14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur allt frá þingbyrjun haft til athugunar frv. til fjárlaga fyrir árið 1977 og rætt málið samtals á 38 fundum.

Svo sem undanfarin ár hefur undirnefnd fjvn., sem skipuð er einum fulltrúa frá hverjum þingflokki sem sæti á í n., starfað nokkuð á milli þinga og kynnt sér ýmsa þætti í ríkisbúskapnum. Hefur það vissulega komið sér vel við endanlega afgreiðslu fjárlagafrv að slík athugun hafi átt sér stað og þá farið ofan í rekstur einstakra ríkisstofnana. Ég tel að þessi störf n. mætti auka verulega og með þeim skapast betri skilningur á milli fjárveitingavaldsins, ef svo má að orði komast, og þeirra fulltrúa sem eru í forsvari fyrir ríkisstofnanirnar og að sjálfsögðu finnst oftast að þeir beri of lítið úr býtum þegar því fjármagni er skipt sem til ráðstöfunar er hverju sinni þegar fjárlög eru afgreidd.

Að öðru leyti má segja að vinnubrögð fjvn. hafi verið með sama hætti og áður, þannig að nm. hafa skipt með sér verkum og unnið í undirnefndum að sérstakri athugun vissra málaflokka. Þessi vinnubrögð hefur alþm. verið kunnugt um og hafa þeir yfirleitt komið á framfæri sínum áhugamálum við undirnefndarmenn, eftir því sem um málefni hefur verið að ræða.

Þá hefur n. sem fyrr átt góða samvinnu við hagsýslustjóra og starfsmenn í fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn., og hefur það komið n. að óneitanlegu gagni við afgreiðslu málsins.

Samnm. mínum vil ég þakka sérstaklega fyrir gott samstarf í n. og gegnir þar einu máli um fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna sem samherja. Allir hafa jafnan verið reiðubúnir að leggja sig fram til að auðvelda nefndarstörfin og leysa úr miklum vanda sem oft hefur verið fyrir hendi þegar takmörkuðu fjármagni skal skipta í marga staði til aðkallandi verkefna.

Enda þótt fjvn. hafi ekki orðið á eitt sátt um heildarstefnu varðandi afgreiðslu fjárlagafrv. og skili því tveim nál., þá er það svo að brtt., sem n. flytur á þskj. 162, eru fluttar af n. sameiginlega, en minni hl. tekur fram að hann hefur óbundnar hendur um afstöðu til einstakra till., sem fram kunna að verða bornar, og áskilur sér einnig rétt til að flytja frekari brtt.

Þegar gerður er samanburður á fjárlagafrv. fyrir árið 1977 og fjárlög yfirstandandi árs verður að hafa í huga að við samningu fjárlagafrv. fyrir árið 1977 eru breyttar forsendur.

Það hefur lengst af verið venja að byggja grundvöll og afgreiðslu fjárlaga á verðlagi og gildandi kauptaxta sem verið hefur í desembermánuði þegar fjárlög hafa verið afgreidd. Nú er það hins vegar svo, að í gildi eru kaupsamningar fram á mitt næsta ár, — kaupsamningar sem fela í sér nokkra kauphækkun á næsta ári. Þá eru einnig önnur ákvæði kaupsamninganna sem fela í sér viðbótarhækkun ef verðlagsvísitala fer yfir ákveðin mörk eða svokallað rautt strik. Þetta ákvæði samningsins hefur þegar haft nokkur áhrif til hækkunar og er sýnt að um frekari breytingar verður að ræða til hækkunar á samningstímabilinu. Sá munur, sem í gildandi kaupsamningum felst til viðbótar desemberverðlagi og kauplagi, mun vera um 4700 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til áhrifa af rauða strikinu. En í því sambandi er um verulegar upphæðir að ræða varðandi tekjur og gjöld ríkissjóðs og því nauðsynlegt að sá þáttur fjárlagadæmisins sé kannaður áður en fjárlög verða afgreidd.

Forstöðumenn Þjóðhagsstofnunar komu nú nýlega á fund n. og skýrðu frá því að stofnunin væri nú með þessi mál í endurskoðun, og er þess að vænta að niðurstöður hvað það snertir geti legið fyrir um miðja þessa viku eða áður en endanleg afgreiðsla fjárlaga fer fram. Hvaða áhrif til hækkunar þessar verðlags- og kauplagsbreytingar koma til með að hafa á fjárlagagerðina verður ekki sagt um að svo stöddu, en þó má telja vist að hér sé um verulegar upphæðir að ræða sem koma til með að hækka bæði tekju- og gjaldabálk fjárlagafrv.

Svo sem kunnugt er kemur fram í athugasemdum við fjárlagafrv. að nú um næstu áramót tekur gildi fimmti áfangi tollalækkunar samkvæmt aðildarsamningi við Fríverslunarbandalagið og viðskiptasamningi við Efnahagsbandalagið. Tolltekjutap vegna þessara samninga er í frv. metið á 600 millj. kr. og var þá ekki gert ráð fyrir öðrum tollabreytingum. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að ganga lengra í lækkun tolla og þá sérstaklega vegna iðnaðarins. Hefur frv. þess efnis þegar verið lagt fram á Alþ. og er gert ráð fyrir að það verði afgreitt fyrir þingfrestun nú fyrir jól. Þar er gert ráð fyrir því að þessi umrædda tollalækkun muni nema um 350 millj. kr. og að niðurfelling söluskatts á umræddum vöruflokkum muni nema um 150 millj., eða samtals 500 millj. kr. Þessar staðreyndir verður að sjálfsögðu að taka með í reikninginn áður en frv. verður afgreitt við 3. umr.

Eins og brtt. n. bera með sér er þar um nokkrar upphæðir að ræða sem vanáætlaðar höfðu verið eða ríkisstj. hafði ekki að fullu tekið afstöðu til hver fjárupphæð skyldi vera, eins og t.d. útgerðarstyrkurinn til stærri togaranna. Þá hefur n. ekki séð sér annað fært í sumum tilfellum en að hækka lítið eitt fjárveitingu til fjárfestingarliða eða framkvæmda, og kem ég að því nánar síðar.

Þrátt fyrir þessar ákvarðanir, sem þegar hafa verið teknar mun fjvn. stefna að því að miða till. sínar við það að fjárlög fyrir árið 1977 verði afgreidd greiðsluhallalaus. Í því sambandi verður að horfast í augu við það, að ekki verður unnt að verða við ýmsum beiðnum um fjárframlög til margvíslegra mála sem tvímælalaust er brýnt að leysa, en verður ekki komist hjá að fresta um sinn til þess að fjárlagaboginn bresti ekki og afstýrt verði að sá efnahagsbati, sem virðist eiga sér stað á yfirstandandi ári, renni út í sandinn.

Það er álit meiri hl. fjvn. að veita verði sterkt aðhald í útgjaldaáformum ríkissjóðs. Með margvíslegum efnahagsráðstöfunum ríkisstj. og ekki síst í aðhaldi í útgjaldaáformum ríkissjóðs við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár hefur tekist að ná verulegum árangri í glímunni við efnahagsvandann. Þannig eru nú horfur á að takist að koma viðskiptahallanum við útlönd niður í 4% af þjóðarframleiðslunni á yfirstandandi ári, en hann var 12% af þjóðarframleiðslunni árið 1974. Þá er þess vænst að nú muni nást greiðslujöfnuður hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári, og er það öfugt við það sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Þessi þróun hefur vafalaust átt sinn þátt í því að minnka verðbólguna úr á milli 50 og 60% á árinu 1974 niður fyrir 30% á yfirstandandi ári. Þó að árangurinn sé engan veginn nægilega góður í glímunni við verðbólguna, þá er þó hér stefnt í rétta átt, og það, sem athyglisverðast má teljast í þessu sambandi, er að þessi umtalsverði árangur hefur náðst samtímis því að verulegar framkvæmdir hafa átt sér stað um land allt, full atvinna verið tryggð fyrir alla vinnufæra menn.

Ég geri mér fyllilega ljóst að ýmsum finnst mikið á vanta að framkvæmdir hins opinbera haldist í hendur við aukinn tilkostnað og verðbólgu. En ef svo væri má öllum vera ljóst í hvert öngþveiti væri stefnt með efnahagslíf þjóðarinnar, ekki aðeins ríkissjóðs, heldur einnig þjóðarinnar allrar.

Það er oft um það rætt að draga þurfi úr rekstri hins opinbera og þá sé allur vandi leystur. Í þessu sambandi vantar þó oftast að menn nefni ákveðnar stöður eða stofnanir sem leggja mætti niður eða draga saman seglin í rekstrinum. Ég held að allflestar ríkisstofnanir eigi það sammerkt, að forstöðumenn þeirra telja sig illa haldna af því fjármagni sem þeim er í té látið. Þetta er ofur skiljanlegt því að síaukin og ný tækni býður svo mikla möguleika til hvers konar rannsókna og framkvæmda að þar getur verið um óstöðvandi eftirspurn fjármagns að ræða.

En hvað sem segja má um útþenslu í ríkiskerfinu er að mínu áliti einn alvarlegur ágalli sem allt of oft hefur átt sér stað í hinum opinbera rekstri, en það er þegar forstöðumenn ríkisstofnana leyfa sér að virða að vettugi ákvarðanir Alþ. og fjárlög og fara sínu fram um mannaráðningar og eyðslu, burt séð frá því hvað fjárlög heimila. Kom þetta glögglega í ljós á s.l. ári þegar fjmrn. lét gera starfsmannaskrá yfir ráðna starfsmenn í ríkiskerfinu. Svo sem alþm. er kunnugt leiddi þessi könnun í ljós að nokkuð á annað hundrað starfsmenn voru í fullu starfi við ýmsar ríkisstofnanir án þess að heimild væri fyrir hendi til ráðningar. Í fjárlögum yfirstandandi árs var ákveðin upphæð til ráðstöfunar í því skyni að mæta launagreiðslum til þeirra manna sem að dómi fjvn. væri óhjákvæmilegt að fastráða til starfa, en að öðru leyti skyldi því fast fylgt eftir að viðkomandi, sem ekki væri fyrir hendi fjárveiting til þess að mæta kostnaði, skyldi sagt upp og starfið lagt niður.

Ég vil nota þetta tækifæri og undirstrika að ég tel, að strangari aðhaldsaðgerðir og breytt vinnubrögð í fjmrn. í þessum efnum, að fylgjast betur með útstreyminu úr ríkiskassanum, eigi sinn þátt í bættri afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Með þeirri fjárlagagerð, sem nú er unnið að, á þann hátt að gert er ráð fyrir auknum kostnaði, sem þekktur er, fram á mitt næsta ár, ætti að vera auðveldara fyrir alla aðila að gera greiðsluáætlanir og um leið að fylgjast með að greiðslur úr ríkissjóði séu eðlilegar og í samræmi við fjárlög.

Svo sem áður hefur fjvn. við athugun sína á fjárlagafrv. átt viðtöl við fjölmarga aðila, forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana, forsvarsmenn sveitarfélaga og aðra sem komið hafa með erindi til n. vegna margvíslegra málefna sem öll eiga það sammerkt að farið er fram á fjárveitingar í einu eða öðru formi. N. hefur eftir föngum reynt að kynna sér öll þau málefni sem henni hafa borist, en því miður er það svo, að enda þótt vakin hafi verið athygli á því að hafi menn málefni, sem ætlast er til að tekið sé tillit til við afgreiðslu fjárlaga, þá þurfi þau að berast viðkomandi rn. eigi síðar en um mitt sumar, þá er reynslan hins vegar sú, að erindi eru að berast n. allt fram á síðasta dag fyrir afgreiðslu fjárlagafrv., og er þá ekki við því að búast að n. vinnist tími til að lesa slík erindi hvað þá að taka þau til afgreiðslu.

Hjá n. liggja enn nokkur erindi sem hún mun taka til nánari athugunar á milli umr., en auk þess eru vissir málaflokkar sem biða afgreiðslu af n. hálfu til 3. umr. Er þar um að ræða m.a. endanlega afgreiðslu fjárveitinga til ríkisspítalanna, bæði gjaldfærðan stofukostnað og rekstur. Þá bíða einnig till. um skiptingu á fé Íþróttasjóðs, till. um sjóvarnargarða, ferjubryggjur, fjárveiting til fiskleitar o.fl. Þá eru enn óafgreiddar till. um Orkusjóð og ýmsar framkvæmdir sem tengdar eru lánsfjáráætlun, en þess er vænst, að lánsfjáráætlun verði lögð fyrir Alþ. einhvern næsta dag eða í tæka tíð til þess að unnt sé að afgr. mál sem henni eru tengd.

Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir þeim brtt., sem fjvn. hefur leyft sér að flytja á þskj. 162.

Koma þar fyrst brtt. við æðstu stjórn ríkisins, Þar er lagt til að liðurinn sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka hækki um 31/2 millj. kr. Hér er raunverulega um launalið að ræða og er hækkunin í samræmi við það.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, þar er lagt til að fjárveiting hækki um 300 þús. kr., en það er vegna líffræðirannsóknar í Þingvallavatni, en sú rannsókn stendur nú yfir og verður kostuð til jafns af ríkissjóði og af Landsvirkjun.

Þá koma næst brtt. varðandi menntmrn. Er þar fyrst lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld lækki um 10 millj. kr., en það er vegna tilfærslu á sérlið sem verður nr. 998 í fjárlögunum: Ýmsir styrkir, og kem ég að því síðar.

Lagt er til að til Háskóla Íslands hækki launaliður um 2 millj. kr., sem eru laun eins dósents í matvælaefnafræði, en á það var af hendi Háskólans lögð mikil áhersla að stofnsetja umrædda kennslugrein.

Til Náttúrufræðistofnunar Íslands er till. um fjárveitingu að upphæð 433 þús, kr., en það er vegna kaupa á vegghillum fyrir safngripi sem stofnunin hafði fest kaup á.

Menntaskólinn við Tjörnina, — það er nú raunverulega Vogaskóli, — þar er till. um 16 millj. kr. hækkun á gjaldfærðum stofnkostnaði, en þá upphæð vantar á fjárveitinguna svo að staðið verði við samninga við Reykjavíkurborg um greiðslu á andvirði Vogaskóla.

Til Menntaskólans á Ísafirði er till. um hækkun fjárveitinga. Það er gjaldfærður stofnkostnaður. Er sú hækkun aðallega vegna vanáætlunar til húsakaupa fyrir kennara, en einnig til frekari hönnunar og kaupa á brunavarnartækjum fyrir heimavist skólans.

Þá kemur næst till. um fjárveitingu til Kennaraháskóla Íslands, gjaldfærður stofnkostnaður. Er þar lagt til að fjárveiting verði 25 millj. kr. og er þá ætlað að unnt verði að hefja byrjunarframkvæmdir á nýbyggingu við skólann.

Til Íþróttakennaraskóla Íslands er lagt til að liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 5 millj. kr. og er sú upphæð ætluð til hönnunar á byggingarframkvæmdum.

Vélskóli Íslands, gjaldfærður stofnkostnaður, er lagt til að hækki um 4 millj., en það er til kaupa á tækjum fyrir skólann, aðallega til kaupa á rennibekkjum.

Iðnskólar almennt, þar hækkar liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður um 21/2 millj. Um skiptingu á heildarupphæðinni vísast til þess sem fram kemur á sérstökum lista.

Fiskvinnsluskólinn, þar er till. um 2 millj. kr. hækkun fjárveitingar og er upphæðin ætluð til tækjakaupa.

Til Leiklistarskólans er lagt til að launaliður hækki um 2 millj. kr. Er það talið nauðsynlegt til þess að unnt sé að taka inn nýja nemendur á næsta hausti sem annars væri ekki unnt.

Sjómannaskólahúsið, þar er lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 2 millj. 842 þús. kr. Er það vegna vanáætlunar í frv. En einnig er lagt til að til viðhalds hækki fjárveiting um 2 millj. og verður þá samtals varið 18 millj. kr. til viðhalds á sjómannaskólahúsinu. Hér er um mikið verkefni að ræða og gerir fjvn. ráð fyrir að nauðsynlegar umbætur á þessu húsi verði teknar í áföngum og þannig skipt niður á nokkur ár.

Til Fjölbrautaskóla Suðurnesja hækkar liðurinn önnur rekstrargjöld um 3 millj., og launaliður um 10 millj. Er hér um leiðréttingu að ræða vegna vanáætlunar í frv. Þá er lagt til að inn sé tekinn nýr líður: — til Skálholtsskóla 6 millj. kr. Er hér um byggingarstyrk að ræða, en til rekstrar skólans er hins vegar enginn styrkur.

Til byggingar grunnskóla hækkar liðurinn um 32 millj. og 70 þús. og verður þá samtals 1 milljarður 312 millj. 70 þús. kr. til byggingar grunnskóla og skólastjórabústaða. Um skiptingu á upphæðinni vísast til þess sem fram kemur á sérstökum lista.

Þá er lagt til að fjárveiting til byggingar skóla fyrir þroskahömluð börn hækki um 40 millj. kr. og verði samtals 45 millj. Heildarupphæðin skiptist þannig að 25 millj. skal verja til byggingarframkvæmda við Öskjuhlíðarskóla, 15 millj. kr. vegna byggingar álmu við Hlíðaskólann í Reykjavík og 5 millj. eru hönnunarkostnaður.

Dagvistunarheimili, þar er lagt til að liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 25 millj. 700 þús. kr. Um skiptingu á heildarfjárveitingu vísast til þess sem fram kemur á sérstökum lista, en um þennan framkvæmdalið má segja að sjálfsögðu eins og um fleiri liði í frv., að þá hefði þurft að hækka meira því hér er vissulega um mikið verkefni að ræða, en því miður sá n. sér ekki fært að auka fjárveitinguna um meira en hér er lagt til.

Til Félagsstofnunar stúdenta er till. um hækkun sem nemur 3.4 millj. kr. og er það fyrst og fremst ætlað til hækkunar á liðnum til viðhalds á stúdentagörðunum.

Til framhaldsnáms iðnaðarmanna erlendis hækkar liðurinn um 300 þús. kr. til Myndlistarskólans í Reykjavik um 300 þús. og inn kemur nýr líður, til Myndlistarskólans á Akureyri 100 þús. kr.

Þá er næst brtt. við liðinn til jöfnunar námskostnaðar í skólum. Lagt er til, að fjárveiting hækki um 20 millj. og verður þessi liður þá samtals 170 millj. kr.

Til Bréfaskólans er till. um 500 þús. kr. hækkun.

Til Landsbókasafnsins hækkar launaliður um 480 þús. kr., en það er vegna launa hálfs starfsmanns við skrásetningu handrita.

Þjóðminjasafn Íslands kemur næst, en þar er lagt til að liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 600 þús. kr., sem er m.a. vegna Sjóminjasafnsins í Hafnarfirði, en fjárveiting til þess hefur verið á hendi Þjóðminjasafnsins. Þá var einnig lagt til. að liðurinn yfirfærslur til sveitarfélaga hækki um 1200 þús. kr. og verður sá liður þá samtals 8.2 millj. Með þessari hækkun ætti að vera unnt að koma á móti óskum nýrra aðila sem erindi hafa sent til n., en n. hefur ekki séð ástæðu til að taka inn í fjárlagafrv. nýja liði.

Lagt er til að fjárveiting til Menningarsjóðs hækki um 1 millj. 346 þús. kr. og verður þá heildarframlag til sjóðsins á fjárlögum 21 millj. kr. Liðurinn Listir, framlög: Lagt er til að inn komi nýr liður: til Leikfélags Akureyrar 5 millj., en fjárveiting til leikfélagsins var áður af óskiptum fjárlagalíð til leiklistarstarfsemi. Þessi breyting er nú gerð samkv. ósk Bandalags ísl. leikfélaga og Leikfélags Akureyrar. Til Bandalagsins hækkar hins vegar styrkurinn raunverulega um 1.3 millj. kr. Þá er lagt til, að fjárveiting til Leikfélags Reykjavíkur hækki um 1.5 millj. Til Rithöfundasambands Íslands er till. um l00 þús. kr. hækkun.

Þá eru nokkrar brtt. við liðinn til æskulýðsstarfsemi. Kemur þar fyrst till. um hækkun til UMFÍ, 4 millj., til Bandalags ísl. skáta 600 þús. og nýr liður: til Bandalags skáta vegna framkvæmda við Úlfljótsvatn 600 þús. kr. Til Íslenskra ungtemplara er lagt til að fjárveiting hækki um 675 þús. kr., og til KFUM og KFUK hækkar starfsstyrkur um 300 þús., en það er vegna starfseminnar í Vatnaskógi.

Til Íþróttafélags fatlaðra er till. um 150 þús. kr. hækkun.

Þá er lagt til að inn komi nýr liður, sem verður 998 og nefnist Ýmsir styrkir, að upphæð 10 millj. kr. Þessi þáttur var, eins og ég gat um áðan, undir liðnum annar rekstrarkostnaður á aðalskrifstofu menntmrn. Fjvn. telur að það sé rétt að hafa þennan lið sérskilinn frá aðalskrifstofunni og þá ákveðinn að upphæð, enda er það svo að til fjvn. berast ýmsar beiðnir sem tvímælalaust falla undir þennan lið og gæti því n. í vissum tilfellum lagt til að viðkomandi fái styrk af þessum fjárlagalið. Hliðstæð afgreiðsla á sér stað varðandi ýmis erindi sem ekki er talin ástæða til að taka inn í fjárlög sem sjálfstæða fjárlagaliði.

Þá er næst liðurinn 999: Ýmislegt á vegum menntmrn., en þar er um ýmsa styrki að ræða. Lagt er til að fjárveitingar hækki sem hér segir: til Matthíasarsafnsins á Akureyri um 20 þús., til Sædýrasafnsins í Hafnarfirði um 1.5 millj. kr., til Íslenska stærðfræðifélagsins um 100 þús., til Skáksambands Íslands um 300 þús. kr. og til alþjóðaskákmóta um 350 þús. kr., til Bandalags ísl. skáta vegna hjálparsveita um 350 þús. kr., til blindrastarfsemi um 150 þús., til Kvenfélagasambands Íslands 500 þús., til Zontaklúbbsins á Akureyri vegna Nonnahúss 25 þús. kr., til Landakotsskóla 700 þús. kr., til Hlíðardalsskóla 800 þús. Þá kemur nýr liður: til húss Guðmundar Böðvarssonar 200 þús. kr. Til þjóðháttakvikmynda er lagt til að liðurinn hækki um 200 þús. kr. og er þar m.a. haft í huga að veita Slysavarnafélagi Íslands nokkurn styrk til kvikmyndagerðar. Liðurinn sem nefnist Gjöf Jóns Sigurðssonar er lagt til að hækki um 800 þús. kr., en það er með tilliti til þess að upphæðin jafnist á við það sem nemur launum dósents við Háskóla Íslands. Þá kemur undir þessum líð nýr líður: Til eyðingar vargfugla 500 þús. kr.

Að lokum er brtt. varðandi þetta rn. Lagt til að styrkur til Norræna félagsins hækki um 200 þús. kr.

Þá koma næst brtt. varðandi landbrn.

Til Búnaðarfélags Íslands er lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 500 þús. kr. Til Landnáms ríkisins er lagt til að liðurinn

til skipulagningar hækki um 600 þús. Er það vegna svokallaðrar Hólsfjallaáætlunar.

Þá er lagt til að liðurinn til grænfóðurverksmiðju hækki um 20 millj. Skiptist sú upphæð til jafns á milli verksmiðjanna í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu.

Til sauðfjárveikivarna er lagt til að liðurinn til viðhalds hækki um 1352 þús. kr.

Liðurinn fyrirhleðslur er lagt til að hækki um 6 millj. 60 þús. kr. og vísast til sérstaks lista um skiptingu á heildarfjárupphæðinni.

Til landþurrkunar er till. um 425 þús. kr. hækkun og vísast einnig til sérstaks lista um skiptingu á þeirri upphæð.

Liðurinn til búfjárræktar er lagt til að hækki um 2 millj. kr., en það eru launagreiðslur vegna tveggja nýrra frjótækna samkv. búfjárræktarlögum.

Til Norræna búfræðifélagsins er till. um 73 þús. kr. hækkun, og til Félagssamtakanna Landverndar hækkar fjárveiting um 150 þús.

Til Garðyrkjuskólans á Reykjum er lagt til, að launaliður hækki um 600 þús. kr., en það er til að standast kostnað af hálfum starfsmanni til skrifstofustarfa.

Næst koma brtt. við fjárlagafrv. sem varða sjútvrn.

Þar er fyrst lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld á aðalskrifstofu hækki um 2 millj. kr. Til Fiskifélags Íslands hækkar launaliður um 1.8 millj. vegna ráðningar nýs starfsmanns í tæknideild. Einnig hækkar liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður um 500 þús. kr., en það er vegna tækjakaupa.

Til Hafrannsóknastofnunar er lagt til að fjárveiting hækki um 50 millj. 197 þús. kr. Er það vegna vanáætlunar á launagreiðslum til skipverja á rannsóknarskipunum.

Til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er lagt til að fjárveiting hækki um 1.8 millj. kr. Það eru laun eins tæknifræðings við stofnunina.

Framleiðslueftirlit sjávarafurða, þar er lagt til að launaliður hækki um 2.5 millj. og liðurinn önnur rekstrargjöld um 1.4 millj. kr. Er það vegna vanáætlunar á húsaleigu, en þessi stofnun flutti í nýtt húsnæði á yfirstandandi ári. Varðandi launaliðinn, þá er hann aðallega vegna veikindaforfalla og vinnu við rækjueftirlit o.fl.

Þá er lagt til að liðurinn Veiðieftirlit hækki um 5 millj. kr. og verður hann samtals 31 millj. 734 þús. kr.

Til hinna svokölluðu stóru togara er lagt til að inn sé tekinn nýr líður sem er rekstrarstyrkur til þessara skipa, en þau hafa átt við mjög erfiðan rekstrargrundvöll að búa. Er það till. um 94 millj. kr.

Þá er till. um að fjárveiting vegna ársfundar Alþjóða hafrannsóknaráðsins hækki um 500 þús. kr. Gert mun vera ráð fyrir að þessi fundur verði hér á Íslandi á næsta ári.

Varðandi þetta rn. er a.m.k. ein brtt. enn óafgreidd, en það er vegna væntanlegra fiskileitar á yfirstandandi ári. Hefur verið fyrir forgöngu hæstv. sjútvrh. haldið uppi mjög þýðingarmiklum þætti í fiskileit, sem að vísu hefur kostað allmikið fé, en óhætt er að segja að þar hafi verið um verulega góðan árangur að ræða. Árangur af þessu starfi er m.a. þær loðnuveiðar sem nú að undanförnu hafa verið stundaðar úti fyrir Norðvesturlandi með góðum árangri, og einnig má minna á kolmunnaveiðar og spærlingsveiðar sem einnig hafa gefið nokkuð góða raun. Þá má einnig minna á djúprækjuna, en þar er um mjög verðmætan fiskstofn að ræða sem við íslendingar höfum svo til ekkert nýtt allt til þessa. Það gefur auga leið að með útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur verðum við íslendingar sjálfir að hafa frumkvæðið í að nýta þá fiskstofna sem á landgrunninu eru, og ekki mun af veita að dreifa fiskiskipaflotanum til veiða á sem flestum fiskstofnum til þess að dregið verði úr óhóflegri sókn í þá fiskstofna sem talið er að séu í hvað mestri hættu. Hvað hér þarf miklu fjármagni til að kosta mun liggja fyrir við 3. umr. málsins.

Næst koma till. sem varða dóms- og kirkjumrn.

Er þar fyrst till. um fjárveitingu til byggingar húsnæðis fyrir tvær sýsluskrifstofur: til Borgarness 20 millj. kr. og til Eskifjarðar 15 millj. kr.

Þá er lagt til að launaliður við Almannavarnir hækki um 1.5 millj., en það er til ráðningar á nýjum starfsmanni.

Liðurinn Sjómælingar, kortagerð, þar er lagt til að launaliður hækki um 1.3 millj. vegna ráðningar á nýjum starfsmanni.

Þá er í huga að gera nokkurt átak í byggingu ríkisfangelsis. Lagt er til að sá líður hækki um 70 millj. kr. og verður hann samtals 100 millj. Hér er um mál að ræða sem ekki er talið unnt að slá öllu lengur á frest.

Við kirkjumrn. eru eftirfarandi brtt. varðandi þjóðkirkjuna: Liðurinn yfirstjórn hækkar um 700 þús. Er það vegna hálfs starfs við skrifstofustörf. Til söngmálastjóra þjóðkirkjunnar hækkar liðurinn um 1.5 millj., en það er fjárveiting vegna tónskólans sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar stendur fyrir. Liðurinn æskulýðsstörf hækkar nm 1.5 millj. Er það samkv. heimild í lögum og þar er gert ráð fyrir æskulýðsfulltrúa á Norðurlandi. Til bygginga á prestssetrum hækkar liðurinn um 3 millj. kr. og til Skálholtsstaðar um 1 millj.

Loks er lagt til að fjárveiting til Kirkjubyggingasjóðs hækki um 2.5 millj. Heildarfjárveiting til Kirkjubyggingasjóðs verður þá 12 millj, kr. Lengst af hefur Kirkjubyggingasjóður haft litlar fjárveitingar og sjóðurinn því lítils megnugur til þess að standa við bakið á þeim sem í kirkjubyggingar verða að ráðast. Samkv. lögum hefur sjóðurinn ekki heimild til þess að lána út fé sitt og taka fyrir það eðlileg vaxtagjöld. Þessu þarf að breyta, enda væri það mikils virði fyrir þá söfnuði, sem í kirkjubyggingar verða að ráðast, að geta átt aðgang að hagstæðum lánum, þótt ekki séu þau með öllu vaxtalaus.

Þá koma brtt. sem varða félmrn.

Er þar fyrst nýr liður vegna tjóns af náttúruhamförum í Norður-Þingeyjarsýslu að upphæð 40 millj. kr. Hér er ekki gert ráð fyrir að tjónið verði að fullu bætt og þá gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu á næsta ári.

Til Félagsmálaskóla alþýðu hækkar liðurinn um 300 þús. og til Iðnnemasambands Íslands um 150 þús. kr.

Liðurinn 999 við iðnrn., ýmis framlög, er lagt til að breytist sem hér segir: Það er lagt til að fjárveiting til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra hækki um 450 þús. kr. og að byggingarstyrkur til sömu aðila hækki um 3 millj. og verður hann þá samtals 5 millj. Þá er lagt til að fjárveiting til Neytendasamtakanna hækki um 300 þús. kr., til sjómannastofa um 450 þús. og til Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra um 100 þús. kr.

Þá koma brtt. varðandi heilbrrn.

Kemur fyrst till. um að launaliður við landlæknisembættið hækki um 2.5 millj., en það er vegna ráðningar aðstoðarmanns landlæknis við embættið. Þá er enn fremur lagt til að við Heilbrigðíseftirlit ríkisins hækki launaliður um 1.5 millj. kr. og er það vegna ráðningar á nýjum starfsmanni.

Þá kemur nýr liður: Til kaupa á Landakotsspítala 70 millj. kr. Svo sem kunnugt er hefur nýverið verið gerður kaupsamningur við eigendur spítalans og er þetta fyrsta greiðslan samkv. þeim kaupsamningi.

Þá kemur annar nýr liður: Námslán til læknastúdenta að upphæð 3 millj. kr.

Liðurinn til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva o.fl. er lagt til að hækki um 26.5 millj. kr., en við bætist nýr liður vegna röntgentækja 40 millj. og er það vegna sjúkrahússins á Akureyri og Borgarspítalans í Reykjavík. Um skiptingu á heildarupphæðinni vísast að öðru leyti til sérstaks lista á þskj.

Til sjúkrahússins í Stykkishólmi er till, um 4.5 millj. kr. hækkun og verður sá liður 5 millj. kr. Er það byrjunarframlag til að skapa heilsugæsluaðstöðu við sjúkrahúsið.

Lagt er til, að liðurinn héraðslæknir og heilsugæslustöðvar hækki, þ.e.liðurinn önnur rekstrargjöld, um 4 millj. kr.

Næst koma ýmis heilbrigðismál, nr. 399. Þar er lagt til að fjárveiting til Hjartaverndar hækki um 3 millj. kr. og enn fremur að inn verði tekinn nýr líður: Háþrýstirannsóknir að upphæð 5 millj., en með því er gert ráð fyrir að unnt verði að koma á göngudeild hjá Hjartavernd fyrir sjúklinga sem eru með háan blóðþrýsting.

Þá er till. um 1 millj. kr. til manneldisráðs, en það er einnig nýr liður. Liðurinn sjúkraflug er lagt til að hækki um 2.3 millj. kr. og verður samtals 5 millj. 800 þús. Þá koma tveir nýir liðir: til félags astmasjúklinga 300 þús. og til félags exemsjúklinga 300 þús. Liðurinn tækniaðstoð við sveitarfélög er lagt til að hækki um 1 millj. og verður hann þá samtals 4 millj. kr. Vegna reglugerðar um iðjumengun er lagt til að fjárveiting hækki um 1 millj. Við námsferðir héraðslækna og embættislækna er till. um 688 þús. kr. hækkun.

Loks er svo lagt til að fjárveiting til Gæsluvistarsjóðs hækki um 10 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir að till. frá heilbrrn. um skiptingu á heildarupphæðinni hafi borist fjvn. fyrir 3. umr.

Næst koma till. sem varða fjmrn. Þar er lagt til að liðurinn fasteignamat hækki í heild um 7 millj. 43 þús. kr. Sundurgreinist það þannig, að gjöld hækka um 15 millj. 673 þús. kr., en tekjuliður hækkar hins vegar um 8 millj. 630 þús. kr. Af þessu leiðir að launaliður við fasteignamatið hækkar um 12 millj. kr. og eru það laun 9 nýrra starfsmanna sem vinna störf sín aðallega utan höfuðborgarsvæðisins, en jafnframt þessu eru svo lögð niður störf svonefndra millimatsmanna, en þeir voru 450 talsins.

Vegna lífeyrissjóðs starfsmanna stjórnmálaflokkanna er tekinn upp nýr liður að upphæð 6.5 millj. kr. Er þetta í samræmi við lög um umræddan lífeyrissjóð, en hluti af þessari upphæð er frá eldri tíma.

Þá koma brtt. sem varða samgrn. Það er lagt til að liðurinn til einstaklinga og samtaka hækki um 460 þús. kr. Hér er um að ræða fjárveitingu sem skipt er á milli þeirra aðila sem halda uppi þjónustu að vetrarlagi við ferðamenn og þá sérstaklega á erfiðum samgönguleiðum, en þessari upphæð hefur fjvn. jafnan skipt og tilkynnt Vegagerðinni ákvörðun sína þar um.

Liðurinn vitamál er lagt til að hækki um 866 þús. kr. og er þar um launagreiðslur að ræða sem voru vanáætlaðar.

Þá er lagt til að fjárveiting til hafnarframkvæmda og lendingarbóta hækki um 81 millj. 600 þús. kr. Um skiptingu á heildarupphæðinni, sem er 931 millj. 600 þús., vísast til þess sem fram kemur á sérstökum lista. Svo sem kunnugt er mun nú vera gerð fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir og eru þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, framkvæmdir fyrsta árs þeirra framkvæmda. Væntanlega verður áætlunin lögð fram síðar á þessu þingi.

Lagt er til að liðurinn önnur rekstrargjöld við sjóslysanefnd hækki um 1200 þús. kr. Í nál. kemur fram að þessari upphæð sé ætlað að standa undir kostnaði við rannsókn á reki gúmbáta, en svo er ekki. Hér er um misritun að ræða. Upphæðinni á að verja til rannsókna ótiltekið. Nefndin er m.a. að gera rannsóknir á notkun vissrar málningar á þilfar fiskiskipa í því skyni að draga úr slysahættu vegna hálku. Til rannsóknar á reki gúmbáta var á sínum tíma veitt fjárveiting að öðru leyti en því, að ráðgert var að Landhelgisgæslan léti nefndinni í té skip til athugananna. Af skiljanlegum ástæðum varð því ekki komið við á yfirstandandi ári þar sem öll skip Landhelgisgæslunnar voru störfum hlaðin við gæslustörf. Nú hefur hins vegar skipast veður í lofti í þeim efnum og skv. upplýsingum, sem ég fékk hjá forstjóra Landhelgisgæslunnar, er nú ekkert því til fyrirstöðu að gæslan aðstoði við þessa rannsókn. Tjáði Pétur Sigurðsson forstjóri Landhelgisgæslunnar mér að þeir hefðu nú nýlega gert fyrstu athugun í þessu skyni og hefðu nú möguleika á að láta frekari aðstoð í té í þessum efnum. Verður því að vona að þessu máli sé borgið, enda er þar um nokkra fjárupphæð að ræða sem enn er óráðstafað.

Þá kemur liðurinn flugmálastjórn. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 3.1 millj. og skiptist þannig, að 2.6 millj. eru vegna vanáætlunar á rekstrarútgjöldum og 500 þús. kr. eru styrkur til áhugamannafélaga á sviði flugmála. Að öðru leyti bíður frekari afgreiðsla á þessum líð til 3. umr., en þar er um að ræða skiptingu á fé til framkvæmda og tækjakaupa.

Loks er lagt til að fjárveiting til Veðurstofu hækki um 1 millj., en það er vegna hafísrannsókna.

Þá koma brtt. sem varða iðnrn.

Þar er fyrst till. um 8 millj. kr. fjárveitingu til að ljúka verkefnum sem unnið hefur verið að í samvinnu við Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Til Rannsóknastofnunar iðnaðarins hækkar launaliður um 1.5 millj. kr. Er það vegna ráðningar á tæknifræðingi. Til viðhalds er um hækkun að ræða sem nemur 250 þús. kr., og gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 1 millj. 150 þús. kr., en það er vegna tækjakaupa.

Liðurinn til Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins er lagt til að hækki um 2 millj. 420 þús. og er það vegna ráðningar á tveimur nýjum starfsmönnum.

Til eftirmenntunar í iðju og iðnaði, þar er lagt til að launaliður hækki um 400 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 150 þús. Heildarfjárveiting til eftirmenntunar í iðju og iðnaði verður þá 7 millj. kr. og skiptist þannig, að til eftirmenntunar í rafiðnaði koma 4.5 millj. kr. og eftirmenntunar í málmiðnaði 2.5 millj. kr.

Framlag til útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins er lagt til að hækki um 1.5 millj. og verður þá heildarfjárveiting 15 millj.

Lagt er til að framlag til eflingar iðnþróunar og tækninýjunga hækki um 6 millj. og nýr liður: ullar- og skinnaverkefni, verði tekinn upp, að upphæð 5 millj. kr.

Til iðnkynningar hækkar liðurinn um 2.5 millj. Þá er loks lagt til að liðurinn önnur rekstrar­ gjöld við Rafmagnseftirlit ríkisins hækki um 2 millj. kr. Með því er ætlað að Rafmagnseftirlitið í samvinnu við öryggiseftirlit ríkisins taki til sérstakrar athugunar og rannsóknar öryggisbúnað allan við næturhitunargeyma sem í notkun munu vera víða úti um land. Er skemmst að minnast hins mikla tjóns sem nýverið átti sér stað á Akranesi þegar stórt íbúðarhús svo til eyðilagðist, en það var af völdum sprengingar sem átti sér stað þegar næturhitunargeymir sprakk.

Herra forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir þeim brtt., sem fjvn. flytur við þessa umr. um frv. til fjárl. fyrir árið 1977. Eins og ég hef áður að vikið bíða ýmis erindi og málefni afgreiðslu nefndarinnar og till. til 3. umr. En verði þessar brtt. n., sem ég hef nú lýst, samþ., þá valda þær auknum útgjöldum sem nemur samtals að upphæð 907 millj. 225 þús. kr. Af þessu leiðir að á greiðsluyfirliti ríkissjóðs verða gjöld umfram tekjur 18 millj. 591 þús. kr., en halli á lánahreyfingum er eftir sem áður óbreyttur, 752 millj. 146 þús. kr. og því gjöld umfram tekjur 770 millj. 737 þús. kr. Svo sem ég hefi áður tekið fram, mun meiri hl. fjvn. miða afgreiðslu sína á fjárlagafrv. við það að fjárl. verði afgr. greiðsluhallalaus.