07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

46. mál, Styrktarsjóður vangefinna

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 47 að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv, félmrh.:

„Hver eru áform félmrn. um framtíðarskipan Styrktarsjóðs vangefinna: a) varðandi fjáröflun til sjóðsins; b) yfirstjórn hans með hugsanlegri aðild landssamtakanna Þroskahjálpar; c) verkefni sem sjóðnum yrðu falin í tengslum við hugsanlega eflingu hans?“

Stuttan formála skal hér hafa: Málefni þroskaheftra hafa verið í sviðsljósi að undanförnu og margir lagt þar hönd á plóg í áhugastarfi og kynningu þessa vanrækta samfélagsverkefnis. Aðalatriði er þó forganga hins opinbera þar sem hinir þroskaheftu hefðu forgang á þeim sviðum sem brýnust eru: á sviði menntunar og þjálfunar, á sviði félagslegrar þjónustu og atvinnulegra möguleika og eins hvað snertir heilsugæslu alla.

Framlag hins opinbera, samfélagsins, hefur verið mjög af vanefnum, þar sem löngu er vitað og viðurkennt að jafnrétti þessa fólks við okkur hin krefst mikilla fjármuna, umframfjármuna. E.t.v. hefur þetta framlag birst skýrast í Styrktarsjóði vangefinna sem hefur smám saman verið að missa æ meira af raungildi sínu í verðbólgunni þar sem hann var bundinn sem fastur tekjustofn. Lög runnu út á þessu ári, hinn fasti tekjustofn hvarf. Eins og hann var orðinn þá ber út af fyrir sig ekki að sakna hans. En þó að gosdrykkjagjaldið eða tekjustofninn hefði verið fjórfaldaður hefði enginn fundið sérlega til, en margt hefði mátt betur gera. Um endurnýjun af þessu tagi, þ.e.a.s. hins afmarkaða tekjustofns, lágu fyrir víss vilyrði í vor. Nú er þessum sjóði ætlað á fjárl. 40 millj. kr. framlag og hefur hækkað um 25% frá síðasta ári, en þá lækkaði það hins vegar að krónutölu um nær 2 millj. kr. Sjóðurinn sinnir engan veginn í dag brýnustu verkefnum og því er um fjáröflun spurt. Má einskis vænta í átt við þau vilyrði sem fyrir lágu í vor, eða er ákveðið að hinn markaði tekjustofn hverfi að fullu og hvað á þá að koma í hans stað?

Nauðsyn er, hvernig sem allt fer, að skipa sjóðnum ákveðna stjórn, þó að hann eigi að vera í vörslu félmrn. Nú hafa verið stofnuð landssamtökin Þroskahjálp, og fram á það mun farið að þau hafi þar ríkulega hönd í bagga hvað ráðstöfun snertir á þessu fé, og um það er því spurt.

Í síðasta lið er beint að því vikið að sjóðurinn verði efldur og sinni um leið fleiri verkefnum, svo sem ég veit að hæstv. félmrh. hefur haft ákveðin áform um. Öðru verður a.m.k. ekki trúað en að sú efling fáist fram fyrr en síðar.

Inn í þetta kemur félagsleg og atvinnuleg aðstaða og þar er fátt gert nema af sjálfboðaliðum. Sjóður, sem tilheyrir þessu rn., ætti að hafa þessi verkefni, auk þess eina verkefnis hingað til að standa fyrir byggingum eða standa undir kostnaði við byggingar.

Mér þykir hlýða að fá hér um nokkur svör til þess annars vegar að byggja á framhaldsbaráttu innan þeirra samtaka, sem ég starfa í, og eins til að fá þessi mál á hreint fyrir afgreiðslu fjárlaga.