16.11.1976
Sameinað þing: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

244. mál, fiskvinnsluverksmiðja

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Fyrsti liður fsp. hv. þm. hljóðar svo:

„Hvað hyggst ríkisstj. gera til að bæta úr því slæma atvinnuástandi sem nú ríkir á utanverðu Snæfellsnesi, einkum í Ólafsvík?“

Ekki er unnt að taka undir það með fyrirspyrjanda, að atvinnuástand á utanverðu Snæfellsnesi sé slæmt, a.m.k. bendir atvinnuleysisskráning til hins gagnstæða. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að atvinnuleysisskráning í Ólafsvík er þannig á yfirstandandi ári að það eru að vísu 36 manns skráðir atvinnulausir Sl. jan. s.l., með 782 atvinnuleysisdaga í mánuði, hinn 31. mars en einn skráður atvinnulaus, með 153 daga atvinnulausa í mánuði, hinn 30. apríl, 31. maí, 30. júní, 31. júlí, 31. ágúst er enginn skráður atvinnulaus, og þá sömu mánuði eru engir atvinnuleysisdagar nema 7 í apríl. Hins vegar eru 30. sept. skráðir 2 atvinnulausir í Ólafsvík, með 92 atvinnuleysisdaga í mánuði, og 31. okt. eru 3 skráðir atvinnulausir, með 23 atvinnuleysisdaga í mánuði. Ef við lítum á Hellissand, þá er það svo að allt árið er enginn skráður atvinnulaus og engir atvinnuleysisdagar skráðir á árinu. Þess vegna skulum við ekki gera ástandið verra en það er. Það geta verið blikur á lofti, en þetta eru staðreyndir málsins.

Hins vegar hefur hreppsnefnd Ólafsvíkur snúið sér til ríkisstj. og skýrt frá því að alvarlega horfi á staðnum vegna minnkandi fiskafla, sem bæði stafar af því, sem hreppsnefndin tjáir, að um sé að ræða minni fiskgengd vegna m.a. fiskveiðilagaákvæða svo og vegna hins, að bátum hefur fækkað og bátar verið seldir frá staðnum.

Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið falið að kanna þetta mál og gera till. til úrbóta. Í skýrslu til ríkisstj., dags. 3. nóv. 1976, er gerð ítarleg grein fyrir stöðu mála og ýmsum till. sem gætu verið til úrbóta. Ríkisstj. fól Framkvæmdastofnuninni framhaldsmeðferð málsins, og meðan henni er ekki lokið er ekki unnt að skýra frá aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins.

Það er engum vafa bundið að á þessu ári hafa komið fram aflatölur sem gera það að verkum að atvinna hefur ekki verið eins mikil í Ólafsvík og undanfarið, og afkomuskilyrði frystihússins á staðnum eru þess vegna miklu verri en verið hafa. En þar er, að því er má segja, nýuppgert frystihús sem fullnægir ítrustu kröfum, og skiptir því miklu máli að það framleiðslutæki sé nýtt.

Það er vilji ríkisstj. að leitast verði við að styðja við bak heimamanna að afla hráefnis til vinnslu í þetta frystihús og aðrar fiskvinnslustöðvar á staðnum.

En þegar spurt er undir b-lið: Getur ríkisstj. fallist á það í þessu sambandi að heimila togarakaup erlendis með hliðstæðri lánafyrirgreiðslu og almennt var veitt á árunum 1972– 1975? — þá er því til að svara, að á árinu 1975, — ég hygg það muni hafa verið í ágústmánuði eða þar um bil. — ákvað ríkisstj. að hætta að veita 13% ríkisábyrgð vegna kaupa á togurum erlendis. Við þá ákvörðun hefur verið haldið, og sú ákvörðun hefur verið staðfest af ríkisstj. nýlega. Við teljum ekki efni standa til þess að veita slíka ríkisábyrgð fyrir kaupum á skuttogurum eða fiskiskipum erlendis frá, þar sem fiskiskipastóll landsmanna er meira en nægilega stór til þess að ná upp þeim þorskafla sem að áliti fiskifræðinga er óhætt að taka af Íslandsmiðum — og þótt meira væri. Meðan einnig eru háværar kröfur um að takmarka þorskveiðar, þá er ekki skynsamlegt að stuðla að auknum skipakaupum, eins og þessi 13% ríkisábyrgð hafði í för með sér. Loks er svo þess að gæta, að innlendar skinasmíðastöðvar eru myndarlega reknar og eðlilegt er að kaupum á fiskiskipum sé beint til þeirra, en þær munu vera þess megnugar að smíða um eða yfir 2000 smálestir til viðbótar í fiskiskipastól landsmanna á ári hverju. Allt þetta hnígur því að því að fella niður 13% ríkisábyrgðina, og þá veltur á því, hvort Ólafsvik getur með eigin fjármagni og innlendu fjármagni staðið að skuttogarakaupum eða öðrum fiskiskipakaupum sem tryggi hráefnisöflun til staðarins. Það er m.a. til athugunar og meðferðar á vegum Framkvæmdastofnunar nú.

Þá er spurt undir c-lið: „Má ekki vænta þess að ríkisstj. greiði fyrir lánveitingum til byggingar verbúða í Rifi, svo að það mikla nauðsynjamál liggi ekki lengur í láginni vegna tregðu lánastofnana?“

Í þessu sambandi skal ég aðeins taka það fram, að frumkvæði að slíku verður eðlilega að koma frá heimamönnum og framkvæmdum verður að vera þannig háttað, sé leitað eftir opinberum lánum, að þær séu lánshæfar. Framkvæmdir eru ekki hafnar við byggingu verbúðar í Rifi að öðru leyti en því, að ýtt var upp úr grunni fyrir fjórum árum. Sótt hefur verið um lán í fyrsta lagi úr Fiskveiðasjóði, í öðru lagi úr Byggðasjóði og í þriðja lagi hjá Landsbanka Íslands, en engin lánsloforð hafa fengist. Í fyrstu var sótt um lán úr Fiskveiðasjóði er nam 60% af heildarkostnaði upphaflegra framkvæmdaáforma sem voru um 5100 rúmmetrar að stærð. Þeirri umsókn var synjað. Var þá sótt um lán er nam 50% af heildarkostnaði sömu framkvæmdaáforma, þar sem talið var að í bygginguna væri mun meira lagt en venjulegar verbúðabyggingar, enda hótelrekstur fyrirhugaður á sumrin. Ekki var heldur orðið við þeirri lánsbeiðni. Var því að lokum lögð fram enn ein lánsumsókn jafnhliða endurskoðaðri framkvæmdaáætlun. Var þar miðað við byggingu 3000 rúmmetra verbúðarhúss, auk þess sem ýmsar sparnaðarráðstafanir voru gerðar, og var nú sótt um lán er næmi 60% af heildarkostnaði þeirra framkvæmda. Lánsloforð fékkst ekki hjá Fiskveiðasjóði. Umsókn sú, sem lögð var inn hjá Byggðasjóði, var endursend á þeirri forsendu að eðlilegur framkvæmdahraði yrði engan veginn tryggður ef lánsloforð fengist ekki hjá Fiskveiðasjóði. Hins vegar var lánbeiðendum bent á að sækja aftur um fyrirgreiðslu ef úr framkvæmdum yrði.

Ríkisstj. hefur ekki haft nein afskipti af þessum lánamálum í sambandi við byggingu verbúða í Rifi, og það er í raun og veru heldur ekki eðlilegt. Slíkt á að ganga með eðlilegum hætti til þeirra lánastofnana sem sinna slíkum lánveitingum, og að öllu jöfnu verður að ætlast til þess og búast við því að þær njóti þar eðlilegrar meðferðar eins og efni standa til. En vitaskuld kann slíkum lánastofnunum að vera erfitt um jákvæða fyrirgreiðslu ef lánsfjárskortur er til staðar, eins og við vitum að um er að ræða hjá t.d. Fiskveiðasjóði, og bað getur leitt til þess að auknar kröfur ern gerðar til lánshæfni viðkomandi framkvæmda.