18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka það að umr. um þetta mál hafa orðið nokkrar og að minni hyggju jákvæðar, enda þótt sumir ræðumanna séu ekki reiðubúnir til að lýsa yfir algerum stuðningi við grundvallarhugmyndina um það að skipa Alþ. í eina deild.

Ég ræddi þetta mál í upphafi á viðum grundvelli og setti það í samhengi við kjördæmamál, kosningu þm., skipan Alþ. og vinnubrögð Alþ., og ég ítreka það, að ég tel að þetta sé sérstakur þáttur í stjórnkerfinu sem gæti verið hyggilegt að fenginni reynslu að leysa sem heild áður en lokið er við aðra hluta stjórnarskrárinnar.

Mér þótti gott að heyra það frá hv. 4. þm. Reykn., hver reynslan í Svíþjóð hefur verið, en Svíar hafa einmitt fyrir fáum árum gengið í gegnum þá stórkostlegu breytingu að afnema deildaskiptingu sænska þingsins og allt sem af því leiðir.

Hv. 4. þm. Vestf. benti réttilega á að breytingin á deildaskiptingu Alþ. hlyti að leiða til þess að gerðar yrðu gagngerar breytingar á þingsköpunum. Þetta er sjálfsagt. Ef Alþ. yrði skipað í eina deild verður að semja þingsköpin nálega upp á nýtt. Það var líka rétt athugað hjá honum, að þróunin er í öllum löndum í þá átt að takmarka heildarræðutíma þm. Það er ekki aðeins í Svíþjóð og Danmörku og stafar ekki eingöngu af deildaskiptingunni eða breytingunni í eina málstofu. Slíkar breytingar eru nú t.d. til umr. í þýska þinginu. Þetta er sama sagan. Málafjöldinn fer vaxandi, málin verða flóknari og flóknari og umr. lengjast og lengjast. Það er þetta sem hefur skapað erfiðleika á mörgum þingum og alls staðar leitt til þess að þm. hafa orðið að sýna þann aga að samþykkja þingsköp sem takmarka verulega ræðufrelsi þeirra.

Annars ætla ég ekki að ræða þetta nánar nú, vegna þess að við alþfl.-menn höfum einnig flutt frv. um breytingar á þingsköpum, þar sem komið er dálitið inn á þetta, að vísu gengið mjög skammt í að stytta umr., en öllu lengra í breytingu á nefndakerfi. En það frv. er miðað við deildaskiptingu eins og hún er í dag, því að ég geri mér vonir um að þingið fáist til þess að breyta starfsháttum sem gera má með því að breyta lögum á styttri tíma heldur en það óhjákvæmilega tekur að breyta stjórnarskránni ef menn vilja afnema deildaskiptinguna. Hins vegar eru breytingarnar, sem í þessu frv. okkar felast, þannig, að þær munu falla mjög vel inn í þær breytingar sem gera þyrfti ef þingið yrði ein deild. Þetta mun koma betur í ljós þegar við ræðum það frv. Ef starfsháttum yrði breytt eitthvað í átt við það sem þar er lagt til, mundi það í sjálfu sér vera skref sem gerði breytingar auðveldari ef deildaskiptingin yrði lögð niður.