16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

245. mál, úrbætur í atvinnumálu á Snæfellsnesi

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram, fluttum við þm. Vesturl. þáltill. í sambandi við fyrirhugaða byggingu fiskmjölsverksmiðju á Snæfellsnesi. Eins og einnig hefur komið fram í þessum umr., þá er svo ástatt með þennan landshluta, sem í eru 4 verstöðvar, að þar er engin nothæf fiskmjölsverksmiðja og alls ekki til þess að bræða feiti. Það er því mjög nauðsynlegt að gert verði eitthvert átak í þessum efnum. Það var með tilliti til þess að við fluttum þessa till., að eitthvað væri gert til þess að kanna möguleika á að stofnsetja slíka verksmiðju í þessum landshluta. Ég tel að það sé brýnt verkefni að koma í framkvæmd að hyggja fiskmjölsverksmiðju á Snæfellsnesi. Það er nú svo, að þó að samgöngur þar mættu vera betri en þær eru, þá eru víðunandi samgöngur á milli verstöðvanna, þannig að eina góða verksmiðju, vel staðsetta á Snæfellsnesi, væri hægt að hugsa sér að nýta sameiginlega fyrir þessar útgerðarstöðvar. Vitanlega kemur ekki til greina að fara að byggja fullkomna fiskmjölsverksmiðju á hverjum stað, enda stutt á milli sumra útgerðarstaðanna, eins og kunnugt er.

Ég tók til máls aðeins til að undirstrika það, að hér er um nauðsynjamál að ræða sem verður að sinna og taka til athugunar sem fyrst svo að hægt verði að hefjast handa um þessa nauðsynlegu framkvæmd sem ekki verður hægt að skjóta sér undan.