18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

22. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um fullorðinsfræðslu. Þetta frv. er raunar lagt fram öðru sinni á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt. Með því fylgja mjög ítarlegar athugasemdir og yfirgripsmikið nál. Og þegar ég mælti fyrir því í upphafi, þá gerði ég nokkuð ítarlega grein fyrir einstökum efnisatriðum. til að spara tímann vil ég leyfa mér að vitna til athugasemda og svo ræðu minnar, sem prentuð er í 4. hefti Alþingistíðinda 1974, og láta nægja að rifja upp þá í öllu styttra máli en ella undirbúning frv. og minna á örfá efnisatriði og svo gera grein fyrir þeirri breyt. sem gerð hefur verið á frv. frá fyrstu gerð þess.

Hinn 26. okt. 1971 skipaði þáv. menntmrh., Magnús T. Ólafsson, nefnd til þess að gera till. um hvernig skipuleggja skuli fræðslustarfsemi fyrir fullorðna. Var n. falið að skila till. sínum í frv.-formi svo fljótt sem við yrði komið. Séra Guðmundur Sveinsson skólastjóri var formaður þessarar n., en auk hans áttu sæti í n. Andrés Björnsson útvarpsstjóri, Jónas B. Jónsson fræðslustjóri og síðar Ragnar Georgsson skólafulltrúi, dr. Matthías Jónasson, frú Sigríður Thorlacius, Gunnar Grímsson starfsmannastjóri og Stefán Ögmundsson prentari. N, skilaði svo áliti sumarið 1974 og þar með þessu lagafrv.

Eins og ég sagði áðan, þá varð málið ekki útrætt á þeim þingum sem það hefur legið fyrir, en fram hafa komið ýmsar athugasemdir og ábendingar frá ýmsum aðilum bæði til þingnefndar og til menntmrn. Eftir þinglokin 1975, þegar málið hafði í fyrsta sinn verið til meðferðar hér á Alþ., fór ég þess á leit við milliþn. að hún ásamt tveimur nm. úr menntmn, þessarar hv. d. liti á athugasemdir og ábendingar þær, sem fram höfðu komið, og þau legðu niður fyrir sér og gerðu till. um hversu með skyldi fara, hvort t.d. væri skynsamlegt að breyta frv., áður en það yrði lagt fyrir Alþ. á ný, með tilliti til — hinna ýmsu umsagna og ábendinga eða með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu, t.d. á hinu fjárhagslega sviði, taka e.t.v. einstaka þætti út úr og láta aðra bíða o.s.frv. Niðurstaðan af þessum athugunum varð sú, að skynsamlegast væri að leggja frv. fyrir Alþ. óbreytt að öðru leyti en því, að aftan við 39. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi“ komi sú viðbót sem þar greinir og felur í sér að um framkvæmd laganna fari eftir fjárveitingu hverju sinni, nema hvað 30 og 31. gr., en þær greinar fjalla um námsflokka og námshópa og svo bréfaskóla, komi til framkvæmda eigi síðar en á árinu 1977.

Með því að hafa þennan hátt á, þá ætti að vera unnt að byrja að fikra sig áfram með framkvæmd þeirrar stefnu sem í frv. felst, ef á hana verður fallist af Alþ., þó fjárhagsástæður ríkissjóðs leyfi ekki að framkvæma alla þættina samtímis.

Endurskoðun áætlunar um kostnað af þessu frv. liggur ekki fyrir á þessari stundu, en ég mun hlutast til um að slík endurskoðun verði framkvæmd hjá hagsýslustofnun ríkisins og menntmn. þessarar hv. d. þá gerð grein fyrir niðurstöðum þegar þær liggja fyrir.

Í sem stystu máli er meginefni þessa lagafrv. að bæta skilyrði til þess að menn geti aukið þáttum í menntun sína, helst alla ævi, að loknu eða þá utan hins venjulega skólanáms. Þetta er af ýmsum ástæðum mjög mikilvægt vegna síbreytilegra starfshátta, Í þjóðfélögum nútímans þurfa menn að eiga þess kost að endurhæfa sig í starfi, m.a. þeir sem um sinn hafa horfið frá vinnu utan heimilis, en hefja störf á ný þegar aðstæður breytast, svo sem nú er orðið alltítt um margar konur t.d. Einnig þótt menn af ýmsum ástæðum hverfi frá námi við lok skyldufræðslu, þá á að vera unnt að taka upp þráðinn á ný ef áhugi er fyrir því. Oft er líka nauðsynlegt að geta búið sig undir störf á alveg nýjum vettvangi, svo sem oft á sér stað, að menn óski eða jafnvel þurfi að breyta um störf af ýmsum persónulegum ástæðum. Einnig er auðvitað mjög æskilegt að menn geti átt þess kost að verja tómstundum sínum til náms sér til aukins þroska og ánægju almennt talað.

Það er vafalaust miklum vandkvæðum bundið að búa skilyrði til náms þannig, að bæði verði auðvelt fyrir þá sem njóta og þó ekki of kostnaðarsamt fyrir samfélagið, fyrir ríki, sveitarfélög, já, og einstaklingana, vinnuveitendur t.d. og aðra sem stundum taka þátt í kostnaði við slíka menntun. Hér sem annars staðar verður að leitast við að þræða meðalveginn.

Það hefur verið upplýst að árið 1972–1973 vörðu Danir til fræðslu fullorðinna sem svarar 20 milljörðum ísl. kr, eða um 4 þús, ísl. kr. á hvern íbúa landsins. Í Finnlandi er framlagið nokkru minna eða sem svarar 3 þús. ísl. kr. á íbúa, í Noregi aðeins meira og í Svíþjóð enn hæst eða 5 500 ísl, kr. á íbúa, að talið er í þessari grg. Af þessu er ljóst að nálægar þjóðir verja nú þegar miklum fjárhæðum til þessa þáttar menntunar. En þrátt fyrir þetta ræða forráðamenn skólamála í nálægum ríkjum mjög nauðsyn þess að efla fræðslu fullorðinna. Sannleikurinn er sá, að flestar þjóðir leggja nú mikla áherslu á þetta. Menntmrh. aðildarríkja Evrópuráðsins héldu t.d. 9. fund sinn í júní 1975 í Stokkhólmi og fjölluðu þar um þetta mál, um fræðslu fullorðinna, m.a. þessi atriði: Nýjar aðferðir og tækni, að dreifa menntastofnunum og velja þeim stað þannig að þær nái til allra byggðarlaga viðkomandi landa, að staðfesta réttindi hvers og eins til að afla sér menntunar siðar á lífsleiðinni og fela stjórnvöldum að sjá um að þessi réttindi séu höfð í heiðri og verði virk og loks að koma upp fjáröflunarkerfi fyrir menntun ungs fólks og fullorðinna og koma á hæfilegu jafnvægi milli þessara þátta menntunarinnar. Þá leggur þessi ráðherrafundur áherslu á það, að nauðsynlegt sé við stefnumótun á sviði endurmenntunar að taka fullt tillit til séraðstæðna innan hvers lands og gæta jafnframt sameiginlegrar reynslu aðildarríkjanna.

Þó að ég rifji þetta upp, þá er það ekki af því að ég geri ráð fyrir að það henti okkur að gleypa hráar þær hugmyndir sem frá nágrannaþjóðum okkar koma, heldur geri það fyrst og fremst til þess að benda á hversu mikill gaumur er gefinn þessum málaflokki nú um þessar mundir. Ég held að það eigi að vera okkur hvatning til þess að gefa þessum málum einnig gaum hér okkar á meðal og takast á við þau verkefni sem leysa þarf til þess að koma þeim í viðunandi horf. Og vissulega kemur það fram að vandamálin eru viða ákaflega lík þó að þjóðfélagsaðstæður séu breytilegar.

Þegar lög um grunnskóla og lög um skólakerfi hafa verið samþ. og unnið er að því fullum fetum að framkvæma þá nýju löggjöf og jafnframt hafin endurskoðun á framhaldsskólastiginu almennt, þá held ég að það fari ekki á milli mála að það er nauðsynlegt að huga einnig að því, sem við höfum kallað fræðslu fullorðinna, og leitast við að koma hagfelldu skipulagi á þá fræðslu.

Ég vil leggja áherslu á það og vil að við gerum okkur það jafnframt alveg ljóst, að þegar hefur töluvert verið aðhafst í þessa stefnu hér á landi. Það er skylt að vekja athygli á þessu, bæði vegna þess fólks sem þar hefur verið að verki, störf þess má ekki vanmeta, og eins til þess að minna á að það er ekki að öllu leyti nýr kostnaður sem hér er um að ræða, því að þegar hefur nokkuð mikið verið aðhafst. Hér á landi hefur fræðsla fullorðinna lengst af einkum farið fram í námskeiðum og námsflokkum með kennslu í bréfaskóla, en auðvitað hafa menn svo líka lært og stundað sitt heimanám með hjálp góðra bóka án félagslegrar aðstöðu. Þá hefur verið gegnum árin töluverð kennsla í útvarpinu og örlitið í sjónvarpi. En ég vil í þessu sambandi láta koma fram, að þó að lítið hafi til þessa orðið úr beinni kennslu í sjónvarpi, þá hafa menn eigi að síður fullan hug á að nýta sjónvarpið til kennslu. Það er ekki vansalaust hvað þetta hefur dregist allt fram á þennan dag, þó að raunar séu nú ekki nema 10 ár síðan sjónvarpið tók til starfa, eins og kunnugt er. En það er unnið að þessum málum, vinnuhópur hefur haft það með höndum undanfarin missiri og mun væntanlega skila áliti innan tíðar.

Þá má enn minna á öldungadeildina við Hamrahlíðarskólann í Reykjavík og aðra slíka við Menntaskólann á Akureyri, en einmitt aðsókn að þessum svokölluðu öldungadeildum sannar ótvírætt þörfina á fræðslu fullorðinna á þessu sérstaka sviði sem þær ná yfir.

Af þessu, sem ég nú hef greint, þá má ljóst vera að þegar er töluverðum fjármunum varið til fræðslu fullorðinna. En samt er ég ekki að draga fjöður yfir það, það er alveg ljóst, að lögfesting þessa frv. og síðar framkvæmd slíkra laga hefur mikinn aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Í frv. eru ýmis bein ákvæði um þátttöku ríkisins, svo sem að fræðsla í formi námsflokka og námshópa skuli fá 75% sannanlegs kostnaðar greidd úr ríkissjóði, viðurkennd fræðslusambönd slíkt hið sama og kennslufræðilegar stöðvar í fræðsluumdæmunum skuli njóta 50% ríkisstyrks vegna launa sérmenntaðs starfs liðs og vegna skrifstofukostnaðar. Þá er einnig gert ráð fyrir því að ríki eða sveitarfélög láti í té kennsluhúsnæði, tæki, ljós, hita, ræstingu og húsvörslu.

Ég hef þegar minnst á þá einu breytingu sem gerð hefur verið á frv, frá upphaflegri gerð þess, þ.e. að taka það beinlínis fram að hinir ýmsu þættir fullorðinsfræðslunnar, sem um er fjallað í frv., komi þá fyrst til framkvæmda þegar fé er veitt á fjárlögum til þeirra, þó að undanskildum þessum tveimur þáttum, sem ég einnig drap á áðan, námsflokkum og námshópum annars vegar og svo bréfaskólakennslunni hins vegar. En í frv, er gert ráð fyrir að þeir þættir komi til framkvæmda á næsta ári. Þessir tveir þættir eru teknir fram fyrir sumpart vegna þess að þeir hafa hvað minnstan aukinn kostnað í för með sér, að við ætlum, og þeir hafa reynst ákaflega vel og komið mörgum til hjálpar, ekki síst þeim sem ýmissar aðstöðu vegna eiga erfitt með að stunda nám á annan hátt. Og menntmn. þessarar hv. d. verður, um leið og gerð verður grein fyrir áætluðum kostnaði við frv. almennt, alveg sérstaklega gerð grein fyrir því hvaða kostnað framkvæmd þessara tveggja þátta mundi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég hef hér aðeins stiklað á stóru af ástæðum sem ég nefndi áðan og með vísan til athugasemda með frv. og þeirrar grg, sem ég hef áður flutt hér. Ég orðlengi þetta þá ekki frekar, en leyfi mér að leggja til að frv. verði að umræðu lokinni vísað til hv. menntmn.