18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

77. mál, fasteignamiðlun ríkisins

Flm. (Guðrún Benediktsdóttir):

Herra forseti. Ég ásamt hv. alþm. Inga Tryggvasyni og Steingrími Hermannssyni flyt till. til þál. á þskj. 85 um fasteignamiðlun ríkisins, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til l. um fasteignamiðlun ríkisins, er stuðla skal að því, að verðlag fasteigna verði sem næst kostnaðarverði á hverjum tíma og á þann hátt komið í veg fyrir óeðlilegan gróða og fasteignabrask, sem er mjög verðbólguhvetjandi.“

Á Alþ. vorið 1975 fluttum við hv. alþm. Ingi Tryggvason þáltill. sama efnis og hér um ræðir og var henni vísað til allshn. Till. þessi hefur ekki verið tekin þar til meðferðar og er hún endurflutt nú í trausti þess að máli þessu verði meiri gaumur gefinn á yfirstandandi þingi.

Flestir íslendingar setja sér snemma það markmið að eignast þak yfir höfuðið. Byrja menn þá gjarnan smátt, en stækka síðan við sig þegar efni og ástæður leyfa. Þannig skipta hjón gjarnan um íbúð á 5–10 ára fresti á fyrri hluta búskaparára sinna. Milliliðakostnaður sá, er fylgir fasteignasölu, nemur 2% af söluverði eignarinnar. Munu það vera 100-200 þús. kr. fyrir hverja eign, miðað við að söluverð sé 5–10 millj. kr. Þegar gera má ráð fyrir að ein til tvenn mánaðarlaun þurfi til þessarar þjónustu við hverja sölu ætti það að vera hvatning til að koma þessum málum fyrir á hagkvæmari hátt.

Í Reykjavík og nágrenni eru skráðir í símaskrá a.m.k. 40–50 fasteignasölur og eftir fjöldanum að dæma virðist þessi atvinnuvegur þykja arðvænlegur. Í Reykjavík einni var árið 1973 þinglýst 2209 afsölum fyrir fasteignum, árið 1974 2303 og árið 1975 2608 afsölum. Á þessu sést að fasteignaviðskipti eru mikil. Ef gert er ráð fyrir að meðalverð á eign sé 8–10 millj. kr., þá nemur salan 21–26 milljörðum kr., þ.e.a.s. 21–26 þús. millj., miðað við núgildandi verðlag. Þóknun fasteignasala fyrir þessa þjónustu nemur þá um 417–520 millj. kr.

Þjónustu þessari hefur verið mjög ábótavant, því að t.d. eins og fyrr segir eru fasteignaskrifstofur mjög margar og verður fólk, sem leitar sér að húsnæði, að þeytast milli fjölda staða til að fá yfirsýn yfir allar íbúðir sem á markaðnum eru.

Þetta mál er ekki einungis hagsmunamál þeirra sem kaupa fasteignir, heldur og þeirra sem selja þær, því að þótt fasteignin, sem seld er, sé á lægra verði en það sem fasteignasalar sprengja verðið upp, þá er á það að líta að flestir eru að skipta um eign og fá sér stærri og dýrari húsakynni. Þeim kemur því til góða að lækka verð á íbúðum, auk þess sem umbun milliliðarins verður minni.

Með því að starfrækja þessa fyrirhuguðu skrifstofn í tengslum við Húsnæðismálastofnun ríkisins væri auðvelt að hafa aðgang að mati fasteigna til að hafa til hliðsjónar við verðlagningu, en verið er að vinna að nýju fasteignamati byggðu á söluverði fasteigna nú síðustu ár. Einnig ætti að vera hægt að fá þar byggingartíma, teikningar og annað viðvíkjandi hverri eign. Með till. þessari er gert ráð fyrir að umrædd þjónusta á vegum ríkisins verði seld á kostnaðarverði.

Ekki þarf getum að því að leiða hver þægindi og sparnaður á tíma og fyrirhöfn það væri fyrir almenning að eiga kost á allri þjónustu varðandi fasteignaviðskipti á einni og sömu skrifstofunni, að ekki sé minnst á þann gífurlega sparnað sem þessi stofnun kemur til með að veita. Það varðar því ekki einungis hag almennings, sem á í fasteignaviðskiptum, heldur einnig þjóðarhag varðandi verðbólguvandann.

Að öðru leyti vísa ég til grg. og væri vel ef þessu máli yrði fylgt fast eftir á Alþ. nú.

Ég legg svo til að till. þessari verði vísað til allshn.