29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

100. mál, söluskattur

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. ráðh., er ætlunin með þessu frv. að fella olíugjaldið inn í tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og fella um leið úr gildi lög nr. 9 frá 26. febr. 1976, þ.e.a.s. núgildandi mynd laganna sem sett voru eftir olíuhækkunina miklu um áramótin 1973–1974 til þess að jafna nokkuð metin milli fólks, sem býr við olíuhitun, og þeirra, sem notið geta annarra orkugjafa til að hita híbýli sín.

Það má með sanni segja að tíminn sé miður vel valinn til þess að fella niður skylduna sem samkv. þessum lögum hvílir á ríkinu til að koma til liðs við þá sem fengu þessa hækkun á sig, því að nú er yfirvofandi ný olíuhækkun. Það liggur fyrir að í næsta mánuði verður haldinn fundur olíuframleiðsluríkja og á þeim fundi verður ákveðin olíuverðshækkun. Um það velkist enginn maður í vafa lengur sem fylgst hefur með mánaða undirbúningi olíuframleiðsluríkjanna undir þetta fundarhald. Hitt leikur nokkuð á tveimur tungum, hver hækkunin verður, hvort hún verður t.d. 25%, fjórðungshækkun, eins og Íranskeisari vill og Íraksstjórn og fleiri, sem harðast vilja ganga í því að bæta hag olíuframleiðsluríkjanna, eða hvort farið verður niður í 10%, eins og Saudi-Arabía hefur nefnt sem hámark þess sem hún gæti sætt sig við. En orð hennar munu vega þarna þungt, því að þetta er mesta olíuframleiðsluríki í heimi. En um það er sem sagt ótímabært að ræða nú, hver hækkunin verður.

Hækkunin kemur, hún verður með næstum 100% vissu tilkynnt í næsta mánuði, og hún verður veruleg, varla undir 10%. Þá velur ríkisstjórn Íslands einmitt þennan tíma til þess að flytja frv. á Alþ. sem leysir hana undan skyldunni til að leggja fram fé til að draga úr þeim gífurlega aðstöðu- og lífskjaramun sem fylgir því hér á landi hvort fólk þarf að nota olíu til að hita híbýli sín eða hvort það getur búið við aðra hitagjafa og þá sérstaklega hitaveitu. Þessi munur er svo stórkostlegur, að ég efast um að fólk hér á gamalgrónu hitaveitusvæði geri sér almennt ljóst hvað um er að ræða. Það er ekki nokkur vafi á því, að olíukynding er líklega algengast 4–5 sinnum dýrari á sambærilegu húsnæði heldur en kynding með hitaveituvatni á gömlu hitaveitusvæðunum og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík, þar sem hitaveitan kom fyrst og hefur verið vel rekin. Er hún vafalaust hagkvæmasta húsahitun, sem um er að ræða. Það er varla í tempraða beltinu og alls ekki í kuldabeltinu hægt að finna hagkvæmari og ódýrari húsahitunaraðferð heldur en hitaveiturnar gömlu hér í Reykjavík og þær sem fyrstar fylgdu í kjölfarið og hafa verið afskrifaðar meira eða minna að stofnkostnaði. En því tilfinnanlegri verður munurinn fyrir þá sem búa í þeim landshlutum sem ekki fyrst um sinn og jafnvel aldrei geta orðið aðnjótandi hitaveituvatns og upphitunar með hitaveitu. Það er því alls ekki stætt á því, þegar sýnt er að olía mun hækka í verði mjög bráðlega, að ætla þá ekki aðeins að fella niður þá skyldu sem verið hefur í lögum um nokkurt skeið til að draga úr þessum mun, heldur líka samkv. þeim tölum, sem settar hafa verið í fjárlagafrv., að draga í rauninni úr greiðslunum sem fara til þess að lækka hitunarkostnað þeirra sem við olíuhitunina búa, því að það þykir mér sýnt af þeim tölum, sem hér eru, 600 millj. til beinna styrkja til þess að greiða niður hitunarkostnað með olíu og 1000 millj. í Orkusjóð til þess að greiða fyrir hitaveituframkvæmdum. Þar að auki verð ég að taka það mjög skýrt fram og benda hv. þm. á að það er vissulega mikið á sig leggjandi til þess að hraða hitaveituframkvæmdum, og það hefur fólkið sýnt á þeim svæðum þar sem von er á hitaveitum innan skamms. Það hefur tekið á sig ýmsar byrðar í sínum bæjar- og sveitarfélögum. En það er ekki formandi að af ríkisins hálfu skuli verulegur, ef ekki mestur hluti af því fé, sem varið er til að hraða hitaveituframkvæmdum, tekinn af því fé sem upphaflega var ætlað til þess að draga úr kjaramuninum sem hlýst of olíuhitun annars vegar eða hitaveituhitun hins vegar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef haldið er áfram á þessari braut, þá skellur yfir stórkostleg byggðaröskun í landinu, eftir því hvort fólk á að búa við rándýra olíuhitun, sem sýnilegt er að muni hækka í þrepum um ófyrirsjáanlegan tíma, eða hvort það nýtur þess að búa við ódýrustu og hentugustu húsahitun í heimi, íslensku hitaveiturnar.