18.10.1976
Efri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

23. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Viðvíkjandi því, hvort sparnaður hljótist af því ef þetta nýja skipulag er tekið upp, þá vil ég vísa til upplýsinga sem komu fram um það atriði í fyrra, ef ekki í þessari hv. d., þá a.m.k. í Nd. Sjálfsagt hafa þær tölur, sem þar voru settar fram, eitthvað breyst. En ég vil leggja það til og mælast til þess að hv. allshn. kalli fyrir sig forstöðumann Bifreiðaeftirlitsins sem ætti að vera þessum málum kunnugastur og færastur um að gera grein fyrir því hver sparnaður er líklegur til þess að leiða af þessu breytta skipulagi.

Að því er varðar fsp. hv. síðasta ræðumanns, 1. landsk., þá er það að segja, að ég geri ráð fyrir því að ef frv. þetta yrði samþ. og yrði að lögum, þá yrði að setja reglur í löggjöf varðandi veðsetningar á bifreiðum. Hvernig því efni yrði fyrir komið er ég ekki alveg viðbúinn að segja um á þessu stigi, en þegar um málið var fjallað hér í fyrra, þá mun hafa verið útbýtt til nefndarmanna a.m.k. grg. Ólafs Walters Stefánssonar deildarstjóra í dómsmrn. um það efni. Ég held að það verði auðvelt að skipa þeim reglum þannig að það verði hægt að sneiða fram hjá vandkvæðum í því efni. Hitt er svo annað mál, eins og ég held að annar hvor ræðumanna hafi vikið að, að bifreiðar eru ekki sérlega vel til veðsetningar fallnar, og ég held að það væri til bóta á margan hátt ef það væri hægt að draga úr því eða jafnvel bætta slíku. Sannleikurinn er sá, að það getur verið full þörf á því að setja sérstakar reglur í löggjöf um sölu á bifreiðum, af því að það er nú talsvert um það að ýmiss konar ágreiningur rísi út af þeim viðskiptum og þau séu ekki í því lagi sem æskilegt er.