24.11.1976
Efri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

67. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í sambandi við lausn kjaradeilunnar í febrúarmánuði s.l. gerðu Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna með sér samkomulag um málefni lífeyrissjóða, þar sem var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir á samningssviði þessara samtaka veittu lífeyrisþegum sínum, sem rétt eiga samkvæmt lögum nr. 63 1971, sérstaka uppbót á árunum 1976 og 1977, þannig að lífeyrisgreiðslur þessar yrðu betur verðtryggðar en hafði verið fram að þeim tíma. Með lögum nr. 33 20. maí 1976, um breyt. á l. nr. 63 frá 1971, var þessu áformi hrundið í framkvæmd.

Það hafði jafnframt verið gert ráð fyrir því, að sambærilegar breytingar yrðu gerðar á lögum um Lífeyríssjóð bænda. Það vannst hins vegar ekki tími til þess að bera slíkt frv. fram á síðasta þingi. En talið var nauðsynlegt til þess að ná sambærilegum greiðslum úr Lífeyrissjóði bænda og þeim, sem þá þegar höfðu verið upp teknar í þeim lífeyrissjóðum sem ég gat um áðan, að setja brbl. Var það gert á s.l. sumri.

Frv. það, sem hér er flutt, er til staðfestingar á þeim brbl. og gerir ráð fyrir breyt. á l. um Lífeyrissjóð bænda til samræmis við þær breytingar sem gerðar höfðu verið á þeim lífeyrissjóðum sem voru á samningssviði Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.