09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

54. mál, sjóminjasafn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er síður en svo að það geti skoðast nein óeðlileg hnýsni af hálfu hv. fyrirspyrjanda þó að hann spyrjist fyrir um þetta mál. Þetta er eitt af fleiri ágætum málum sem ganga hægar fram en æskilegt væri.

Sem svar við fsp. hans vil ég fyrst og þó í örstuttu máli rifja það upp að nefnd var skipuð 28. ágúst 1974 til þess, eins og hann sagði, að fjalla um stofnun sjóminjasafns í Hafnarfirði. Í henni áttu þeir sæti Þór Magnússon þjóðminjavörður, sem var form., Gunnar Ágústsson hafnarstjóri í Hafnarfirði, Guðmundur H. Oddsson skipstjóri í Reykjavik og Jón Kr. Gunnarsson forstjóri, Hafnarfirði. Síðar var Gils Guðmundsson alþm. skipaður varamaður Gunnars 11. Ágústssonar í veikindaforföllum hans. Þessi n. hélt 14 fundi, flesta í skrifstofu þjóðminjavarðar, en einnig fór hún á vettvang og skoðaði staði þá sem talið var að gætu komið til greina fyrir safnið. Var fyrsti fundurinn haldinn 19. sept. 1971, síðasti fundurinn 28. apríl 1975, og rn. svo skilað ítarlegri álitsgerð litlu síðar eða 29. apríl 1976. Í því bréfi skýrir formaður m.a. frá því, að sjóminjasafnsnefnd muni senda fjvn. Alþ. erindi um fyrstu fjárveitingu til að hefjast handa um undirbúningsvinnu að safninu, 5 millj. kr. í fyrstu lotu.

Rn. lét fjölrita álitsgerð n., eins og hv. þm. er kunnugt, og var hún send alþm. rétt fyrir jólin í fyrra og nokkrum fleiri aðilum. En síðan er það að segja í fyrsta lagi, að ekki hafa verið fjárveitingar á fjárl. til sjóminjasafns, og í öðru lagi, að Þjóðminjasafn Íslands hefur unnið markvisst að söfnun sjóminja og björgun þeirra, m.a. gamalla báta, á undanförnum árum og haft til þess nokkra fjárveitingu, og sérstök geymsla hefur verið útbúin fyrir bátana. Ég vil leggja áherslu á þetta, að björgunarstarfi hefur verið haldið áfram og það hefur verið rækt eftir því sem hægt hefur verið miðað við fjárveitingar og aðra aðstöðu.

Hitt verður svo að segjast eins og er, að menntmrn. hefur ekki leitað fast eftir fjárveitingum, enda er það mála sannast að á þessum missirum hefur verið ákaflega þröngt um og á vegum menntmrn. í mjög mörg horn að lita í sambandi við fjárveitingar til margvíslegra mála sem þegar er unnið að. Ég vil hins vegar segja það, að það mun verða leitast við að láta ekki þetta menningarmál og ég vil líka segja nauðsynjamál sofna, heldur vinna að framgangi þess eftir því sem tök eru á.

Ég get ekki gert ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi sé sérlega ánægður með þessi svör, en ég held að ég hafi sagt nokkurn veginn satt og rétt frá hvernig þessi mál standa.