09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða langt mál um þessa ágætu þáltill. Þar sem það hefur nú komið í ljós að þegar fyrir nokkrum missirum er hafin áætlunargerð sú sem flm. íeggja til að hafin verði hið fyrsta, og það hefur einnig komið fram af hálfu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar að þessari áætlunargerð er flýtt mjög, þannig að henni ljúki næsta haust, þá fæ ég ekki séð annað en formaður Orkuráðs hafi skotíð þarna hinum fjölmörgu ágætu flm. þessarar þáltill. ref fyrir rass með því að stuðla að því að Orkuráð tæki þetta viðfangsefni fyrir svona löngu áður en þáltill. um nauðsyn þess er flutt. Ég vil síst af öllu draga úr nauðsyn þess að byggja upp raflínukerfið — dreifikerfið — því ég hygg að hvað eina það, sem hv. þm. Jón Helgason sagði um nauðsyn þess arna, sé rétt og síst ýkt. En ég kemst einhvern veginn ekki hjá því að láta í ljós furðu mína á því sambandsleysi sem virðist vera þarna á milli stjórnarflokkanna í allþýðingarmiklu máli eins og því sem lýtur að dreifingu raforku um landið, og ég varpa nú aðeins fram þeirri spurningu, hvort hv. Alþ. geti ekki, fyrst svo er nú komið að áætlunargerð sú er hafin fyrir mörgum missirum er í þessari þáltill. segir að nauðsynlegt sé að hefja nú hið fyrsta, — fyrst þetta liggur nú fyrir, hvort ekki sé þá hægt að taka hana af dagskrá.