17.11.1976
Neðri deild: 12. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

70. mál, endurhæfing

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mér finnst rétt að það komi fram, að þegar lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt 1969, þá var, eins og kunnugt er, stofnað sérstakt heilbrrn. eða heilbr.- og trmrn. Samfara þessari löggjöf var gefin út reglugerð um starfsskiptingu á milli hinna einstöku rn., og samkv. þeirri reglugerð komu ekki öll mál. sem áður voru í félmrn. og eðli málsins samkvæmt heyra undir heilbrrn., sjálfkrafa yfir í heilbrrn., heldur urðu þar eftir af ýmsum ástæðum, eftir því sem mér hefur verið sagt og veit um. Þar komu einnig til greina persónuleg sjónarmið, tengsl embættismanna í félmrn. á þeim tíma við ákveðna málaflokka sem þar voru, og var þá ekki talið rétt að slíta þá úr tengslum við félmrn.

Snemma á þessu sumri hreyfði ég því innan ríkisstj. að það væri rétt að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands og jafnframt yrði endurskoðuð reglugerðin um starfssvið hinna einstöku rn. Ríkisstj. féllst á það, og forsrh. skrifaði öllum rn. bréf þar um og óskaði eftir tillögum rn. um breytingu frá gildandi reglugerð. Þessar till. eru, að ég best veit, ekki komnar í hendur forsrh. nema frá mjög fáum rn. Ég hef sent till. frá sjútvrn. fyrir nokkru, og í gær var ég endanlega að ganga frá áliti heilbrrn. um það sem það óskar eftir að breytt verði í reglugerðinni, og það bréf mun vafalaust komast í hendur forsrh. fyrir lok þessarar viku. Þegar öll rn. hafa sent till. sínar, verður auðvitað farið í það að breyta reglugerðinni eftir því sem ríkisstj. sýnist og samkomulag næst um.

Ég er sammála flm. þessarar till. um að endurhæfing, bæði læknisfræðileg og starfsleg, vegna skertrar starfsemi, endurhæfingarstöðvar og styrktarsjóðir vangefinna, fatlaðra og blíndra eigi auðvitað fyrst og fremst að vera undir heilbr.- og trmrn., ekki af því að ég fer með þessi mál nú því að þar eru ærið nóg verkefni fyrir. En þetta veldur að mörgu leyti — og hefur valdið sennilega frá byrjun — allmiklum erfiðleikum, og oft og tíðum verður það svo, að þegar mál eða málaflokkar eða einhver ákveðin starfsemi lendir í tveimur eða jafnvel þremur rn., þá er eins og ekkert rn. vilji hafa eða hafi í reynd forgöngu um að sinna þessu, heldur verður það oft þannig í framkvæmdinni að það er verið að bíða og spyrja hvað hinn ætli að gera, og þannig hefur þetta verið hvað snertir sum af þessum málum. Ég er á því, að endurhæfingarmálin eigi því að koma undir heilbrrn.

Endurhæfingarlækningar er nú ekki hægt að segja að eigi langan aldur í okkar landi. Ég held að fyrsti sérmenntaði endurhæfingarlæknirinn hafi ekki komið til starfa hér fyrr en á árinu 1962. Þeir læknar eru tiltölulega mjög fáir enn þá og endurhæfingarstarfsemi fer fram aðallega á þremur stöðum hér í borginni: Landsspítala, Grensásdeild og Reykjalundi. Við höfum í heilbrigðisstjórninni mikinn áhuga á því að endurhæfingardeild verði starfrækt á neðstu hæðinni í Hátúni, sem er langlegudeild. Þar eru sjúklingar sem er illt að flytja á milli, og það er auðvitað krafa og sjálfsögð skylda í siðmenntuðu þjóðfélagi að reyna að gera þeim, sem sjúkir eru, lífið bærilegt og alltaf að láta þá finna að lífsneistinn er óslökkvandi. Þess vegna held ég — og við höfum gert till. um það í heilbrigðisstjórninni — að þar verði komið á endurhæfingu. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því bæði í lögum um heilbrigðisþjónustu og í þeirri framkvæmd sem unnið er að í sambandi við heilsugæslustöðvar úti um land að þar fari fram endurhæfing í vaxandi mæli, því að vitaskuld á endurhæfing ekki að vera eingöngu hér í Reykjavík eða öðrum stærstu þéttbýlisstöðum landsins. Hún verður einnig að vera annars staðar. En á þessu er auðvitað verulegur galli í framkvæmd enn sem komið er vegna þess að bæði skortir okkur sérfræðinga á þessu sviði læknavísinda og þeir verða auðvitað ekki settir í hinar minnstu heilsugæslustöðvar, ekki a.m.k. á næstu árum, bæði af því að þeir eru ekki til og hins vegar einnig af því að það verða ekki nóg verkefni fyrir slíka menn á hinum minni stöðvum.

Hitt er ekki síður alvarlegt, að það er skortur á sjúkraþjálfurum í okkar landi, þannig að endurhæfingarstarfsemin hefur verið mjög takmörkuð af þessari ástæðu. Það hefur verið reynt bæði undanfarin ár og enn að mæta þessu nokkuð með því að fá erlenda sjúkraþjálfara. En það eru örfáir aðilar sem fást og er sífellt erfiðara því að það er skortur á sjúkraþjálfurum í flestum löndum, sérstaklega í nágrannalöndum okkar. Nú loksins hefur það orðið að veruleika að sjúkraþjálfaranám er tekið upp hér á landi. Það hófst á s.l. hausti og að því er ég best veit eru þar 18 við nám. En það nám tekur 4 ár svo að það er ekki fyrr en að þeim tíma loknum sem fer að rætast verulega úr á þessu sviði. Þá verðum við að ætla og vona að framhaldið verði það, að þarna verði innan ekki langs tíma, eftir að fyrsti árgangurinn lýkur námi, hægt að sinna þessu mikilvæga verkefni með þeim hætti sem við öll kjósum að gert verði.

Ég er ekki sammála hv. flm. um að það séu ekki einhver takmörk fyrir því sett hve samneyslan má verða há til þess að einkaneyslan eða þeir, sem afla tekna, geti sæmilega við unað. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa mikla samneyslu. Samneysla er ekki aðeins þeir málaflokkar sem hann nefndi. Samneysla er auðvitað allir málaflokkar og öll útgjöld ríkis og sveitarfélaga, hverju nafni sem þau nefnast, og verðum við auðvitað að gæta hófs í þeim efnum. Við megum ekki heldur fara of langt á þessu sviði. Þeir sem eru að vinna, þeir sem afla mismunandi mikilla tekna og þá þeir sérstaklega sem afla mjög hárra tekna, leggja mikið á sig, þeir vilja fá allverulegan hluta af sínum tekjum til ráðstöfunar sjálfir, það heyrum við á hverjum degi hjá öllum starfshópum, alveg sama hvort það eru menn sem vinna með flibba um hálsinn eða aðrir, að sú krafa er ákaflega hávær, að við eigum að halda miklu eftir í einkaneyslunni. Hitt er að mörgu leyti rétt, að samneysla, þar sem hún er há, þá er hún auðvitað til þess að jafna kjör. En við megum ekki jafna kjörin svo að það dragi úr víðleitni manna til þess að vinna og afla tekna. Þar kannske skilur okkur eitthvað á um, — ég vil aðeins að þetta komi hér fram, — og þá er eins og fyrri daginn vandratað meðalhófið.

Ég er sammála hv. þm. um að það er mjög margt ógert í okkar heilbrigðismálum, og kannske verður maður enn opnari fyrir því þegar maður tekur á sig þá ábyrgð að veita forstöðu rn. eins og þessu, hvað hér er mikið ógert, þó að margt hafi verið gert á undanförnum árum og áratugum. En það voru miklar lægðir í framkvæmdum á þessu sviði, t.d. eftir að Landsspítalinn var byggður um 1930. Þá sigldi í kjölfar þess heimskreppan og samdráttur á öllum sviðum. Það má því segja að í mörg næstu ár á eftir hafi verið ákaflega lítið gert við uppbyggingu heilbrigðismála. En eftir úttekt, sem Þjóðhagsstofnunin gerði núna í sumar, voru á árinu 1950 heildarútgjöld sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu 3% til heilbrigðismála. Þetta hefur farið hækkandi þannig á fimm ára fresti: 1955 er það komið í 3.3%, 1960 3.5%, 1965 4.2%, 1970 5.8% og 1971 sama, 1972 6.1%, 1973 5.5%, 1974 6.4% og 1975 — það er áætluð tala — um 7.1%. Það má því segja að við höfum verið í sókn. Að vísu hefur lækkað kannske á milli einstakra ára á þessu tímabili, kannske 1–2 ár, en náð sér alltaf mjög verulega á fimm ára fresti, úr 3% upp í 7.1%, svo það má segja að Alþ. og ríkisstj. á þessu tímabili hafi séð það og viðurkennt að þarna var mikilla úrbóta þörf. Þetta er stefna sem hefur verið tekin á þessu tímabili, og það er til sóma fyrir þjóðina og fyrir forráðamenn hennar á þessu tímabili öllu að þessi þróun hefur átt sér stað.

Við verðum líka að gæta að því, að það er í heilbrigðismálum eins og í öðrum málaflokkum að öll áætlanagerð hefur verið mjög á eftir, hún hefur verið í mótun og það hefur verið mjög erfitt að vinna á skömmum tíma að áætlanagerð við algera uppbyggingu heilbrigðisstofnana um gjörvallt landið. Það tekur nokkur ár að vinna að þeim undirbúningi. Sá undirbúningur er kominn töluvert á veg. Það hefur þurft að ræða við forráðamenn í hinum ýmsu byggðarlögum um þeirra óskir, um það sem hefur borið á milli heilbrigðisstjórnar og fjármálaspekinga og heimamanna um hvað eigi að gera. Á bak við þessar áætlanir liggur auðvitað mikið verk sem hefur veríð unnið þó nokkuð að, en að mörgu leyti er það sem eðlilegt er ófullkomið. Þetta hefur verið tekið nú stig af stigi. En hins vegar, þrátt fyrir það að oft hefur komið fram vilji um að taka einhver ákveðin verkefni fram yfir önnur, þá hefur verið farið samtímis í svo mörg önnur að allt hefur þetta orðið til þess að óhæfilegur dráttur hefur orðið á framkvæmdum. T.d. var áður en þessi ríkisstj. tók við farið af stað með mjög dýrar framkvæmdir sem var hleypt af stað þrátt fyrir það að á síðasta ári fyrri stjórnar segir í lögum um heilbrigðisþjónustu að þeir staðir og þau héruð, sem séu verst sett hvað snertir heilbrigðisþjónustu, eigi að njóta forgangs. Þarna rekast á viljayfirlýsingar bæði Alþ. og ríkisstj. í fjölmörgum greinum. Það var farið af stað með framkvæmdir sem kosta í raun ekki hundruð milljóna, heldur milljarða, og síðan á að hafa forgang uppbygging heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa þar sem ástandið er verst. Samhliða þessu eru fjárveitingar til uppbyggingar í heilbrigðismálum ekki í fullu samræmi við þá verðbólgu sem leikur okkur svo grátt.

Nú vil ég nefna sem dæmi að fyrir tveimur árum tekur Alþ. þá stefnu að fjölga byggingu heilsugæslustöðva án þess þó að hækka framlögin. En það gengur aðeins út yfir það, að því hægara ganga aðrar framkvæmdir. Það er alltaf þetta sama vandamál hjá okkur, að það eru allir að flýta sér og allir eiga rétt á að hafa forgang. Þm. úr hverju kjördæmi fyrir sig telja sig afskipta, þeir geti alls ekki beðið. Þeir verða að fara af stað með framkvæmdir í kjördæmi alveg eins og þessi þarna úr hinu kjördæminu, hann hefur fengið þetta. Þannig hefur ekki skapast heildarstjórn, hvorki í tíð þessarar ríkisstj., fyrrv. ríkisstj. né annarra ríkisstj. sem voru á undan þeim. Alþ. hefur ekki markað í þessum efnum heildarstefnu, og þetta eru höfuðástæðurnar fyrir því.

Ég ætla nú ekki undir endurhæfingarmálum að eiga hér kappræður við flm. um svona hápólitísk efni, að öðru leyti en því sem ég nefndi hér af því að hv. þm. minntist á samneysluna. Okkur gefst vonandi tækifæri til þess siðar. Ef okkur endist báðum líf og heilsa til þess, þá getum við gert það og þá verða sennilega jafnvel fleiri tilbúnir að koma inn í þær rökræður. En ég vil að síðustu nefna eitt. Hann kom hér inn á þann mismun sem væri fyrir fólk sem væri inni á sjúkrahúsunum og utan sjúkrahúsanna hvað snertir lyfjakostnað. Þessi mismunur hefur auðvitað alltaf verið og hann var líka í tíð fyrirrennara míns. Lyfjakostnaðurinn hefur aftur hækkað eins og allt hefur hækkað.

En er þetta rétt stefna hjá okkur, að ef fólk leggst inn á spítala, þá eigi það ekki að borga eina einustu krónu, en ef það er utan við spítalana, þá verður það auðvitað að koma sér til læknis eða komast á göngudeildir, greiða þar að vísu aðeins hluta af þeim kostnaði sem verður við rekstur göngudeildanna, greiða til sérfræðings, ef þarf að leita til sérfræðinga, og greiða sinn þátt í lyfjum? Ég held að það sé sanngjarnara og eðlilegra til þess að draga ekki úr hinni félagslegu uppbyggingu heilbrigðismálanna að fólk sem engar tekjur hefur og getur ekkert borgað, heldur fyrst og fremst við fólk sem liggur á sjúkrahúsum tiltekinn hámarkstíma á ári, — ekki fólk sem liggur mánuðum saman, það væri ósanngjarnt og óheilbrigt. En við skulum segja að ég leggist inn á spítala og þurfi að vera þar í hálfan mánuð. Ég fæ kaup mitt eftir sem áður. En verkamaður, sem er með margfalt minni tekjur en ég og þarf aftur að sækja göngudeild eða leita til sérfræðinga eða fara í röntgenskoðun, hann verður að borga fyrir það — og auðvitað er sama úr hvaða starfsgrein hann er. Hvers vegna á ég að geta legið á sjúkrahúsi og fengið fullt kaup hjá þeim sem borga mér kaup og þurfa ekki einu sinni að borga fæðið mitt á sjúkrahúsinu? Menn hreinlega komast mun betur út úr því fjárhagslega að liggja á sjúkrahúsi meðan þeir njóta fulls kaups. Hvers vegna má ekki hugleiða þessi mál, að gera breytingar í þessa átt og setja fram einhvern hámarkstíma? Þá á ég ekki við, eins og ég sagði áðan, að fara að hafa þann tíma marga mánuði, við skulum segja hálfan mánuð, þrjár vikur, miðað við að það sé fólk sem hafi fullar atvinnutekjur, en alls ekki til þess að fara að reyna að ná sér niður á þeim sem ekkert hafa og ekkert geta borgað. Ég held að þetta sjónarmið eigi fullan rétt á sér og sé eðlilegt að íhuga það, en stefna aftur hærra en við höfum gert í sambandi við aukna starfsemi í heilbrigðiskerfinu og meiri hraða í uppbyggingu heilbrigðisstofnana.

Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram og skýra frá því hvað gert hefur verið eða er verið að gera varðandi væntanlegar breytingar á reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands, og eins og ég sagði áðan, þá er ég flm. sammála hvað þetta snertir og tel að þessi breyting sé rétt.