þessu gosi lýkur og eldvirknin er um garð gengin, að Kröfluvirkjun skili allra fyrstu afköstum, þ. e. a. s. 70 mw., eins og orku­spá gerir þó ráð fyrir. Og fari nú svo að það dragist í nokkur ár að fá Kröfluvirkjun til að skila fullum afköstum, þá erum við þeim mun fyrr lentir í orkuskorti, ekki á árunum 1981–1982, eins og nú er spáð af hálfu Orkustofnunar, heldur væntanlega árinu fyrr. Hvort þá verður nokkur ný virkjun tilbúin get ég ekkert um sagt og getur enginn um sagt, því að virkjunarfram­kvæmdir hér á landi dragast venjulega mjög úr hömlu, og þegar áætlað er að virkjun verði til­búin að fjórum árum liðnum, þá er hitt algengara, að það líði ein sex þar til virkjunin er full­byggð. Því er ljóst að með því að binda sig við þessa orkusölu til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði er tekin umtalsverð áhætta, að ekki sé meira sagt.

Virkjunarmálin eru svo kapítuli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að lengja þessar umr. með, vil aðeins nefna það hér í framhjáhlaupi, að ég er ekki jafnsannfærður og hæstv. iðnrh. um að auðveldasta leiðin til að útvega raforkukerfi lands­manna aukna orku í byrjun næsta áratugs sé að virkja við Hrauneyjafoss. Það er hvorki eina leiðin né auðveldasta leiðin. Ég tel að ýmsar smá­virkjanir og þá einkum tvær, þ. e. a. s. Jökulsár­virkjun í Skagafirði og Bessastaðaárvirkjun, séu báðar með þeim hætti, að þær gætu orðið fyrr tilbúnar heldur en Hrauneyjafossvirkjun, fyrir svo utan hitt, að þær eiga miklu meiri rétt á sér og henta miklu betur inn í raforkukerfið. Það má vel vera, ef önnur þessara virkjana væri tekin fram fyrir allt annað í orkumálum nú um þessar mundir og ákvörðun tekin um að hraða henni sem mest við megum, þá væri ekki raun­verulega um mikla áhættu að ræða og gæti verið tilbúin á árinu 1980. Þessar upplýsingar hef ég frá þeim mönnum sem fróðastir eru um þessi mál. En þetta er önnur saga. Ég vildi bara láta þess getið, að ég er ekki sannfærður um að Hrauneyjafossvirkjun verði komin í gagnið árið 1981. Ég tel fullt eins líklegt að það verði ekki fyrr en 1982, og það styður þá enn frekar þá fullyrðingu mína að hér sé tekin umtalsverð áhætta þegar allt þetta þrennt kemur saman: hugsanleg seinkun Hrauneyjafossvirkjunar, hugsanleg seinkun á því að Kröfluvirkjun skili fyllstu afköstum, hugsanlegur möguleiki á því að engin afgangsorka verði til í kerfinu einmitt þegar verst á stendur, á árinu 1980, og með hliðsjón af því, hvað við erum að fórna mikilli orku til járnblendiverksmiðjunnar, og með það í huga, að orkuneysla landsmanna kynni að vaxa aðeins meira en áætlað er. Það þarf ekki mikið til að áætlunin fari úr skorðum og orkuskortur verði einnig af þeim ástæðum.

Ég ætla svo ekki að ræða frekar um orkuhlið þessa máls, en ætla hins vegar að víkja lítillega að hagkvæmni þessarar verksmiðju.

Ég vil rifja það hér upp, að um þetta atriði urðu nokkrar umr. þegar málið var til meðferðar á Alþ. fyrir tveimur árum, og ég vil leyfa mér að rifja upp það sem ég sagði um það mál, með leyfi forseta. Ég sagði þá:

„Hitt er ljóst, að þessir útreikningar um arð­semi væntanlegs stóriðjufyrirtækis í Hvalfirði eru fyrst og fremst byggðir á líkum og áhættan er augljóslega gífurlega mikil. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram koma í umsögn Þjóðhagsstofnunar, hefur skráð verð á ferrósílikoni þrefaldast á tveimur árum, þ. e. a. s. á tímabilinu frá árs­lokum 1972 til ársloka 1974. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu, að verðið fari sömu leið til baka aftur. Velta þessa fyrirtækis er áætluð 4300 millj. ísl. kr. á ári. Það er því ljóst að á þessu fyrirtæki gæti orðið 500–1000 millj. kr. tap á ári ef illa gengi, ef verðið breyttist eitthvað að ráði niður á við.“

Þetta rifja ég hér upp, ekki vegna þess að ég sé að segja að ég hafi neina spádómsgáfu, heldur vegna þess að þetta sáu fleiri en ég fyrir að gæti gerst og þetta var einmitt það sem gerðist. Verðið, sem var á orkunni fyrir tveimur árum, lækkaði mjög verulega, og nú höfum við fengið nýja umsögn Þjóðhagsstofnunar um hvernig af­koma þessarar verksmiðju hefði verið ef hún hefði verið starfrækt á árinu 1976. Útkoman er sú, að um hefði verið að ræða rúmlega 800 millj. kr. tap. Staðreyndin er sú, að til þess að sýna fram á, að þessi rekstur geti borið sig í fram­tíðinni, eru sérfræðingarnir neyddir til að búa til verð. Þeir miða ekki við það verð sem er á kísiljárni í dag. Þeir verða að búa til verðhækkun, sem þeir segja að hljóti að vera í aðsigi. Öðruvísi er ekki hægt að láta endana ná saman.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að rifja hér upp eða endurtaka þau rök sem hafa verið færð fyrir því að ákaflega hæpið er að reikna með því að nein veruleg verðhækkun verði á kísiljárni, a. m. k. umfram hugsanlega verðhækkun á hrá­efninu, því að ef ekki er um að ræða verulega verðhækkun á kísiljárninu sjálfu umfram þá hækkun sem verður á hráefninu, þá er ekki sjáan­legt að verksmiðjan sé neitt betur stæð en nú horfir.

Það er sem sagt ljóst, enn ljósara en það var fyrir tveimur árum, að við íslendingar erum að taka gífurlega áhættu þar sem er bygging þess­arar verksmiðju, og enginn getur sagt fyrir um það í dag hvernig fara muni. Við vitum það eitt, að Þjóðhagsstofnun spáði því fyrir tveimur ár­um, að fyrirtækið yrði rekið með svo og svo miklum hagnaði, og við vitum það nú, að þessi spádómur reyndist rangur og hún hefur orðið að reikna upp þetta reikningsdæmi sitt og hefur þá fengið út talsvert dekkri mynd. Það er að sjálfsögðu hrein ævintýramennska, að við getum nú farið að treysta á útreikninga sem byggðir eru á því að verðlagið muni hugsanlega hækka á næstunni.

En þá kunna menn að spyrja: Hvernig stendur á því að fyrirtæki eins og Elkem-Spigerverket treystir sér til þess að gera samning af þessu tagi? Nú ætti það að hafa jafnmikla vitneskju um það og aðrir, að áhætta er tekin, og ekki vill neinn verða fyrir miklum taprekstri ef hann hefur ástæðu til að óttast að svo kunni að fara. Þá er á það að benda, að samstarfsaðilinn tekur alls ekki jafnmikla áhættu og íslendingar gera í þessu efni. Við erum sem sagt hér með ná­kvæmlega sams konar fyrirbæri og þegar við ræddum hér um daginn um hugsanlega fjar­skiptastöð sem reisa á hér í samvinnu við danskan aðila, þar sem gerður hefur verið sá samningur sem tryggir annars vegar útlendingunum lágmarkshagnað, 2 millj. danskar á ári hverju, meðan íslendingar verða að taka á sig alla áhættuna. Þetta er mjög svipað í sambandi við þann samning sem gerður hefur verið við Elkem-Spigerverket. Má hiklaust fullyrða að samstarfsaðilinn hefur allt sitt á þurru. Í fyrsta lagi selur hann dýrustu tækin til verksmiðjunnar með miklum hagnaði, og sá, hagnaður, sem Elkem-Spigerverket hefur af sölu þessara rándýru tækja, vegur allvel upp hugsanleg tapár sem kunna að verða í sambandi við þennan rekstur. En við þetta bætist svo hitt, að Elkem-Spigcrverket selur einnig tæknikunnáttu fyrir hátt verð og fær svo þar að auki drjúg sölulaun, fasta prósentntölu, miðað við alla selda framleiðslu, sem að sjálf­sögðu gerir gæfumuninn með það að fyrirtækið telur sig geta tekið þá áhættu sem við íslendingar ættum hins vegar alls ekki að treysta okkur til að taka á okkar herðar. En með þessu er ekki öll sagan sögð. Til viðbótar bætist það, að íslenska ríkið tekur á sig að kosta dýrar fram­kvæmdir í þágu verksmiðjunnar, t. d. hafnar­gerð fyrir 800 millj. kr., vegagerð að verksmiðjunni, raflínulögn og byggingu spennistöðvar. Í þessu sambandi er rétt að minna á að byggðalínan norður um land hefði ekki legið um Hvalfjörð ef þessi verksmiðja hefði ekki komið til álita á þeim slóðum. Áður en verksmiðjan var fyrir­huguð var gert ráð fyrir því, að byggðalínan lægi frá Sogsvirkjun beint yfir að Andakílsárvirkjun án þess að koma niður með Hvalfirði, og það hefði verið talsvert miklu ódýrari línulögn, vegna þess að við hefðum þá sparað okkur byggingu spennistöðvarinnar á Grundartanga. Spennistöðin er sem sagt hluti af stofnkostnaðinum með svipuðum hætti og höfnin upp á 800 millj. Þegar allt þetta er tekið saman er vafalaust um að ræða þarna fjárfestingu sem er ekki langt frá 2000 millj. kr.

Það er rétt að draga það sérstaklega fram hér, að þessi kostnaður hefur ekki verið tekinn inn í arðsemiútreikninga í sambandi við þessa verksmiðju. Þessum kostnaði er haldið utan við, vegna þess að öllum er ljóst að ef hann væri tekinn inn í arðsemiútreikninga hvað varðar byggingu þessarar verksmiðju, þá yrði slíkt dúndrandi tap á þessari verksmiðju, hvernig sem reiknað væri, að hæstv. iðnrh. væri með höfuðverk í margar vikur eftir að hafa séð slíka útreikninga. En þetta er bara eitt dæmi af mörgum um þær blekkingar sem hafðar hafa verið í frammi í sambandi við byggingu þessarar verksmiðju. Það er reynt að hagræða staðreyndunum á þann veg, að málið sé fýsilegt. Af hvaða ástæðum þetta er gert er svo allt annað, sem miklu erfiðara er að henda reiður á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér mörgum orðum um mengunarhlið þessa máls, vegna þess að hv. þm. Stefán Jónsson hefur gert þeirri hlið málsins framúrskarandi góð skil í samstarfi við marga aðra aðila. Ég tel því að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fara að tína til þau mörgu atriði sem máli skipta í því sambandi. Það leynir sér ekki að lífríki Hvalfjarðar er í hættu af völdum þessarar verksmiðju. Það er staðreynd, sem enginn hefur mótmælt við þessar umr., að væntanlegur hreinsiútbúnaður verksmiðjunnar hreinsar ekki nema 95% af eitruðum útblæstri hennar. Það liggur líka fyrir og kemur m. a. fram í nál. hv. þm. Stefáns Jónssonar, að Náttúruverndaráð hefur haft uppi ýmsar óskir varðandi tilhögun á byggingu þessarar verksmiðju, — óskir sem hafa verið virtar að vettugi. Það er einnig upplýst og er kannske eitt mesta hneykslið í sambandi við þetta mál allt, að kröfur Heilbrigðiseftirlitsins um skilyrði fyrir starfsleyfi verksmiðjunnar hafa verið sniðgengnar í ýmsum mikilvægum atriðum, og þýðir ekki lengur fyrir talsmenn þessarar verksmiðju að hafa uppi einhverjar blekkingar um þá hlið málsins, eins og gert var í Nd. fyrir nokkrum dögum, því að í dag hefur Heilbrigðiseftirlit ríkisins sent frá sér fréttatilkynningu þar sem á það er bent, að það hafi algerlega verið sniðgengið við endanlegan frágang þessa starfsleyfis og kröfur þess og óskir í ýmsum atriðum hafi verið sniðgengnar. Ég býst við að allir hv. þm. hafi heyrt þessa frétt og þetta bréf Heilbrigðiseftir­litsins, sem lesið var í kvöldfréttum útvarpsins, ef ekki, þá lesa þeir það í blöðunum á morgun og ég sé því ekki ástæðu til þess að hafa það hér yfir, enda hef ég það ekki í höndum. Það verður hins vegar ekki lengur um það deilt, að í fyrsta skipti, sem veitt var starfsleyfi til nýrrar verksmiðju í samræmi við heilbrigðislöggjöfina og í samræmi við ákvæði um samráð við Heilbrigðiseftirlit ríkisins, voru kröfur þess sniðgengnar.

Um það þarf svo ekki að fara mörgum orðum heldur, að bygging verksmiðjunnar hlýtur að raska eðlilegri byggðaþróun í nálægum héruðum og hefur almennt óheppileg áhrif á þróun byggðar í landinu. Ég hef aldrei skilið það, hvernig Framsfl. og þm. hans hafa treyst sér til að mæla með því, að þessi gífurlega fjarfesting ætti sér stað hér á Faxaflóasvæðinu, á nákvæmlega sama tíma og verið er að skera niður fjárveitingar til þjóðþrifamála víðs vegar um land vegna fjármagnsskorts. Þeir hljóta að hafa gert sér nákvæmlega jafngóða grein fyrir því, og aðrir, að með byggingu þessarar miklu verksmiðju, sem væntanlega verður tvöföld að stærð að áratug liðnum ef þeir og þm. Sjálfstfl. fá einhverju ráðið, er ekki verið að tjalda til einnar nætur, heldur er verið að byggja verksmiðju sem hvað fjárfestingu snertir er mjög álíka og allur sá iðnaður sem fyrir er í landinu. Þessi verksmiðja er að sjálfsögðu sett niður hér á Faxaflóasvæðinu með þeim afleiðingum fyrir byggðaþróun í landinu sem það hlýtur að hafa. Hvernig þeir framsóknarmennirnir fara að því að rökstyðja þessa afstöðu sína eftir öll þeirra fögru orð um jafnvægi í byggð landsins, það er mér hins vegar hulin ráðgáta.

Í umr. utan dagskrár hefur verið fjölyrt um óskir íbúa nálægra hreppa um að atkvgr. fari fram um þetta mál áður en bygging verksmiðjunnar er endanlega ákveðin, og er ekki heldur ástæða til að fjölyrða um þennan þátt málsins. Einungis er rétt að draga það hér fram, að allar líkur benda til þess að yfirgnæfandi meiri hluti manna á þessu svæði sé andvígur byggingu þess­arar verksmiðju, því að það er ekki aðeins sú þessi ósk hafi komið fram, heldur má vitna í fjöldamargar safnanir undirskrifta sem fram hafa farið á þessu svæði, bæði í þeim hreppum í Borgarfjarðarsýslu, sem liggja sunnan Skarðs­heiðar, og einnig í Kjósarsýslu, — undirskrifta­safnanir sem hafa borið þess glöggan vott, að ekki bara meiri hluti manna, heldur yfirgnæfandi meiri hluti manna er andvígur byggingu þessarar verksmiðju. Ég skil því vel þá afstöðu hæstv. iðnrh., að hann treysti sér ekki til að láta sömu reglu gilda um fólkið, sem býr við Hvalfjörð, eins og fólkið, sem býr í Eyjafirði. Hann veit hver yrðu úrslit þessarar atkvgr., og honum er þessi verksmiðja kærari en svo, að hann þori að leggja ákvörðunina um byggingu hennar undir dóm þessa fólks. Þá veit hann að flokkur hans á miklu fylgi að fagna á þessu svæði, og vafalaust er hann annaðhvort stærsti eða næststærsti flokkurinn hvað stuðning snertir í öllum þeim hreppum sem hér eiga hlut að máli. (Gripið fram í: Hann var það.) Þegar ég ræði um stuðning í þessu sambandi á ég að sjálfsögðu við fortíðina. En hvað framtíðin ber í skauti sér verðum við svo að bíða eftir og getum í mesta lagi rennt í það grun.

Ég lagði þá spurningu fyrir hæstv. iðnrh. í gær, hvers vegna hann vildi ekki standa við fyrri yfirlýsingar sínar um að heimamenn yrðu hafðir með í ráðum þegar bygging slíkrar verksmiðju ætti í hlut. Hæstv. ráðh. gerði þá ein­földu grein fyrir afstöðu sinni, að hann hefði aðeins átt við eyfirðinga þegar hann talaði um þennan rétt heimamanna, en ekki aðra. Að sjálf­sögðu er þessi afstaða lítt skiljanleg öllum hugsandi mönnum, og ég vil því gefa ráðh. kost á því að útskýra, áður en þessari umr. lýkur, hver er hugsun hans á bak við svo furðulega af­stöðu eða hvort hann hefur nokkuð sér til máls­bóta. Ætlar hann í framtíðinni að láta þessa reglu einungis gilda innan lögsagnarumdæmis Eyjafjarðarsýslu eða mun hún gilda í öðrum sýslum landsins? Um þetta er ég hræddur um að býsna margir landsmenn séu forvitnir að fá einhver svör.

Áður en ég lík máli mínu þykir mér hlýða að fara fáeinum orðum um afstöðu Alþfl. til þessa máls, því að það er ekki aðeins að hæstv. iðnrh. sæki það af ofurkappi, að þessi verksmiðja verði reist, heldur á það engu síður við um þm. Alþfl. Þó má lesa í leiðara Alþýðublaðsins 24. mars s. l., með leyfi forseta, þar segir: „Það er orðið mjög brýnt að ráðamenn þjóðarinnar nuddi stóriðjuglýjuna úr augunum og fari að sjá íslenskan iðnað í réttu ljósi.“ Þetta var vissu­lega vel mælt af ritstjóra Alþýðublaðsins og vantar aðeins eitt á þessa yfirlýsingu, að hann benti forustumönnum Alþfl. á að gera slíkt hið sama, að nudda stóriðjuglýjuna úr augum sín­um.

Alþfl. er eini stuðningsflokkur járnblendiverksmiðjunnar sem gengur óklofinn til leiks, sem er einhuga í afstöðu sinni, þar sem engan bilbug er að finna, ekkert hik. Og þetta er í fyllsta samræmi við fortíð flokksins í stóriðjumálum. Flokkurinn ber fulla ábyrgð á byggingu álverksmiðjunnar í Straumsvík og stóð óskiptur að því að knýja það mál fram á sínum tíma. Þá vöruðum við alþb.-menn mjög eindregið við mengun af völdum verksmiðjunnar. Við vöruðum við því ábyrgðarleysi að reisa slíka verksmiðju án hreinsitækja, en alþfl.-menn, sem þá sátu á þingi, — og það gera reyndar þrír af þeim enn þá, þó þeim fari nú ört fækkandi sem betur fer, — þeir ypptu þá öxlum og tóku fulla ábyrgð á því að verksmiðjan var byggð án hreinsitækja, sögðu sem svo að fullyrðingar Alfreðs Gíslasonar og annarra talsmanna Alþb. í þeim umr. væru marklausar, væru móðursýkin ein og engin ástæða til að ljá eyru þeim aðvörunum. Nú er hins vegar komið á daginn að viðvaranir Alþb. og talsmanna þess voru hárréttar og kæruleysi Alþfl. í þessum efnum hefur orðið okkur afdrifaríkt. Þó vantar ekki hávaðann í þeim alþfl.-mönnum einmitt þessa dagana um mengunarvarnir og um heilbrigðisráðstafanir í verksmiðjum o. s. frv. Þeir þykjast vera allra manna harðastir og kræfastir í því að krefjast heilbrigðis á vinnustöðum og ráðstafana til að vernda það. Þannig segir í nýlegum leiðara Alþýðublaðsins, með góðfús­legu leyfi forseta:

„Flokkurinn leggur megináherslu á fullkomnar mengunarvarnir innanhúss og utan við öll iðju­ver. Í meðferð Alþ. á járnblendifrv. síðustu vikur skrifaði fulltrúi Alþfl. undir nál. með fyrir­vara um mengunarmálin. Þar fylgdi flokkurinn ákvörðunum Heilbrigðiseftirlits ríkisins og lýsti yfir, að mælti það á móti starfsleyfi verksmiðjunnar mundi Alþfl. ekki styðja málið.“

Þetta segir í nýlegum leiðara Alþýðublaðsins. En nú liggur fyrir að fyrrnefnt Heilbrigðiseftir­lit ríkisins hefur alls ekki veitt starfsleyfi til verksmiðjunnar, hefur ekki einu sinni verið spurt ráða um hvernig endanlegt starfsleyfi eigi að vera og hefur gefið opinbera yfirlýsingu um að það telji að samvinna þess við heilbrrn. hafi ekki verið sem skyldi. Hvers virði er þá fyrirvari Alþfl.? Ég vildi eindregið mælast til þess, að hv. þm. Alþfl. hér í Ed. gerðu grein fyrir því, hver verður afstaða þeirra eftir að ljóst er orðið að Heilbrigðiseftirlit ríkisins stendur ekki að starfsleyfi til verksmiðjunnar. Verður þá staðið við það sem stóð í Alþýðublaðinu fyrir fáeinum dögum, að flokkurinn muni ekki styðja málið ef Heilbrigðiseftirlitið sé ekki haft með í ráðum, starfsleyfi þess liggi ekki fyrir? Um þetta hljótum við þm. að verða að fá skýr svör af hálfu þeirra alþfl.-manna.

Það er að vísu heldur hraklegt til þess að vita, að þm. Alþfl, í Nd. skuli þegar vera búnir að hleypa málinu í gegnum d. þar með marklausum fyrirvara sem engu breytir að sjálfsögðu, vegna þess að eftir að málið er orðið að lögum breytir fyrirvari þeirra engu, mun ekki einu sinni nokkur maður muna eftir honum. En hitt er þó verra, ef hv. þm. Alþfl. í Ed. ætla svo að kóróna verkið með því að ganga á bak orða sinna og halda áfram að styðja málið eftir þá yfirlýsingu sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins taldi sig til neytt að gefa út í dag í formi fréttatilkynningar. Það er ekki á hverjum degi sem opinber stofnun, sem heyrir undir ákveðið rn. og er rn. til leið­beiningar og leiðsagnar í einstökum málum, telur sér skylt, telur sig til neydda að gefa út opinbera fréttatilkynningu þar sem hörmuð eru viðskipti stofnunarinnar við viðkomandi rn. En það var þetta sem gerðist í dag. Og ég spyr enn: Hver er afstaða Alþfl. til málsins, þegar þetta er nú deginum ljósara, en ekki aðeins sögn í munni okkar alþb.-manna, eins og það var fyrst í stað?

Það vantar auðvitað ekki, að þegar álbræðslan er annars vegar koma Alþfl. og talsmenn hans fram sem iðrandi syndarar sem mæla fagurt þótt þeir hugsi flátt. Þeir segja í Alþýðublaðinu, í leiðara Alþýðublaðsins 23. apríl s. l.: „Alþfl. hefur lært af mistökum sem gerð voru í sam­bandi við álverið hvað snertir mengun, skatta­mál o. fl.“ Þetta var játning syndarans: „Alþfl. hefur lært af mistökum sem gerð voru í sambandi við álverið hvað snertir mengun, skattamál o. fl.“ Ja, hefur Alþf1. lært nokkurn skapaðan hlut? Það er nú einmitt það sem spurningin snýst um. Hefur Alþfl. lært nokkurn skapaðan hlut af þeim mistökum sem hann gerði í sambandi við álverksmiðjuna og hann nú þegar hefur viður­kennt opinberlega að hafi átt sér stað? Ætlar hann að endurtaka þessi mistök? Eru þetta bara orðin tóm til þess að rugla einhverja fávísa stuðningsmenn, eða eru þetta orð mælt af fullri alvöru? Ætlar Alþfl. að taka á sig ábyrgð á verksmiðju sem bersýnilega uppfyllir ekki þau skilyrði sem Náttúruverndarráð og Heilbrigðiseftirlit ríkisins vilja setja, eða ætlar hann að viðurkenna nú þegar að mistök hafi átt sér stað hvað þetta snertir, eða vill hann bíða í svo sem 10 ár með að viðurkenna að mistök hafi átt sér stað.

Ég vil aðeins segja það eitt um afstöðu Alþfl., sem ég sagði hér áðan, að það virðist eitthvað á það vanta hvað Alþfl. snertir, líkt og ritstjóri Alþýðublaðsins sagði um ráðamenn þjóðarinnar, að hann hafi nuddað stóriðjuglýjuna úr augunum.

Ég vil aðeins draga hér fram eitt atriði enn varðandi Alþfl., og það er það atriði sem snertir hugsanlegan orkuskort að fáum árum liðnum.

Eins og kunnugt er hefur Alþfl. tekið það upp í stefnuskrá sína að vera á móti einni af þeim virkjunum sem verið er að reisa í landinu, þó að flokkurinn hafi staðið að því eins og allir aðrir flokkar hér í þinginu að samþykkja heim­ildarlög um byggingu Kröfluvirkjunar og hafi ekki hreyft neinum andmælum við framkvæmd virkjunarinnar, þegar farið var af stað, þannig að yfirleitt heyrðist ekki hósti né stuna frá talsmönnum þessa flokks fyrr en stöðvarhúsið var risið og búið var fyrir löngu að gera alla samninga um vélakaup og önnur tækjakaup. Þá fyrst heyrðist hljóð úr horni. Og síðan hefur flokkurinn magnað andstöðu sína við þessa virkjun svo mjög, að í dag má segja að flokkurinn sé á móti þessari virkjun. Alþýðublaðið hefur hvað eftir annað skorað á ráðamenn þjóðarinnar að stöðva þessa virkjun, hætta með öllu virkjuninni og þá væntanlega selja þau tæki sem keypt hafa verið, enda er mér næst að halda, þó að ég hafi það ekki beinlínis fyrir framan mig, að sú afstaða hafi hvað eftir annað komið fram hjá ritstjórum Alþýðublaðsins a. m. k., að sjálf­sagt væri að selja þau tæki sem keypt hefðu verið til Kröfluvirkjunar.

Nú er hins vegar ljóst, að ef Kröfluvirkjun kemst ekki í gagnið á næstu árum, ef við hættum við byggingu virkjunarinnar og seljum vélarnar úr landi, þá er það eins víst og tvisvar tveir eru fjórir að við verðum búnir að fá yfir okkur geigvænlegan orkuskort hér á landi þegar á árinu 1979 ef við seljum járnblendiverksmiðjunni orku. Ef við hins vegar seljum járnblendiverk­smiðjunni ekki neina orku, þá er þegar sýnt og þá vitum við að ekki yrði um neina tímapressu að ræða, því að Sigölduvirkjun mundi þá endast eitthvað fram á næsta áratug eða þar til næsta virkjun gæti tekið við. Þetta bendi ég á hér, vegna þess að ljóst er að það getur ekki farið saman að vera á móti Kröfluvirkjun og vilja leggja hana niður eða hætta við byggingu hennar og vera á sama tíma meðmæltur því að orka sé seld til járnblendiverksmiðjunnar. Þeir menn, sem halda slíku fram, vita einfaldlega ekki hvað þeir eru að segja. Þeir hafa ekki kynnt sér vit­undarögn þær orkuspár, sem lagðar hafa verið fram, og virðast vera alger börn í raforkumálum. Ég vil því spyrja talsmenn Alþfl. í þessum umr., hv. þm. Alþfl. hér í d., hvort afstaða þeirra til byggingar Kröfluvirkjunar sé óbreytt eftir að þeir hafa greitt atkv. hér í d. með því að selja helminginn af orku Sigölduvirkjunar til járn­blendiverksmiðjunnar og hafa með þeim hætti fullséð um að Sigölduvirkjun verður fullnýtt eftir aðeins tvö ár. Ég vænti þess mjög fastlega, að hv. varaforseti þessarar d., þm. Reykv. Eggert G. Þorsteinsson, komi hér upp og svari þessari spurningu, því að ég veit að hann heyrir spurninguna. (EggÞ: Allt of vel.) Allt of vel, já. Gott er að heyra. Það er því miður ekki hægt að heyra neitt allt of vel nema mönnum sé hálf­illa við að heyra það. En við skulum samt vona að við fáum skýr svör við þessari spurningu.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hef hér rakið í allmörgum liðum ókostina við byggingu þessar­ar verksmiðju. Ég hef bent á rökþrot stuðnings­manna málsins. Ég hef bent á það, að engin nauðsyn kallar á byggingu verksmiðjunnar. En það er hins vegar bersýnilegt, að hér er um glæfrafyrirtæki að ræða, og því á Alþ. að hafna byggingu þessarar verksmiðju og taka fyrir næsta mál á dagskrá.