15.11.1976
Neðri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

30. mál, námsgagnastofnun

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Hófsemi hæstv. menntmrh. og trygglyndi hefur lengi með miklum rétti verið við brugðið. En að þessu sinni held ég að ég verði að falla í þá freistni að hvetja hann eindregið til að halda þessum mannkostum í skefjum og sækja fram með örlítið meiri hörku gegn Alþ. og ríkisvaldinu fyrir hönd þeirra stofnana sem undir hann heyra.

Þó að fjmrh. beri sig illa, það hafa þeir alltaf gert og er talið eitt af því sem þeir eiga að gera, er ekki allt skorið niður og ýmislegt hefur komist í gegnum kerfið. Ég sé enga ástæðu til þess að menn þurfi að gefa upp vonina um að þetta frv. geti náð afgreiðslu.

Ég byrja á því að benda á, að engum dettur í hug að kaupa fiskiskip án þess að kaupa veiðarfæri, og nú á dögum þýðir ekki að reka skólakerfi upp á þau býti að ekki sé séð fyrir miklu meira en skólahúsnæði og kennurum. Kennarar þurfa á margvíslegum kennslutækjum að halda, og reynslan er í öðrum löndum að ýmisleg kennslutæki, sem eru tæknilegs eðlis, grípa ímyndunarafl nemendanna og draga úr námsleiða þeirra, auk þess sem tæki, sem nota myndir eða hljóð, virðast ná til margra nemenda sem erfitt eiga með að einbeita athygli sinni. Ég óttast því miður að skólakerfi okkar íslendinga sé óðum að dragast aftur úr því sem gerist í nágrannalöndum okkar hvað kennslutæki snertir, og ég vil hvetja Alþ. eindregið til þess að íhuga hvort það er verjandi að hafa jafnumfangsmikið og dýrt skólakerfi sem við höfum, en gera svo litlar ráðstafanir til þess að kennarar og nemendur fái þau tæki í hendurnar sem nútímaaðstæður krefjast. Glöggt dæmi er það, að allir skólar keppast við að koma upp skólabókasöfnum og hefði mátt vera fyrr í landi bókaþjóðarinnar. En skólabókasöfn nútímans krefjast fjölbreytni og eru miklu meira en bækur í hillum. Sú þjónusta, sem þessari stofnun er ætlað að veita á því sviði einu, er orðin aðkallandi.

Ég vil vekja athygli manna á því, að hér er ekki um að ræða veigamikið frv. um nýja stofnun í raun og veru. Að vísu mun sú endurskipulagning, sem hæstv. ráðh. lýsti, leiða af sér nýtt stofnunarnafn, en það er verið að sameina þrjár stofnanir sem eru þegar til, sem eru Ríkisútgáfa námsbóka og Skólavörubúðin, sem er allmikið fyrirtæki og hefur verið vel rekið og á nokkrar eignir, nokkrar húseignir t.d., og í þriðja lagi Fræðslumyndasafnið, sem er langminnst. Það er verið að sameina þessar stofnanir og tvær mismunandi stjórnir eiga að hverfa, en ein kemur í staðinn. Það er ætlunin að bæta við fjórðu deildinni sem á að framleiða ýmiss konar námsgögn, þ.e.a.s. námsgögn á íslensku í tæki sem töluvert mikið er til af. En ég vil benda mönnum á að þau námsgögn, sem þarna verða framleidd: segulbönd til tungumálanáms, skuggamyndir, glærur og hitt og þetta annað til allra mögulegra námsgreina, verða seld til skólanna, skólarnir greiða fyrir þetta. Eftir nokkra byrjun ætti námsgagnagerð að geta staðið þokkalega undir sér og þarf ekki að verða baggi á ríkissjóði. Ég tel því að hér sé ekki um kostnaðarsaman hlut að ræða. Það, sem þarf að koma nýtt, er stjórn yfir þetta allt saman, einn maður og kannske ein stúlka til að byrja með, sem fá það verkefni að sameina þessar þrjár stofnanir, sem eiga að renna saman í eina.

Í sambandi við Ríkisútgáfu námsbóka, þá hefur hún verið að gera breytingar á rekstri sínum sem eru mjög til hagræðingar, en ég vil taka það skýrt fram, að það eru ákvæði í þessu frv. sem munu að ýmsu leyti tryggja einkaútgáfu á námsbókum. Þetta felst í því, að þau einkafyrirtæki, sem hafa gefið út og vilja gefa út námsbækur, geta lagt handrit fram og fengið staðfest að þau séu talin hæf til notkunar á vissu skólasviði. Með því fær útgáfa þeirra verulegt öryggi. Hér er því ekki verið að auka völd eða stöðu Ríkisútgáfu námsbóka, heldur er þarna þvert á móti nokkur stuðningur veittur því, að við hlið hennar verði áfram eins og verið hefur einkaútgáfa á námsbókum.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leyfa mér að nefna eitt dæmi sem er skylt þessu frv. eða innihaldi þess en sýnir hversu mikið skilningsleysi ríkir á þörfinni fyrir kennsluefni hér á Íslandi. Þetta er dæmi sem ég þekki frá Fræðslumyndasafni ríkisins.

Öllum er kunnugt um að sjónvarpið okkar, sem nýlega hefur haldið upp á 10 ára afmæli sitt, hefur framleitt mikið af góðu íslensku efni. Það er ýmist á kvikmyndum eða segulböndum, og skiptir ekki máli, það má færa það á milli eftir vild. Það gerðist fyrst á árinu 1969, þegar sjónvarpið var þriggja ára gamalt, að Fræðslumyndasafnið óskaði eftir að fá kvikmynd um Jón Sigurðsson sem hafði verið gerð af sjónvarpinu, fá eintak af henni keypt. Það var ekki verið að biðja um neitt ókeypis. Eintökin átti síðan að láta ganga um skólana eftir að sjónvarpið væri búið að nota myndina. En þetta var ekki hægt. Á næstu árum ræddi ég oft við sjónvarpið um þetta, hvort ekki væri hægt að já hinar ýmsu íslensku kvikmyndir þess, eftir að þeim hafði verið sjónvarpað, keyptar á eðlilegu markaðsverði til nota í skólunum. Þetta var aldrei hægt. Í jan. 1973 var skrifað annað bréf til Ríkisútvarpsins og fylgdi með því mjög eindregin og hörð ályktun sem stjórn Fræðslumyndasafns ríkisins hafði gert um málið, en í henni eiga sæti m.a. fulltrúar frá kennarasamtökum. Ekkert gerðist. Skýringin er sögð vera sú, að starfsfólk sjónvarpsins kunni að eiga höfundarrétt að myndunum og þess vegna sé ekkert hægt að gera í þessu. Satt mun það vera, að starfsfólkið á vafalaust kröfu til höfundarréttar þegar myndirnar eru notaðar utan útvarpsins. En það er til einföld lausn til að leysa það mál, sem farin hefur verið í Danmörku. Í staðinn fyrir að reyna að reikna út, sem er ógerlegt, hvað hver starfsmaður á að fá mikið, má borga ákveðna upphæð í sameiginlegan sjóð starfsmanna: einföld lausn sem fyrirmynd er til að, en ekkert gerðist. Á árinu 1975 skrifaði Fræðslumyndasafnið útvarpsráði og mun málið eitthvað hafa verið rætt þar, en ekkert hefur gerst. Við höfum sem sagt tugmilljóna fyrirtæki, okkar ágæta sjónvarp, sem framleiðir mikið af góðu íslensku efni. Þetta er alíslenskt fyrirtæki, en samt hefur reynst ókleift að fá kvikmyndir, sem sjónvarpið gerir, til nota í íslenskum skólum. Mér finnst þetta satt að segja vera hneyksli, að ég tali ekki um þá embættisfærslu að bréfum frá 1969, 1973 og 1975 hefur ekki einu sinni verið svarað.

Ég nefni þetta sem furðulegt skilningsleysi á því, að það þarf að hlúa að þeim kennslutækjum sem eru í íslensku skólunum, og einmitt þarna, t.d. með kvikmynd um Jón Sigurðsson, sem fjöldinn allur af skólabörnum í dag hefur ekki séð þó hún hafi einu sinni verið endurtekin, og fleiri slíkum myndum. Þetta úrvalsefni til nota í skólunum er af einhverjum dularfullum ástæðum ófáanlegt með öllu.

Ég veit ekki hvort hæstv. menntmrh. er kunnugt um þetta efni, en mér þætti vænt um ef hann vildi, hvað sem verður um frv., athuga hvort hann getur ekki hnippt í menn sina og fengið þá a.m.k. til að svara bréfum — eða vinna það, sem er ekkert kraftaverk, að sjá til þess að skólabörnin okkar geti fengið að nota bestu myndir úr sjónvarpinu þegar sjónvarpið hefur sjálft hætt að sýna þær.

Ég vil að lokum ítreka að hér er ekki um stórkostlega nýja ríkisstofnun að ræða. Hér er um að ræða hagræðingu, sameiningu þriggja stofnana sem mun gera þær allar sterkari þegar þær vinna saman heldur en þegar hver vinnur fyrir sig. Nýja greinin, námsgagnagerðin eða framleiðslan, á að geta staðið langleiðis undir sér. Hér er því ekki um stórkostlega útfærslu á ríkisrekstri eða ríkiskostnaði að ræða. Hins vegar er Ísland að verða vanþróað land á sviði kennslutækja og það er ekki í samræmi við vilja þjóðarinnar eða Alþingis að láta það gerast.