15.11.1976
Neðri deild: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

30. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af því atriði, sem hv. 2. landsk. drap á síðast, varðandi sjónvarpsmyndir til nota í skólum, þá er mér ekki kunnugt um það. Ég mun kynna mér hvernig stendur á um það mál. Það er nógu illt, held ég, fyrir okkur að vera ekki enn búnir að koma á skólasjónvarpi, þó að það bætist ekki ofan á að það fæst ekki heldur að nýta fyrir skólana þær myndir, sem sjónvarpið hefur látið gera og hafa verið notaðar á sínum tíma.

Annars vil ég leyfa mér að þakka hv. þm. fyrir stuðning við þetta mál, sem ég tel nauðsynjamál. Ég vona að hann verði einnig liðtækur að styðja okkur í þeirri tekjuöflun sem þarf til þess að koma þessu á leið. Það, sem gerir að verkum, þegar ég tala fyrir máli eins og þessu, að ég tala af nokkurri varúð um kostnaðinn, er hins vegar hversu félagslegu þarfirnar eru óskaplega miklar á sviði menntamálanna og auðvitað fleiri mála í öllum áttum. Til byggingar grunnskóla er í fjárlögum þessa árs eitthvað um 1 milljarður kr., og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir verðlagshækkun á þessum lið nokkurn veginn, en á s.l. ári hækkaði hann nánast ekki neitt. Þetta er, þegar á heildina er litið, þó nokkur fúlga. En fyrir mönnum, sem þekkja ástandið víðs vegar um landið þar sem byggð hefur vaxið nokkuð ört, þar sem menn búa enn þá við skólahús frá aldamótum, þar sem menn jafnvel hafa engin skólahús, eins og enn er til þó að það sé mjög óvíða, minnast allra þeirra staða sem enga aðstöðu hafa til íþróttaiðkunar, allra þeirra staða þar sem ekki er aðstaða til að sinna t.d. þeim þætti grunnskólanámsins sem útheimtir aðstöðu til að geta sinnt verknáminu og þannig áfram og áfram, þá leynir sér ekki að það er naumt skammtað að ætla milljarð með dýrtíðaruppbót í þessar framkvæmdir um allt land.

En það er víðar í skólabyggingamálum sem illa er ástatt. Kennaraháskólinn starfar í húsnæði sem er rúmur þriðjungur af því sem ámóta stórum skóla og þar er nú rekinn var upphaflega ætlað. Þar er, eins og ég hef einhvern tíma rifjað upp hér á hv. Alþ., kennt á hanabjálkaloftum þar sem menn sitja þétt undir súð og er nánast ekki andrúmsloft nema skaparinn gefi veður þannig að það sé bægt að opna út í himingeiminn. Kennaramenntunin býr við slíka aðstöðu.

Íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni deilir íþróttahúsi með öllum hinum skólunum á staðnum, — íþróttahúsi sem byggt var fyrir löngu og er orðið allt of litið og ófullnægjandi og er nýtt þannig að það er byrjað snemma á morgnana og veríð að fram undir miðnætti. Og það er höfuðstöð kennaramenntunarinnar í þessari grein.

Án þess að ég ætli að fara að rekja þessa sögu lengra, þá dettur mér í hug eitt mál enn í sambandi við byggingarmál skóla, hví bað er ákaflega mikið þrýst á um það, og það er aðstaðan fyrir þroskaheftu börnin. Til þeirrar kennslu var tekið í notkun glæsilegt hús í Öskjuhlíð, en það er ekki nema hluti af því sem þar átti að byggja og þar er búið við gífurleg þrengsli, þó að hægt hafi verið að gera þar margt betur en áður var við enn verri skilyrði. Og í stórum heimilum fyrir vangefna, sem áhugamannafélög hafa komið upp, er nánast engin kennsluaðstaða.

Ef maður lítur svona yfir menntamálasviðið, rannsóknir t.d. í þágu atvinnuveganna, þá var eitt dagblaðið, sem hefur mjög boðað aðhald í ríkisrekstri og varað við þenslu og var með harðan leiðara í sama blaði um það. Það var aftur með heilsíðugrein um að það þyrfti að tífalda framlögin til rannsóknastarfsemi til þess að við stæðum jafnfætts óðrum, og það má e.t.v. rétt vera út af fyrir sig.

Það er ákaflega mikið kvartað undan því að seint gangi að endurskoða námskrá fyrir iðnfræðslustigið. Það verk er talið mjög nauðsynlegt til að samræma þar kennslu við nýja hætti og nýjar hugmyndir, og þar er naumt skorið til eða við eigum í erfiðleikum a.m.k. með að framkvæma þá sérkennslu sem hægt er að koma fyrir í því húsnæði sem nú er til.

Þannig er þetta nánast í öllum áttum. Og þó að ég nefni þetta aðeins á menntamálasviðinu, þá er það sama einsýnt í heilbrigðismálum og samgöngumálum o.s.frv. Nú boða allir menn hátt og í hljóði í velflestum blöðum þjóðarinnar, nálega öll félagasamtök, þó að þau segi hvert um sig: við erum verst settu þegnarnir í þjóðfélaginu, — þá boða nánast allir í kór að það eigi að draga úr samneyslu. Ég er ekki hrifinn af þeim boðskap. Ég veit að við þurfum að gæta aðhalds og við megum ekki eyða meiru en við öflum. En ég held að það sé hættulegast fyrir þetta þjóðfélag, eins og það er byggt upp, ef sú stefna verður ofan á einhliða að draga úr samneyslunni, draga úr því að fylla upp hinar félagslegu þarfir, en setja þeim mun meira þá til einkanota. Það er með þetta í huga sem ég tala varlega þegar ég er að fara fram á hækkanir eða fjármuni til þess að framkvæma vissa hluti, í þessu tilfelli námsgagnagerðina. Það er með allt þetta í huga sem ég tala svona gætilega um þessa hluti. Ég veit að seinast kemur að því í hvert eitt sinn að við verðum að velja og hafna, getum ekki tekið ótakmarkað, heldur verðum að skipta því sem til skipta verður.

En ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég þakka hv. 2. landsk. þm. fyrir stuðning við þetta mál.