18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

48. mál, litasjónvarp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. alþm. Hér hefur farið fram allmikil umr. um það hvort leyfa eigi innflutning á litasjónvarpi. Að sjálfsögðu hafa menn á því misjafnar skoðanir hversu nauðsynlegt sé að horfa á sjónvarpsefni í lit. En ég vil byrja á því að halda því fram að í dag horfum við á sjónvarpsefnið í lit, þ.e.a.s. við horfum á það annars vegar sem svart og hins vegar sem hvítt. Og ég fæ ekki séð að þessir tveir litir séu neitt fegurri en aðrir og þess vegna einhver sérstök nauðsyn að horfa aðeins á hlutina sem svarta eða hvíta. Mér virðist þess vegna allt tal um það að litasjónvarp sé ómerkilegra eða menningarsnauðara heldur en það svarthvíta, mér virðist sem það falli um sjálft sig.

Hin spurningin, sem gjarnan hefur verið sett hér fram, er spurningin um gjaldeyrisstöðuna. Nú er það svo að við íslendingar eigum kost á því að eyða gjaldeyri okkar eftir helst til mörgum leiðum og afleiðing þess er sú að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er heldur bágborin. Samt er bað svo að um leið og við eyðum gjaldeyri er í mörgum tilfellum tekinn stór hluti sem viðkomandi aðila er ætlað að greiða til annarra þarfa. Þetta er gert í formi tolla söluskatts eða vörugjalds og eftir ýmsum leiðum. Ég tel að hver sú aðferð við eyðslu gjaldeyris í dag, sem stuðlar að því að menn þurfi að greiða mikið til þjóðarbúsins um leið, stuðli að gjaldeyrissparnaði hjá þessari þjóð. Þess vegna blasir það við að sú gjaldeyriseyðsla í dag sem er hvað alvarlegust, borgar hvað minnst til þjóðarhússins, er tvímælalaust ferðamannagjaldeyririnn. Hann er tvímælalaust í sérflokki hvað það snertir, að um leið og menn fá rétta vissa upphæð af ferðamannagjaldeyri eru þeir ekki að greiða íslenska ríkinu stórar upphefðir eins og þeir gera eftir öðrum leiðum.

Sú ákvörðun að setja litasjónvarp og innflutning þess í bannflokk er ákvörðunin um að skipa litasjónvarpi á sama borð og hassi eða einhverjum eiturefnum. Ég vil fá að hlusta á þau rök alveg til botns, hvað sé svona ofboðslega hættulegt við litasjónvarpið sem beri að taka til greina þegar ákveðið er að flokka það með algerum eiturefnum. Þau rök hafa ekki komið fram hér í dag. Það hafa komið fram skiptar skoðanir á því hversu nauðsynlegt þetta er. En það hefur jafnframt legið fyrir að það er ekkert sem segir að það tryggi gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar að banna þetta. Og ekkert hefur komið hér fram sem sannar að við eyðum ekki og höfum til þess frjálsræði að eyða fjármagni til hluta sem síst geta talist þarfari, svo sem áfengisneyslu og neyslu tóbaks. Ég vil í ljósi þess lýsa því yfir, að ég tel að það séu rök hjá flm. að með því að leyfa innflutning á litasjónvarpstækjum verði hægt að byggja upp dreifikerfi landsins þannig að sjónvarpið nái til fleiri staða. Það hefur jafnframt komið fram, að um mestallt svæðið væri hægt að ná fram litmyndum í sjónvarpinu og þess vegna ekki um að ræða að það væri nein sérstök mismunun á aðstöðu eftir búsetu þó að þetta næði fram. Ég aftur á móti hef ekki kynnt mér til hlítar áætlun sjónvarpsins um hvað þeir hyggist gera við það fjármagn sem þeir fá. Það getur varla talist nein nauðsyn að fara að eyða fjármagni í það að sjá fréttamennina í litum t.d. Ef einhverjar hugmyndir eru hjá sjónvarpinu um slíka hluti, þá tel ég það ekki eðlilegt. Aftur á móti fæ ég ekki séð að það sé neitt sem mæli gegn því, að það efni, sem þeir kaupa í litum, verði sýnt í litum, og jafnframt, að stuðlað verði að því að það efni, sem þeir framleiða og ætla sér að selja öðrum þjóðum til neyslu, það verði í þeim gæðaflokki að þær vilji kaupa það. Mér sýnist þess vegna að það sé eðlilegt að heimilað verði að flytja inn litasjónvarpstæki. Ég tel aftur á móti jafnnauðsynlegt að þess verði gætt, að því fjármagni, sem kemur inn fyrir þau tæki, verði varið til þess að dreifa sjónvarpinu sem mest um landið, þannig að allir íslendingar, hvort sem þeir ern á sjó eða landi, fái notið þess.

Það hafa komið fram raddir sem segja: Þetta er hægt að gera án þess að við fáum tekjur af innflutningi litasjónvarpstækjanna. Vissulega er það rétt, að þetta er hægt að gera án þess. Samt sem áður er það staðreynd, að hið háa Alþingi hefur ekki lagt fram hugmyndir eða till. um, hvernig fjár yrði aflað í þessu skyni, og eftir 10 ára starfsemi íslenska sjónvarpsins hefur þetta ekki náð fram að ganga. Þegar ég segi að þetta hafi ekki verið gert, þá á ég við að Alþ. hefur ekki afgreitt lög þar að lútandi, en ekki hitt, að einstakir þm. hafi ekki sýnt þessu máli fullan skilning. — Svo þakka ég fyrir.